06.02.1943
Neðri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

116. mál, húsaleiga

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Það eru nokkur atriði aðeins út af ræðu hæstv. félmrh., sem ég vildi gera aths. við.

Þetta ákvæði í 5. gr. „Bæjar- og sveitarstjórn getur, þegar alveg sérstaklega stendur á, ákveðið að taka til ráðstöfunar handa húsvilltu fólki tiltekna hluta af íbúðarhúsnæði, sem afnotahafi getur, að mati húsaleigunefndar, án verið og unnt er að skipta úr“, getur bæði verið það að taka fyrir í einstökum tilfellum hvern einstakling fyrir sig til ákvörðunar, og það getur líka verið nokkuð almenns eðlis. Það getur verið hvort tveggja í senn. Ef þörf væri á að taka húsnæði á mörgum stöðum, mundi bæjarstj. taka sína ákvörðun og fela málið húsaleigun. Ég held, að það geti verið þörf á því, þegar bæjarstjórn tekur sína ákvörðun, að það megi áfrýja, með það fyrir augum, að ekki hafi verið búið að kynna sér málið nógu vel. Ég held, að þetta sé réttara en að láta fara fram svo og svo mikla rannsókn, áður en þetta er gert, sérstaklega vegna þess, að það er hægt að taka fyrir einar 10–20 íbúðir í einu. Húsaleigun. getur líka haft úrskurðarvald samkv. orðalaginu, en þetta atriði er aðeins um það, hvort afnotahafi geti neitað að láta af hendi það húsnæði, sem hann hefur. Það er oft þannig, að almennu ákvæðin eru á undan, en undantekningarnar á eftir. Þá er það skilið svo, að almennu ákvæðin gangi fyrst. Ég held, að þetta sé skýrt, svo að það geti ekki fallið undir það ákvæði, sem er á eftir. Ég held, að það sé hættulaust að láta þetta orðalag vera svona.

Þá er þetta um skipun húsaleigun. Ég held, að það sé heppilegra að hafa það þannig, að þær séu hreinlega kosnar. Það er enginn vafi á því, að í öllum kaupstöðum er þeirra þörf, en það er kannske vafi á því í öllum þorpum. Hitt er annað, hvort ástæða er til, að ríkissjóður sé að borga þessum n. laun. Það er ekkert á móti því, að þessar n. séu launaðar úr bæjar- og sveitasjóðum, því að það er rétt, að bæjar- og sveitafélög hafi það í hendi sér að greiða þetta, þar sem það er til hagsbóta fyrir íbúana, og gæti ég fallizt á, að það ákvæði, að ríkissjóður borgi þessum n. laun, falli niður. Ég held, að það sé heppilegra að skipa þessar n. en að hafa það lag, sem hæstv. félmrh. stakk upp á, að skipa þær ekki fyrr en búið er að færa sönnur á þörfina fyrir þær. Ég býst við, að í smærri þorpum sé. alls ekki þörf á að borga fyrir þetta, en þar geti þó verið nauðsynlegt, að húsaleigun. sé starfandi, sem sker úr um ýmislegt viðvíkjandi húsnæði, því að það er fleira fólk. en það, sem er húsnæðislaust, sem getur og þarf að leita til húsaleigun. Það er svo mikið atriði að hafa þessa n., að það er ekki horfandi í að borga þann kostnað, sem af því kann að leiða.

Hæstv. félmrh. talaði um, að hugsanlegt væri að heimila að ráðstafa húsnæðislausu fólki í hótelherbergi. Það getur skapazt það ástand, að það sé óhjákvæmilegt, en það er ekki horfandi fram hjá því, að enginn maður getur þá vistað sig í bænum, sem þarf að koma erinda sinna. Og þegar vitað er, að Alþingi, stj. landsins og allar helztu stofnanir ríkisins eru hér, sér hver maður, að það er ekki víðunandi ástand, að menn utan af landi, sem ekki eiga hér kunningja eða venzlafólk, séu útilokaðir frá því að vista sig hér, en ef gengið er inn á þá braut að fylla hótelherbergin húsnæðislausu fólki, er það útilokað. Það getur til þess komið, að þetta sé nauðsynlegt, en það er nauðsynlegt, að hér sé staður fyrir menn, sem hingað koma fyrir önnur bæjarfélög og í viðskiptaerindum. Ég held, að þetta mál yrði miklu betur leyst með því að ganga harðar fram í skömmtun húsnæðis en að taka hótelherbergi. Það er enginn vafi á því, ef gengið er fast fram í skömmtun húsnæðis, er hægt að fá meira húsnæði.

Ég minntist ekki áðan á till., sem ég ber hér fram ásamt hv. 4. þm. Reykv., sem er um það, að leiga eftir hús, bryggjur og palla til línuveiðabáta skuli falla undir þessi ákvæði. Þetta byggist á frv., sem flutt var hér á þ., aðallega með tilliti til línubáta frá Austfjörðum, sem hafa útræði frá Hornafirði, og voru gefnar upplýsingar um hreint okur þar. Það var sagt frá því, að einn smábátur þyrfti stundum að borga fyrir það að fá að leggjast upp að bryggju, fyrir beitingapláss og fyrir húsnæði handa mönnum, sem ekki eru boðlegir mannabústaðir, um 8000 kr. Svo ofan á þetta er hann skyldaður til að hlíta alls konar fyrirmælum leigusala, t.d.. skyldaður til þess að láta leigusala vera umboðsmann sinn um sölu aflans, sem hann svo græðir á, og síðast en ekki sízt ýmsar kvaðir, sem ef til vill eru ekki í sjálfu sér stórvægilegar, en gefa þó góðar hugmyndir um þær aðferðir, sem hafðar eru í frammi. T.d., það, að útgerðarmönnum er leigð lukt, sem kostar ný um 50 kr., en leigan kemst yfir vertíðina upp í 350 kr. Þetta mun hafa verið gert undir forustu Jóns Ívarssonar, og þessi maður hlaut þann heiður að vera skipaður af ríkisstj. í Viðskiptaráð. Við hv. 4. þm. Reykv. töldum rétt að fyrirbyggja þetta okur og töldum rétt, að þetta væri metið svipað og það var fyrir stríð og leyfð svípuð hækkun á bryggjum og pöllum og bryggjuhúsum og leyfð er almennt. Þar sem ekki náðist samkomulag um, að n. flytti þessa till., urðum við aðeins tveir að henni.

Hæstv. félmrh. fór þess á leit, að við tækjum Brtt. aftur til 3. umr., og býst ég við, að það sé í samræmi við vilja n., að það sé gert, því að við viljum á engan hátt verða valdir að því, að afgreiðsla þessa máls dragist að óþörfu.