15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

110. mál, ráðstafanir og tekjuöflun vegna dýrtíða og erfiðleika atvinnuveganna

Pétur Magnússon:

Herra forseti. — Um þetta frv., sem hér liggur fyrir, hef ég ekki frekar að segja en hv. frsm. tók fram. N. hefur ekki athugað l. í heild sinni og ekki gert tilraun til þess að bera fram frekari brtt. heldur en hér eru í frv.

En inn í þessar umr. hefur dregizt annað frv., sem hefur legið fyrir þinginu síðan á öndverðu þingi og flutt var af hv. þm. Barð. Þessu frv. var vísað til fjhn. og hefur ekki fengið afgreiðslu þar. Ég vildi sem form. n. gera grein fyrir því, hvernig á því stendur, að n. hefur setzt á þetta frv., enda er nokkurt tilefni til þess, vegna þess að efni frv. hefur ver ið gert að umræðuefni hér.

Þetta frv. var tekið fyrir einu sinni á fjárhagsnefndarfundi. Og ég vil ekki neita því, að það hafa kannske verið eitthvað skiptar skoðanir um það þar. En ástæðan til þess, að ég sem form. n. hef ekki gert tilraun til þess að knýja fram úrslit um frv., er sú, að ég leit svo á, að hér væri í raun og veru ekki um lagabreyt. að ræða. Eg vil skilja l., eins og þau eru nú, alveg á sama hátt eins og hv. þm. Barð í sínum till. gerir ráð fyrir, að þau verði skilin.

Eins og kunnugt er, á útflutningsgjaldið af fiskinum að reiknast af verði hans, þegar hann er kominn um borð í skip hér á íslenzkri höfn, af fobverði fiskjarins. Áður var það svo, a.m.k. um meginhlutann af þessum fiski, sem út var fluttur, að hans var aflað af þeim skipum sjálfum, sem fluttu hann til útlanda. Og jafnvel þó að keypt væri eitthvað af fiski, sem var við og við, þá var það ekki svo, að hægt væri að segja, að nokkurt innlent gangverð væri til á þeim fiski. Þetta leiddi til þess, að við útreikning útflutningsgjaldsins varð söluverð fiskjarins erlendis að leggjast til grundvallar og frá því dreginn eðlilegur kostnaður við flutning fiskjarins út. Þetta var að mínu áliti gert beinlínis af því, að ekkert gangverð hafði skapazt á fiskinum innanlands.

Nú er þetta alveg breytt. Nú höfum við á fiskinum fobverð ákveðið með samningum á milli ríkjanna, Bretlands og Íslands, svo að ekki þarf lengur að orka tvímælis, hvert sé fobverð fiskjarins. Og þegar þessi breyt. var orðin, álít ég fyrir mitt leyti, að ríkisstj. hafi verið skuldbundin til þess beinlínis að leggja þetta samningsverð til grundvallar við útreikning útflutningsgjaldsins. Og ég trúi því naumast, fyrr en ég tek á því, ef þetta mál væri borið undir dómstólana, að þeir gætu komizt að annarri niðurstöðu um þetta. Það getur enginn maður haldið því fram með nokkurri skynsemd, að ekki sé búið nú að kveða á um það, hvert verð fiskjarins sé, þegar búið er að flytja hann um borð hér á íslenzkri höfn.

Ég fyrir mitt leyti er alveg sammála hv. þm, Barð. um það, að það sé með öllu óeðlilegt að reikna þetta útflutningsgjald á tvo vegu, eftir því, hvort skip, sem flytur fiskinn út, hefur aflað hann, eða fiskurinn er keyptur hér af öðru skipi en því, sem hefur aflað hann, til þess að flytja hann út. Það getur vel verið og er vonandi, að svo sé enn þá, að skipin, sem flytja fiskinn út, hafi einhvern hagnað af fisksölunni. En samkv. l. á sá hagnaður ekki að tollast á þennan hátt, með útflutningsgjaldi, af því að 1. kveða svo a, að það sé fobverð fiskjarins, sem leggja eigi til grundvallar um ákvörðun útflutningsgjaldsins. Mín skoðun er því sú, að hæstv. ríkisstj. ætti að lagfæra þetta, þó að það sé rétt, sem hæstv. fjmrh. segir, að þessi regla hafi komizt á og að þetta hafi verið látið dankast svo, eftir að samið var um fiskverðið. Ég álit, að ríkisstj. eigi að lagfæra þetta, en ef stj. sér sér það ekki fært, þá álít ég, að það eigi að bera þetta undir dómstólana. Ef ríkisstj. sér sér ekki fært, þá á að bera þetta undir dómstólana. Ef þeir sjá sér ekki fært að skera úr því á grundvelli gildandi laga, ætti málið að ganga inn í þingið og jafnvel breyta fyrirkomulaginu, en ekki er ástæða til að rökræða það hér að sinni, — það mætti miða við cif-verð, en þá yrðu gjöldin að lækka.