15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

110. mál, ráðstafanir og tekjuöflun vegna dýrtíða og erfiðleika atvinnuveganna

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Í 3. gr. laga frá 1941, um heimild fyrir ríkisstj. til ráðstafana til tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna, er ríkisstj. heimilað að fella niður tolla af helztu matvörum, lækka um helming toll á sykri alls konar og hækka um 50% áfengistoll og tóbaks. En þessi heimild er aðeins veitt fyrir þetta ár, 1941. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er þess efnis, að í stað þess, að þessi heimild gildi aðeins fyrir árið 1942, verði hún framlengd einnig til ársins 1943. Ég vil geta þess, að við í n. gengum út frá því, að innheimtu tolla hafi verið hagað samkv. þessu það, sem af er þessu ári, þó að ekki sé búið að samþykkja þessa breyt. Að því er snertir lækkun tolla, hefur stj. að sjálfsögðu í hendi sér fullkomlega. Að því er snertir hækkun tolla bæði á áfengi og tóbaki, þá er verzlunin í höndum ríkisins, og ég veit ekki annað en tollar hafi verið innheimtir af íslenzkum tollvörutegundum án mótmæla.

N. er sammála um að samþykkja frv, og telur æskilegt að gera það hið allra fyrsta, vegna þess hve dregizt hefur að afgreiða málið. N. er fullkomlega sammála um, að ekki sé skynsamlegt að hætta þessari tollaniðurfellingu og lækkun. Það mundi sjálfsagt valda þeirri breyt., sem ekki er æskileg.

N. ræddi, hvort ekki væri ástæða til að fella niður eða lækka fleira af tollum. En samkomulag varð um, að slíkar breytingar teldust frekar eiga reima í sambandi við afgreiðslu þessa frv., um dýrtíðarráðstafanir, sem ríkisstj. hefur lagt fram og liggur nú fyrir. Ber því enginn nm. fram brtt., heldur leggur til í heild, að frv. verði samþ. með þeim skilningi, að framlengingin sé ekki frá þeim tíma, sem l. voru samþ. til, heldur frá síðustu áramótum.

Ég vil nota tækifærið til að beina til hæstv. ríkisstj. tveimur litlum fyrirspurnum í sambandi við þetta mál að nokkru leyti. Hæstv. atvmrh. er ekki við, en hæstv. fjmrh. hefur sagt mér, að hann væri við því búinn að veita svar við a.m.k. annarri fyrirspurninni. Eins og háttv. þdm. er kunnugt, ákvað hæstv. ríkisstj. að byrja á þessu ári að lækka útsöluverð á íslenzku smjöri úr kr. 21.70 kg. og niður í 13 kr. kg, eða um kr. 8.70 kg. Jafnframt tilkynnti ríkisstj., að hún gerði ráð fyrir, að þetta orsakaði ekki útgjöld fyrir ríkissj., því að ætlunin væri að flytja inn smjör frá Ameríku, sem væri miklum mun ódýrara heldur en útsöluverð á íslenzku smjöri var ákveðið, þannig að hagnaðurinn af því að flytja inn smjör mundi a.m.k. nálgast talsvert mjög að bæta upp verðlækkunina á íslenzka smjörinu, því að bændum var lofað, að verð til þeirra skyldi óbreytt fyrst um sinn a.m.k. Síðan þetta var ákveðið, eru liðnir hér um bil 21/2 mánuður. Og ég hygg ekki ofmælt, að alltaf öðru hvoru nú um talsvert langan tíma hefur smjör verið með öllu ófáanlegt. Er mér ekki kunnugt, að neitt hafi komið af erlendu smjöri, og víst er, að ekki er farið að selja það nú. Tvennt leiðir af þessu: Annað, að það er fyrirsjáanlegt, að ríkissjóður þarf að greiða miklu meiri uppbót til bænda fyrir þann tíma, sem liðinn er. Til þess er heimild í dýrtíðarl. frá 1941. En að sjálfsögðu er æskilegt, að Alþ. viti, hversu langt stj. gengur í að nota þessa heimild. Í öðru lagi er það að athuga, að þegar smjör er ófáanlegt, þá er sú lækkun á vísitölunni, sem fengizt hefur með lækkun smjörverðsins, bara tilbúin og óeðlileg. Í raun og veru er engin verðlækkun, þegar varan hverfur af markaðnum. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. er þetta ljóst, og vildi beina fyrirspurninni til þess ráðh., sem hér er viðstaddur, hvort ekki verði endir á þessu skjótlega og hvenær megi vænta, að erlenda smjörið sýni sig. Enn fremur væri æskilegt, ef ríkisstj. gæti gefið upplýsingar um, hve miklu milligjöfin til bænda nemur, til þess að þeir héldu verðinu, sem þeir áður fengu.

Í sambandi við umr. um frv., sem síðast var afgr., vil ég beina þeirri fyrirspurn til ríkisstj., hvort henni sé kunnugt, að gerðar hafi verið ráðstafanir til að flytja inn kartöflur. Verzlanir segja, að kartöflur séu mjög á þrotum. Sumpart kann að vera um flutningaörðugleika að ræða. En mér er sagt af mönnum, sem ættu að þekkja til, að þó að slíkt væri tekið til greina, vanti mikið á, að kartöflur hrökkvi til næsta uppskerutíma. Vil ég því spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún hafi kynnt sér málið og hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja landsmönnum kartöflur.