08.02.1943
Neðri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

116. mál, húsaleiga

Lúðvík Jósefsson:

Hv. þm. A-Sk. sagði um eitt af þeim atriðum, sem hér hafa verið rædd, umboðslaun af útflutta fiskinum, að það kæmi ekki til kasta þingsins og það mundi ekki leysast með þessari till., sem hér ræðir um. Þetta er ekki rétt. Ef þessi till. nær samþ., þá eru verbúðal. um leið komin undir húsaleigulöggjöfina. En hér í húsaleigufrv. stendur: “Sá, sem áskilur sér hærri leigu en heimilt er samkvæmt lögum þessum, tekur við hærri leigu eða brýtur ákvæði þeirra á annan hátt, skal sæta sektum frá 10–10000 krónum.“ Og auk þess er stranglega bannað að áskilja sér nokkur fríðindi í sambandi við leigukjör. Kaupfélagið á Hornafirði yrði þá líka að hlíta þessu.

Þá vildi hv. þm. láta skína í, að það væri rangt hjá mér, að allar samkomulagstilraunir hefðu reynzt árangurslausar, því að þegar væri búið að leysa málið með samkomulagi. Mér er að vísu kunnugt um, að slíkt samkomulag hefur verið reynt, en það er ekki það samkomulag, sem útgerðarmenn og sjómenn sætta sig við, nema út úr neyð.

Þegar svo var langt gengið að eigandi útgerðarstöðvarinnar á Hornafirði var byrjaður að leigja stöðina bátum úr öðrum landshlutum og austfirzk útgerð átti á hættu að missa einu vetrarvertíðarstöð sína, þá neyddust austfirzkir útgerðarmenn að semja til bráðabirgða, en slíkt voru neyðarsamningar og kjörin 4–5 sinnum óhagstæðari en t.d., við Faxaflóa.

Þá sagði hv. þm., að sjálfsagt væri að halda áfram að greiða leiguna með aflahlut. En ég vil benda honum á, að samkvæmt þeirri aðferð, sem ég mæli með, er leyft að greiða þetta með aflahlut. Hins vegar er líka hægt að fá þetta metið, ef útgerðarmenn og sjómenn æskja þess. Báðar leiðirnar eru sem sé leyfðar. En hann vill, að einungis önnur leiðin sé leyfð. Það getur vel verið, að einhverjir útgerðarmenn æski þess, að þetta sé greitt með aflahlut, og er það þá heimilt samkv. brtt. á 301 þskj., en mat á leigunni er líka heimilt samkv. þeirri brtt. Þá vil ég taka það fram, að það er engan veginn meining mín, að þetta ákvæði gildi einungis gagnvart Hornafirði. Það á að gilda um allar verstöðvar landsins, því að viðar er pottur brotinn en í Hafnarfirði, þó að þar hafi e.t.v. ver ið lengst gengið.