08.02.1943
Neðri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

116. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson:

Aðeins nokkur orð viðvíkjandi 3. málsgr. 1. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir nokkurri breytingu frá því, sem nú er, því að það er lagt á vald húsaleigun. að úrskurða, hvort uppsögn á slíku húsnæði, sem þar um ræðir, skuli teljast gild eða ekki. Nú er það kunnugt, að ekki er minni vandi að fá húsnæði undir verkstæði og slíkt er til íbúðar, og finnst mér því, að með þessu sé verið að gefa húsaleigun. aukið vald til að leyfa húseigendum að taka húsnæði handa sjálfum sér til annarra nota en íbúðar. Ég tel það óheppilegt að gefa n. meira vald í því efni en hún hefur nú. Hér í bæ hafa verið talsverð brögð að því að undanförnu, að leyft hafi verið að taka íbúðarhúsnæði til að setja upp sölubúðir, án þess að útvegað hafi verið annað húsnæði í staðinn, og hafa húsaleigul. gengið of langt í því að heimila slíkt. Ég vil þess vegna leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. þess efnis, að síðari hl. fyrr nefndrar málsgr. falli burt, og vil ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt.