15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

110. mál, ráðstafanir og tekjuöflun vegna dýrtíða og erfiðleika atvinnuveganna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Hæstv. fjmrh. svaraði ekki fyrirspurn minni raunverulega eins og til var ætlazt. Hann talaði um annað atriði, sem sé það, hvort ríkisstj. teldi sig hafa heimild til þess að reikna á annan hátt útflutningsgjaldið heldur en áður hefur verið gert. En ég spurði um, hvort hæstv. ríkisstj., eins og hún nú er skipuð, teldi sig hafa heimild til þess að gefa eftir af útflutningsgjaldinu eða lækka það, þar sem þarna væri aðeins um heimildarl. að ræða fyrir ríkisstj. til að fara eftir um innheimtu útflutningsgjaldsins, svo framarlega sem ekki yrðu um það nein sérstök fyrirmæli hér á Alþ., því að eins og hv. 3. landsk. þm. (HG) tók fram, hefur þingið ekki séð ástæðu til þess, að þessi l. væru framkvæmd lengur en útvegurinn gæti borið það. Nú er þessi hæstv. ríkisstj. skipuð með nokkuð öðrum hætti heldur en aðrar ríkisstj., sem setið hafa við völd í þessu landi. Þess vegna vildi ég gjarnan fá upplýsingar um það, hvort hún teldi sig hafa sömu heimild til þess að láta þetta koma til framkvæmda eða hætta að koma til framkvæmda eins og aðrar stjórnir, þ.e. þær, sem þingmeirihluta hafa haft að baki sér.

En um hitt atriðið, sem hæstv. ráðh. talaði um, get ég nokkuð upplýst, því að það er búið að gera nákvæma rannsókn á því máli. Og það verður ekki hjá því komizt, að ríkisstj. verði einhvern veginn að svara fyrir það á einhvern annan hátt en hún hefur gert hingað til.

Það eru til þrjár leiðir út úr þessu máli. Í fyrsta lagi að reikna útflutningsgjaldið eftir l. frá 1935, í öðru lagi að gera það eftir 1. frá 1941 og í þriðja lagi, að tekinn sé lögjafnaður á milli þessara tveggja laga. En hvaða leið, sem farin verður, þá er það víst, að tollstjórar á landinu hafa reiknað útveginum miklu meiri gjöld heldur en þeir hafa haft leyfi til, því að það eru hv ergi til ákvæði fyrir því, að ríkisstj. geti lagt á útflutningsgjald fyrir utan l., því að sá frádráttur, sem hefur verið ákveðinn af ríkisstj., hefur verið langt fyrir neðan þann raunverulega frádrátt, sem þarf að reikna í þessum tilfellum, — en það kom nú ekki beint þessu máli við, sem um var spurt.

Hitt viðurkenndi í raun og veru hv. 3. landsk. þm., að hér í landi giltu tvenns konar 1. Ef einn maður kaupir fisk hér á landi og flytur út með öðru skipi en því, sem veiðir hann, þá greiðir hann annað útflutningsgjald en sá, sem veiðir sinn fisk sjálfur, sem hann flytur út. Og ef þessu verður ekki breytt, hlýtur það að síðustu að leiða til þess, að útgerðarmenn verða að selja hver öðrum aflann, áður en hann er fluttur út, til þess að geta komizt hjá þessu óeðlilega og ósanngjarna útflutningsgjaldi, sem aðeins er látið hvíla á herðum mjög fárra manna. En þessa lausn tel ég að vísu ekki heppilega, og þess vegna tel ég, að það þurfi að setja undir þann leka, að hér er að stefna í óefni um þessi mál.

Ég vildi því gjarnan fá alveg ákveðið svar hjá hæstv. fjmrh. Og ef það kæmi í ljós, að það sýndi sig, að þessi atvinnuvegur gæti ekki borið sig nema með því að afnema eða lækka þessi gjöld, vil ég fá því svarað, hvort hann sem fjmrh. teldi sig hafa heimild til þess að breyta þeim eða afnema þau undir þeim kringumstæðum, þó að ekki væri um það gerð nein sérstök samþykkt á Alþ., eftir að búið væri þó að framlengja þau l., sem hann með þessu frv. hefur óskað eftir, að framlengd væru, eins og frv. gerir ráð fyrir.