06.02.1943
Neðri deild: 51. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

116. mál, húsaleiga

Garðar Þorsteinsson:

Ég og hv. þm. Snæf. berum fram brtt. á þskj. 331, sem ég vil aðeins mæla fyrir, en fellst að öðru leyti á að taka hana aftur til 3. umr. Fyrri liðurinn er við 4. gr., um, að affan við gr. bætist, að húseiganda sé veittur þriggja daga frestur til þess að leigja húsnæðið innanhéraðsfólki til íbúðar. Það er eðlilegast, að húseigandi hafi örstuttan frest til að velja sér leigutaka, eins og kemur fram í 5. gr., að fallizt er á.

Hinn liðurinn er við 6. gr. Þegar frv. kom frá n., var gert ráð fyrir, að heimilt væri að hækka húsaleigu vegna vaxtahækkunar á fasteignum, en síðar verið bætt inn: þó ekki vegna skattahækkunar. — Ég hlustaði á hæstv. ráðh. gera grein fyrir þessu, en féllst ekki á rök hans. Það er upplýst, að fasteignamat hefur hækkað um 30%. Það eru ekki svo háar upphæðir, sem um væri að ræða, en það er sanngjarnt gagnvart húseiganda, að þessi hækkun valdi örlítilli hækkun á húsaleigu. Og hygg, að öllum komi saman um, að húseigendur í Rvík hafi verið sá aðili, sem ströngustu ákvæðin hafa gilt um að undanförnu.

Hæstv. ráðh. spurði áðan, hvað væri átt við í brtt. n. við 5. gr. með orðunum: „þegar sérstaklega stendur á.“ N. var sammála um að setja þetta í frv. til þess að gefa til kynna, að það ætti að vera eitthvað sérstakt, sem lægi til grundvallar fyrir slíku, og persónulega vil ég lýsa yfir því, að ég lít svo á, að það þurfi að koma eitthvað sérstakt fyrir, til þess að það sé réttlætanlegt að taka hluta af íbúðum frá fólki. Ég hafði í huga, ef t.d., yrði gerð loftárás eða eitthvað það kæmi fyrir, sem eyðilegði íbúðir fólks, eða t.d. ef ekki væri hægt að byggja, af því að efni flyttist ekki til landsins. Ég álít ekki, að það ástand, sem nú ríkir, leyfi, að þetta sé gert. Hér búa mjög margar fjölskyldur án þess að hafa leyfi til þess, og þá er ekki eðlilegt að taka íbúðir frá bæjarmönnum, en láta þetta fólk búa hér áfram í leyfisleysi.