19.01.1943
Neðri deild: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

116. mál, húsaleiga

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson):

Herra forseti, háttvirtu deildarmenn. — Frv. það til l. um húsaleigu, sem hér er tekið til umr., er samið af n. sem skipuð var af fyrrv. ríkisstj. þann 9. nóv. 5. l. Í n. áttu sæti þessir menn: Árni Tryggvason, cand. juris, fulltrúi lögmanns, og var hann form. n. Enn fremur þeir Sigurjón Á. Ólafsson, fyrrum alþm. og Gunnar Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður. N. var öll sammála um mörg meginatriði, en í ýmsum greinum varð þó ágreiningur, og skilaði Gunnar Þorsteinsson sérstöku áliti og till. um þau. Í þessu frv. er fylgt till. n. í heild um þau atriði, þar sem hún var sammála, en þar, sem ágreiningur varð, er fylgt till. meir í hlutans, þeirra Árna Tryggvasonar og Sigurjóns Á. Ólafssonar. Í einu. atriði hefur ríkisstj. þó talið rétt að víkja frá till. allrar n., þar sem hún leggur til, að húsaleiga megi ekki hækka vegna hækkunar fasteignagjalda, er leiða af hækkun fasteignamatsins, sem nú kemur til framkvæmda, og verður vikið að þessu síðar. Í grg. þeirri, er fylgdi till. n.. er rakin saga þessa máls og greint frá þeim l. öllum, sem sett hafa verið varðandi húsaleigu síðan 4. apríl 1939, að l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi voru samþ. Er ekki þörf á að rekja sögu allrar þeirrar lagasetningar, en látið verður nægja að benda á, að nú eru í gildi þessi l. um húsaleigu: Lög nr. 106 1941, með breyt. og viðaukum 1. nr. 126 1941 og nr. 35 1942, svo og brtt. frá 29. september 1942. Er þá auðsætt að löggjöfin um þetta efni er orðin allruglingsleg og óaðgengileg og því brýn nauðsyn, að gefin séu út heildarlög um húsaleigumál. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er heildarl. um húsaleigu, þar sem gildandi ákvæði um þetta efni eru felld saman í eina heild, en ýmsum nýjum bætt við og nokkrar breyt. gerðar á eldri ákvæðum. Því verður ekki neitað, að þessi l. skerða rétt eigenda til að ráðstafa afnotum eigna sinna og réttinn til að ákveða endurgjaldið fyrir afnotaréttinn. En eins og ástatt er í húsnæðismálunum og dýrtíðarmálunum; verður hjá hvorugu komizt. Ég hygg, að nálega allir séu sammála um, að nauðsynlegt sé að takmarka ráðstöfunarrétt húseigenda eins og gert hefur verið til þess að tryggja að það húsnæði, sem til er, verði að notum fyrir sem flesta. Reynslan hefur sýnt, að öll breyting er hættuleg að þessu leyti, og er því ekki`um annað að ræða en að ákvæðin um uppsagnarheimild séu allþröng. Þar, sem fjárráð manna eru í svipinn mikil, er hætt við, að :e fleiri vildu bæta við sig húsnæði ef uppsagnarheimildin væri rýmri. En hitt er einnig jafn mikilvægt að húsaleigunni sé haldið niðri eftir því sem unnt er, og er það stór liður í viðleitni hins opinbera til að hafa hemil á vaxandi dýrtíð og verðbólgu. Er ástæða til að benda á, að öll n. var sammála um þessi tvö meginatriði, eins og sjá má af grg. n. á bls. 5.

Eins og fyrr var getið, eru gildandi l. um húsaleigu felld saman í eina heild í þessu frv., en ýmis nýmæli eru þar einnig, og skal þeirra nú getið. Í 1. gr. eru þrenn nýmæli. Í fyrsta lagi er leigusala heimilað að skipta á íbúð í húsi sínu við leigjanda sinn. Er þetta mjög til bóta, því að þess munu dæmi, að eigandi hafi ekki getað skipt á íbúð við leigjanda sinn, þótt hún kæmi leigjanda að fullum notum. Í öðru lagi er eiganda gert heimilt að segja upp samningum um leigu á húsnæði, sem notað er til atvinnureksturs, ef honum er þess brýn þörf sjálfum til atvinnureksturs, og virðist þetta sjálfsögð réttarbót. Í þriðja lagi er ákvæði um, að taka megi uppsögn gilda að nokkru leyti, og úrskurðar húsaleigun. þar um. Virðist þetta sjálfsögð tilhögun til að tryggja, að uppsögn nái ekki til stærra húsnæðis en nauðsyn krefur. Í 3. gr. er bann við, að öðrum sé leigt íbúðarhúsnæði en innanhéraðsmönnum, þó með undanþáguheimild, er nær t.d.. til alþm. og nemenda í fastaskólum. Þar er bann við því, að utanhéraðsmenn flytji í hús, er þeir kunna að kaupa (eða eignast) eftir gildistöku laganna í kaupstöðum eða kauptúnum landsins, nema þeim sé þess brýn þörf. Er þetta ákvæði sett til þess að draga úr fólksflutningum til bæjanna, eins og raunar önnur ákvæði þessarar gr., og virðist þess full þörf. Þá er og í gr. útburðarheimild, að því er varðar utanhéraðsmenn, er hafa tekið húsnæði á leigu ólöglega eða flutt í það. Slík útburðarheimild var sett að því er varðar Rvík með brtt. í september s.l. Þykir rétt, að þessi heimild gildi um allt landið (þ.e. öll kauptún og kaupstaði).

Í 4. gr. er það nýmæli, að dagsektir eru hækkaðar úr l00 kr. í 200 kr., ef íbúðarhúsnæði er tekið til annarra nota, og jafnframt öðlast húsaleigun. ráðstöfunarrétt yfir húsnæðinu handa húsnæðislausu fólki.

Í 5. gr. er húsaleigun. veitt heimild til að taka til ráðstöfunar tiltekinn hluta af því íbúðarhúsnæði, sem afnotahafi getur án verið og unnt er að skipta úr, að mati n. Skal n. hafa um þetta samráð við hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstj. enda er svo ráð fyrir gert, að ríkisstj. og bæjar- og eða sveitarsjóðir séu sameiginlega ábyrgir fyrir greiðslu á leigu eða skaðabótum vegna framkvæmdar þessa ákvæðis. Hér er í rauninni heimiluð skömmtun á húsnæði. Þá getur afnotahafi sjálfur ráðstafað slíku húsnæði, sem talið er, að hann geti sjálfur án verið, en húsaleigun. fær þá ráðstöfunarrétt yfir því húsnæði, er þannig losnar. Sumum kann að þykja þetta ákvæði of nærgöngult, en öðrum þykir ef til vill of skammt gengið. Eg hygg, að eins og nú standa sakir, sé slík heimild sem þessi alveg nauðsynleg vegna húsnæðisvandræðanna. Í framkvæmdinni ætti gangurinn að vera þessi: Húsaleigun. fær vitneskju um, hvar fólk geti helzt þrengt að sér. Hún hefur tal af þessu fólki og leggur að því að taka til sín í húsakynnin ættingja eða góða kunningja, sem það gæti búið í góðri sambúð við. Má telja víst, að margir tækju slíku vel og kynnu þessu miklu betur en þurfa að taka í húsakynni sín bráðókunnugt fólk.

Í 6. gr. er það nýmæli, að hækkun viðhaldskostnaðar skuli reiknuð út fjórum sinnum á ári, miðað við mánuðina janúar til marz 1939, og er heimiluð hækkun á húsaleigunni samkvæmt því frá 1. næsta mánaðar eftir að vísitalan hefur verið reiknuð út. Þetta er réttarbót fyrir húseigendur frá því, sem nú er. Í þessari gr. er ákvæði um það, að ekki megi hækka húsaleigu vegna hækkunar skatta af fasteignum. Eins og kunnugt er, hefur nýlega verið gengið frá endurskoðun á fasteignamatinu og hefur það hækkað allmjög, einkum í Rvík, og að því er talið er nemur hækkunin hér í bæ um 30–35% að meðaltali. Þetta lítur ekki vel út í fljótu bragði, en öll hækkun gjaldanna nemur þó tæpast meiru en 100 kr. á hvert hús í bænum að meðaltali á ári, og virðist þó ekki gerlegt að fara að endurmeta alla húsaleigu í bænum út af slíku, þótt því verði ekki neitað, að réttmætt væri, að leigjendur bæru sinn hluta af hækkuninni. Í sambandi við þessa gr. er ef til vill þörf á sérstöku ákvæði um heimild til hækkunar á húsaleigu í Rvík, ef svo vel skyldi fara, að hitaveitan yrði að veruleika meðan l. eru í gildi, því að vitað er, að mikill kostnaður mun fylgja henni fyrir marga húseigendur, einkum þá, sem eiga gömul hús, þar sem ekki er miðstöðvarhitun, og er þessu hreyft hér til athugunar.

Í 7. gr. eru ákvæði um lækkun á húsaleigu vegna vanrækslu á viðhaldsskyldunni eða annarra ástæðna. Er athugandi, hvort þessi ákvæði séu ekki full einhliða. Fólk er mjög misjafnt í umgengni sinni innanhúss, og það virðist ekki óviðeigandi, þótt leigjendum væru lagðar þær skyldur á herðar að fara vel með og ganga vel um leiguhúsnæðið, svo að húseigandi þyrfti ekki að eyða allt of miklu fé í viðhald innanhúss á þessum erfiðu tímum.

8. gr. fjallar um skipun húsaleigun. í Rvík og er ætlunin, að hún sé skipuð fimm mönnum. Störf húsaleigun. hér í bænum hafa verið mjög mikil, einkum eftir að húsnæðisskorturinn færðist svo mjög í aukana, sem raun ber vitni, og er því lagt til, að mönnum verði fjölgað um tvo.

Starfssvið n. er ljóst af l. sjálfum, en rétt er þó að gera grein fyrir því í sem stytztu máli. Hún á að dæma um þarfir leigusala fyrir húsnæði og þá um leið réttmæti uppsagna og fellir úrskurði þar um. Hún á að dæma um nothæfi íbúðar fyrir leigutaka, ef leigusali óskar að skipta við hann á íbúð. Hún metur, hvenær leigja megi utanhéraðsmönnum eða leyfa þeim að flytja í hús, er þeir kunna að eiga. Hún lætur framkvæma útburð á utanhéraðsmönnum, er sitja óleyfilega í húsnæði. Hún metur ástæður fyrir því, að eigandi taki íbúðarhúsnæði til annarrar notkunar og veitir leyfi þess, en ráðstafar húsnæði, sem óleyfilega er tekið til slíkrar notkunar. Hún ráðstafar auðum íbúðum, íbúðarherbergjum og öðru húsnæði, er útbúa má til íbúðar. Hún ráðstafar hluta af íbúðum, sem skipta má úr og afnotahafi getur án verið, í samráði við bæjarstjórn og afnotahafa sjáfan. Hún staðfestir breyt. á leigumálum samkvæmt vísitölu. Loks metur hún húsaleigu, meðal annars í öllum nýjum húsum bæði til íbúðar og annarrar notkunar, og er skylt að láta hana samþykkja alla leigumála gerða eftir 14. maí 1940. Þá dæmir hún loks í dagsektir, ef íbúðarhúsnæði er tekið ólöglega til annarrar notkunar. Enn ákvæði um, hversu n. skipti með sér verkum. Ég hef nú getið flestra breyt. frá eldri l., er máli skipta. Þá er það ótalið, að leigutaka er veittur réttur til að fá aftur húsnæði, sem hann hefir verið úrskurðaður úr, ef það er ekki notað eins og tilskilið var. Eins og getið var í upphafi skilaði hr. Gunnar Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður sérstöku áliti um nokkur atriði. Till. hans eru þessar helztar: Að fellt sé niður skilyrðið fyrir gildi uppsagnar, að leigusali hafi eignazt húsið fyrir 9. september 1941. Þetta skilyrði var upphaflega sett til að hefta brask með fasteignir og draga úr uppsögnum og mun þess enn vera full þörf. Þá leggur hann til, að leigusalar fái tveggja vikna frest til að ráðstufa til íbúðarhúsnæði, er þeir kynnu að hafa tekið ólöglega til annarrar notkunar og jafnlangan frest til að ráðstafa auðu húsnæði, en reynslan hefur sýnt að með því er ekki tryggt, að slíku húsnæði sé ráðstafað á beztan hátt til að bæta úr þörfinni. Hann vill fella niður ákvæðið, er heimilar skömmtun á húsnæði. Hann leggur til, að grunnhúsaleiga sé miðuð við leiguna 14. maí 1940, en hún breyttist þannig, að við hana bætist ársfjórðungslega þriðjungur meðaltals framfærsluvísitölu næsta ársfjórðungs á undan. Þetta mundi hækka mjög framfærsluvísitöluna, en hún aftur húsaleiguna, og væri því gagnstætt öllum tilraunum til að lækka dýrtíðina. Þó leggur hann til, að húsaleigun. sé þannig skipuð, að Alþýðusambandið skipi einn mann, Dagsbrún einn mann, Fasteignaeigendafélag Reykjavíkur tvo menn, en hæstiréttur formanninn, og loks, að l. skuli falla úr gildi 6 mánuðum eftir lok Evrópustyrjaldarinnar, þó ekki síðar en 14. febrúar 1944. Grg. hr. Gunnars Þorsteinssonar, ásamt fylgiskjölum frá n., verður lögð fram, svo að hv. alþm. geti athugað öll gögn sem bezt. N. hreyfir því, að nauðsynlegt muni vera að endurskoða húsaleiguvísitöluna vegna röskunar á hlutfallinu milli verðs á efni og vinnu. Er rétt að benda á þetta til athugunar, en hins verður jafnframt að geta, að athugun sú á þessu atriði, sem fram kemur í bréfi hr. Ragnars Þórarinssonar og fylgir með gögnum, er ekki sannfærandi eða fullnægjandi. Þá sýna fylgiskjöl frá n., að um 300 húseigendur hér í bæ hafa meira en helming tekna sinna af því að leigja öðrum húsnæði. Eru þetta tæplega 10% húseigenda í bænum, en allir hinir hafa þá meira en helming tekna sinna af annarri starfsemi. Eftir skýrslunni að dæma, eru tekjur flestra þessara 300 manna mjög rýrar, og rúmlega 80 þeirra telja sér engar aðrar tekjur en húsaleigutekjurnar.

Í sambandi við húsnæðismálin væri ástæða til að víkja að ýmsum öðrum atriðum. Eitt þeirra er skömmtun á byggingarefni um land allt. En með l. um viðskiptaráð virðist vera veitt full heimild til að koma henni á, með því að setja má tvenns konar skilyrði fyrir innflutningsleyfum, og verður það mál nánar athugað í heild sinni.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. þetta að sinni. En megináherzlu verður að leggja á þau tvö atriði, að húsaleigan verði ekki hækkuð og að tryggt verði með l., að allt húsnæði, sem til næst, verði notað svo vel sem verða má til þess að bæta úr húsnæðisbölinu.