06.02.1943
Neðri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

116. mál, húsaleiga

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson):

Herra forseti. — Ég ætla að segja aðeins örfá orð. Þetta frv. hefur legið nokkuð lengi fyrir þinginu, en það ríður á því, að þessi húsaleigul. geti verið afgr. og birt fyrir 14. febr., vegna þess að ætlazt er til, að þriggja mánaða uppsagnarfrestur sé, þegar húsnæði er sagt upp, og verður því að vera sagt upp þann dag í síðasta lagi.

Ég mun aðeins gera örfáar aths. við þær brtt., sem allshn. hefur lagt fram við frv. Sú breyt., sem lagt er til að gerð verði við l. gr., er til bóta, og legg ég til, að hún verði samþ. Svo er brtt. við 3. gr., þar sem segir, að á eftir orðunum „heimilisföstum innanhéraðsmönnum“ komi: alþingismönnum og nemendum í föstum skólum. — Ég vil vara við því að set ja þetta inn í 1. gr. 1. málsgr. er svona: „Leigusala er óheimilt að leigja öðrum en heimilisföstum innanhéraðsmönnum íbúðarhúsnæði, og eru slíkir leigusamningar ógildir.“ Þetta er aðalreglan, en svo kemur undantekningin í næstu málsgrein, og það er svona: „Þegar alveg sérstaklega stendur á, getur húsaleigun. veitt undanþágu frá upphafsákvæði þessarar greinar um tiltekinn eða ótiltekinn tíma.“ Ef þessi breyt., sem allshn. stingur upp á, yrði samþ., mundi 1. málsgr. verða svona: „Leigusala er óheimilt að leigja öðrum en heimilisföstum innanhéraðsmönnum, alþingismönnum og nemendum í föstum skólum íbúðarhúsnæði, og eru slíkir leigusamningar ógildir“. Ef þessi viðbót kemur inn í 1. málsgr. leiðir af því, að alþingismenn og nemendur í föstum skólum geta leigt húsnæði án þess að húsaleigunefnd fjalli þar um og án þess að hægt væri að segja þeim upp og er þá hætta á, að þm. og nemendur gætu haldið húsnæði, án þess að þeir þyrftu að nota það. Ég álít rétt að bæta ákvæði um þetta inn í 2. málsgr.

Viðvíkjandi brtt. allshn. við 5. gr. er þetta að segja: Þar er lagt til, að bæjar- og sveitarstjórnir geti ákveðið, hvort skammta skuli húsnæði. Það stendur, að bæjar- og sveitarstjórnir geti ákveðið þetta, þegar alveg sérstaklega stendur á. Ég vildi óska, að n. vildi útskýra, hvað fyrir henni vakir með þessu. Það stendur, að það megi úthluta þessu handa húsnæðislausu fólki, en það er ekki nóg. Það þarf að standa sérstaklega á umfram það, en hvað það er, veit maður ekki og þarf að fá skýringu á því. Eins og frsm. tók fram, vakir annað fyrir n. en hún segir í brtt. sinni : “Veita skal afnotahafa íbúðar minnst 3 daga frest, áður en fólki er ráðstafað í hluta af íbúð hans, til að ráðstafa því sjálfur til húsnæðislausra innanhéraðsmanna.“ Þannig leggur n. til í brtt. sinni, að þetta verði, en í frv. stj. er tekið fram um þetta: „Þó getur afnotahafi ráðstafað þessum hluta húsnæðis til handa þeim innanhéraðsmanni, er hann kýs,“ o.s.frv. Eins og frsm. tók fram, hafði þetta fallið niður af vangá, en ég held, að það megi ómögulega falla burtu, því ég tel til bóta, ef hægt er að leysa þessi mál með frjálsu samkomulagi, því að eins og frsm. tók fram, geta þeir, sem hafa rúmgott húsnæði, ráðstafað því til sinna vina og ættmenna, sem þeir vilja taka við, en þurfa ekki að ráðstafa því til hverra sem er af húsnæðislausu fólki, sem þeir vilja ekki taka við. Í því tilfelli er miklu hættara við ósamkomulagi og það er til skaða bæði fyrir leigjendur og eigendur húsanna. Ég álit því, að þetta ætti að standa eins og það er í frv. stj.

Ég tók eftir, að frsm. sagði, að bæjar- og sveitarstjórnir gætu ákveðið að taka til afnota húsnæði, en það þyrfti að taka ákvörðun um það í hverju tilfelli. Þetta álit ég óheppilegt. Það fer ekki vel á því, ef ræða á á opnum fundi í hvert sinn, hvort þessi og þessi maðurinn megi hafa svo og svo mörg herbergi. Ég álit, að húsaleigun. séu þeir aðilar, sem eiga að fjalla um þessi mál, og það eigi ekki að ræða þau á opnum bæjarstjórnarfundi.

Svo er það till. n. um það, að afnotahafi geti áfrýjað til bæjarstjórnar, ef hann telji rétti sínum hallað. Mér skilst, að hann geti áfrýjað, ef tekið er af honum húsnæði. En er nú. nokkur þörf á þessu, þegar í upphafi er tekið fram, að bæjarstj. eigi að fjalla um þetta, áður en húsaleigunefnd hefji framkvæmdir í málinu. Ég held, að enginn geti áfrýjað, ef bæjarstjórn er búin að ákveða þetta fyrirfram. Það gæti valdið misskilningi, hvernig á að fella úrskurð í hverju atriði, þar sem í þessum brtt. er gert ráð fyrir, að bæjarstj. felli fullnaðarúrskurð, ef afnotahafi telur rétti sínum hallað, en í næstu gr. er, að húsaleigun. ákveði leiguupphæð, leigutíma og annað það, sem þörf þykir að taka ákvörðun um og málsaðilar koma sér ekki saman um. Það er ekkert undan skilið, og mætti skilja það svo, að húsaleigun. ætti að fjalla um allt, sem menn ekki koma sé saman um. Þetta þarf að skýrast, svo að það verði ekki misskilið.

Þá eru brtt. við 9. gr., sem ég vil fara nokkrum orðum um. Þar er lagt til, að skipa skuli húsaleigun. í kaupstöðum og þorpum utan Rvíkur. Ég álít þarflaust að ákveða þetta í öllum tilfellum. Ég mundi vilja orða þetta þannig: Í bæjum og þorpum utan Rvíkur skal skipa húsaleigun., enda hafi bæjarstj. fært sönnur á nauðsyn þess fyrir ríkisstj. — Ég held, að ekki eigi að skipa húsaleigun., ef ekkert er með slíka n. að gera, og finnst það vera ill meðferð á fé ríkissjóðs, að launa með því n., sem ekkert er með að gera, en hins vegar verði n. skipuð, ef viðkomandi bæjarstj. getur fært sönnur á, að þess þurfi við.

Ég tel til bóta, að húsaleigun. meti öll herbergi á gistihúsum, og vil taka það fram, að það ber að skoða herbergi á gistihúsum sem íbúðarherbergi. af því leiðir það, að ef húsnæðisekla er, er það á valdi húsaleigun. að ráðstafa hótelherbergjum til þeirra, sem húsvilltir eru.

Annars langar mig að upplýsa það í sambandi við húsnæðisleysið, að ég er ekki svo mjög svartsýnn á það mál. Það eru mjög mörg hús í smíðum hér í Rvík, og hefur verið talið saman, hvað mörg íbúðarherbergi — eldhús ekki meðtalin –séu í þessum húsum, en það eru um 1350 herbergi, en skýrsla, sem ég hef, sýnir, að 497 manns eru taldir húsnæðislausir, vafasamt húsnæðislausir og í of þröngu húsnæði o.s.frv. Þessi skýrsla er frá 18. janúar s.l. 47 fjölskyldur eru húsnæðislausar, eru það samtals 166 manns og einstaklingar 7 manns eða samtals 173 manns, sem eru algerlega húsnæðislausir. Vafasamt húsnæðisleysi h já 120 manns. Ónothæfar íbúðir. Í þeim eru 15 manns, of litlar íbúðir, í þeim eru 44 manns, utanbæjarmenn, sem eru húsnæðis lausir, eru 29 og 54 vantar íbúð til þess að stofna heimili. 66 hafa fengið íbúðir í vetur, en ekki lengur. Þetta eru samtals 497, en í smíðum eru 421 íbúðarhús og í þeim eru samtals 1350 íbúðarherbergi. Ég vildi leyfa mér að benda á þetta einnig með tilliti til þeirra umræðna, sem áður hafa farið fram um húsnæðisleysi þm.

Þetta mál hefur beðið alllengi eftir að komast til 2. umr., en eins og bent hefur verið á áður, þarf að ræða þessar till. Ég vildi mælast til þess við hv. allshn. og þm., sem hafa flutt hér brtt., að brtt. yrðu teknar aftur til 3. umr., til þess að málið gengi fljótar fyrir sig, — af því að nú er orðið nokkuð áliðið. Það, sem fyrir mér vakir, er það, að þessari umr. gæti orðið lokið núna, og mætti þá gefa sér góðan tíma til 3. umr. Ég vildi beina þessum tilmælum til allshn. og þeirra þm., sem eiga hér brtt.