15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

110. mál, ráðstafanir og tekjuöflun vegna dýrtíða og erfiðleika atvinnuveganna

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Út af fyrirspurn hv. þm. Barð. um það, hvort ríkisstj. teldi sig hafa heimild til þess að gera breyt. á framkvæmd þessa ákvæðis, sem í þessum 1. er, þ.e. heimildarinnar til að láta greiða þennan 10% toll, sem settur er á togaraútgerðina, skal ég geta þess, að ríkisstj. hefur rætt um þetta nokkuð. En ef ég man rétt, þá hefur hv. þm. Barð. lagt hér inn frv. um það, hvernig framkvæma skuli hið eldra útflutningsgjald.

Ríkisstj. lítur þannig á, að þar sem þetta 10% útflutningsgjald, sem lagt hefur verið á togarana, er innheimt nákvæmlega á sama hátt eða eftir sömu forsendum og hið eldra útflutningsgjald, þá getur ríkisstj. ekki breytt þessu, meðan frv. liggur fyrir þinginu um úrskurð á því, hvort breyt. eigi að gera á framkvæmd innheimtu þessa útflutningsgjalds eða hvort innheimta skuli það áframhaldandi svo sem gert hefur verið. Ríkisstj. mundi álíta sig vera að taka fram fyrir hendurnar á Alþ. með því að úrskurða um þetta atriði á meðan frv. um þetta liggur fyrir þinginu.

Ég tel, að ef þingið fellst á till. hv. þm. Barð., sem í þessu frv. greinir, mundi þetta 10% útflutningsgjald að sjálfsögðu verða innheimt á sama hátt og hið eldra útflutningsgjald eftir hans till. yrði þá innheimt.