04.03.1943
Efri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

116. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil í upphati leyfa mér að gera grein fyrir því, hvers vegna ég í gær greiddi atkv, á móti því einn þdm., að leyfð væru afbrigði fyrir því að taka þetta mál til umr. Ég leit svo á, að hér væri um svo merkilegt mál að ræða, sem hefði svo djúp áhrif í þjóðfélaginu, að ekki væri rétt að taka slíkt mál upp með of litlum fyrirvara. Ég sé, að frsm. n. er ekki á þingfundi til þess að hlusta á umr. um þetta mál og heldur ekki félagsmálaráðh., sem þó stendur að þessu frv. og enginn úr n. að undanskildum hv. 5. landsk., og vænti ég þó, að hann veiti athygli þeim athugasemdum, sem gerðar eru við frv.„ því að ég mun verja nokkrum tíma til þess að ræða þetta mál, sem ég tel mjög athyglisvert.

Ég vil leyfa mér að minna á það, að þegar gerðardómsl. voru hér til umr. í þessari d. á síðasta þingi, minntist ég á það, hvort ekki væri tímabært að taka til athugunar húsaleigul. Því varaði þá hv. 3. landsk., að hann liti svo á, að það yrði ekki að svo stöddu, en orð hans féllu á þá leið, að ástæða væri til, að l. væru athuguð, þótt hann gæti ekki fellt sig við, að þau væru tekin fyrir eins og þá stóð á. Nú lýsti frsm. því yfir í gær, að grundvöllurinn hefði verið lagður að l. 1939, þegar gengið var fellt, og þá var bannað að hækka húsaleigu hér á landi. Nú er það svo, að margt hefur raskazt í þjóðlífi Íslendinga síðan 1939. M.a. var bann á að hækka laun verkamanna byggt á sama hugsanagangi og húsaleigul. 1939. Nú hafa öll laun hækkað, ekki einasta sem svarar dýrtíðinni, það álítum við ekki hækkun á launum, en þau hafa hækkað um 25–50% á sama tíma og engin breyt. hefur orðið á þessum l., en ef fallinn var grundvöllurinn undan því 1942 að halda niðri laununum, var einnig fallinn grundöllurinn, sem byggt var á 1939 hvað þessi l. snertir. Frsm. n. sagði í gær, að n. hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri, að þessi l. stæðu áfram. Í fyrsta lagi af því að ef þau væru afnumin, mundi dýrtíðin fara upp úr öllu valdi, og atvinnulífið hrynja í rústir. Ég vil spyrja þá, sem að þessu standa: Líta þeir ekki svo á, að hækkun vinnulaunanna hafi átt sinn þátt í að hækka dýrtíðina? Ríkissjóður hefur tekið að sér að greiða ákaflega stóran hluta af verðhækkun landbúnaðarafurða til þess að halda niðri dýrtíðinni, og hann hefur líka tekið að sér stóran hluta af launagreiðslum, ekki til þess að halda dýrtíðinni niðri, heldur vegna þeirrar hækkunar, sem á þeim hefur orðið. Nú er tekinn hér út úr einn flokkur manna, sem einir eiga að bera allar byrðar af dýrtíðinni, án þess að fá nokkrar kjarabætur. Ég verð að segja eins og Þorgeir Ljósvetningagoði, að ég teldi heppilegt, að í þessu landi giltu ein 1., en ekki ein l. fyrir þessa stétt og önnur l. fyrir aðra.

Ég verð að fagna því að hér kemur frsm. til þess að hlusta á umr. um þetta mál.

Þegar litið er á það, að auk þess sem þessum mönnum er ekki leyfilegt að hækka húsaleiguna, hafa verið lagðir tvöfaldir skattar á húseignir, og tvöfaldir skattar geta ekki þýtt neitt annað en það, að leigan lækkar að sama skapi til þeirra, sem húsin eiga, sést, að það er mjög á rétt þeirra gengið. Ég held, að þeir, sem fastast halda á sínum kjörum, gætu ekki fellt sig við slík viðskipti af hendi hins opinbera. Ég sé ekki annað en að með þessum l. séu þessir menn neyddir út í sama smáskæruhernað og verkalýðurinn fór í á síðasta sumri. Ég vildi spyrja, hvort þm. vildu taka á sig þá ábyrgð, sem því fylgdi, ef það rís upp missætti milli húseigenda og þjóðfélagsins eins og um gerðardómsl. Þá skapaðist það fordæmi, að þjóðfélagið varð að beygja sig. Ég er ekki að segja, að það hafi verið ranglátt, en ef það var ekki réttlátt að hinar vinnandi stéttir beygðu sig, þá er ekki réttlátt, að þessir menn beygi sig. Ég gæti trúað, að upp úr þessu gæti skapazt það ástand hér, að ekki sé álitlegt að fara út á þá braut frekar á þessu sviði en öðrum. Það mætti segja mér það.

Frsm. sagði, að á meðan ekki sé hægt að ráðast í nýbyggingar, verði að fyrirbyggja, að hægt sé að segja upp húsnæði. Ég er alveg víss um það, að enginn vill leggja á sig byrðar til þess að auka húsnæði í landinu, til þess að aðrir ráði öllu um það, skipi fyrir um hverjir verði í því húsnæði og skipi fyrir um, hve há leigan megi vera, þannig að sá, sem leggur á sig allt erfiðið, á engan rétt, en hinir allan. Ég veit það, að þeir þm., sem setja þessi l., mundu ekki fást til að gera þetta, þó að þeir hefðu nóg fé.

Frsm. sagði, að n. teldi, að svo væri frá frv. gengið, að það ætti að ná samþykki þ. Eins og ég hef tekið fram, tel ég svo frá því gengið, að það sé ekki einasta smán fyri þingið að samþykkja það, heldur sé stefnt út á svo hættulega braut, að þeir þm., sem hér sitja, séu ekki menn til að ráða við þær afleiðingar, sem af því kunna að verða.

Hann sagði einnig, að formaður húsaleigun. hefði verið með í að semja þetta frv. og í því væri byggt á reynslu hans í því starfi. Nú vil ég spyrja hv. allshn., hvort hún hefur kynnt sér það í þessu sambandi hvernig störfum þessa manns er háttað í n. Mér er það kunnugt, þó að ég hafi ekkert haft með n. að gera, því að ég er einn þeirra gæfusömu manna, sem ekki hafa þurft til hennar að sækja, að n. skoðar sig ekki sem hlutlausan aðila í þessum málum, en skoðar sig eingöngu sem aðila fyrir leigjendur, en ekki fyrir húseigendur, og er það mál út af fyrir sig, þegar n., sem eiga að vera hlutlausar, telja sig ekki vera aðila fyrir báða parta. Þetta er alveg það sama og á sér stað um skattan. Þær telja sig alltaf vera umboðsmenn hins opinbera, en ekki skattgreiðendanna, og húsaleigun. telja sig undir flestum kringumstæðum vera umboðsmenn leigjendanna, en ekki húseigenda.

Ég mun þá snúa mér að frv. og benda á ýmislegt, sem ég tel að þurfi að athuga, ef frv. á fram að ganga, þannig að það verði ekki að öllu leyti sá vanskapnaður, sem nú er. Við 1. gr. er brtt. frá allshn., þar sem talað er um, að orðinu „íbúðarhúsnæði“ verði breytt í húsnæði“, og hef ég ekki á móti því, en finnst, að í 2. málslið 2. gr. ætti að vera „húsnæði“„ en ekki „íbúð“. Þetta finnst mér, að þurfi að lagfæra. Þetta er að vísu smáatriði, en það þarf að lagast til samræmis. Þá vil ég gera fyrirspurn viðvíkjandi 2. gr. og vil spyrja hv. frsm., hvort hann hafi tíma til að vera hér inni í d. Ég vil spyrja hann að því, hver eigi að vera dómari, þegar menn verða að fara úr húsnæði. Er það húsaleigun., sem á að vera dómari í því, hvernig menn megi haga sér til þess að þeir verði látnir fara. 2. gr. er svona: „Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. heldur leigusali (framleigusali) óskertum rétti sínum til að slita leigumála vegna vanskila á húsaleigu eða annarra samningsrofa af hálfu leigutaka (framleigutaka), svo og ef leigutaki (framleigutaki) hagar sér þannig eða fremur eitthvað það, er að mati húsaleigunefndar gerir leigusala verulega óþægilegt að hafa hann í húsum sínum.“ Ég ímynda mér, að það verði ákaflega erfitt að fella dóm um það, hvað teljist vítavert í þessu sambandi, hvort það er vítavert að vera með hávaða, drykkjulæti og söng, eða ef menn koma heim seint á nóttu og spilla næturfriði o.s.frv. Það er spurningin, hvort viðkomandi aðili á að geta skotið úrskurði n. til annars dóms. Hvers vegna má ekki áfrýja til annars, eins og á sér stað með svo margt í þjóðfélaginu? Mér þykir ekkert ólíklegt, að þegar á að fara að taka af mönnum húsnæði, þá komi kvartanir um, að menn hagi sér ekki eins og vera ber. Þá vil ég minnast á þau fríðindi, sem veitt eru samkv. 4. gr., þar sem húseigandi fær 3 daga frest til þess að ráðstafa íbúð sinni. Ég legg ekki mikið upp úr því. Það er vítanlegt, að enginn húseigandi getur valið fólk í samræmi við óskir sínar með þriggja daga fyrirvara á hvaða tíma árs sem er, svo að það mætti sleppa því að gefa þennan frest.

Þá kem ég að 5. gr., sem er aðalumræðuefnið. Ég sé, að nú er hæstv. forsrh. kominn í d. og vildi ég, að hann vildi láta hæstv. félmrh. vita um þetta, ef hann vildi vita af þessum umr. Í 5. gr. 2. málsgr. stendur: „Bæjar- og sveitarstj. getur, þegar alveg sérstaklega stendur á, ákveðið að taka til ráðstöfunar handa húsvilltu fólki tiltekna hluta af íbúðarhúsnæði, sem afnotahafi getur að mati húsaleigun. án verið og unnt er að skipta úr.“ Það er vitanlega alveg ótækt, eins og hv. 6. landsk. benti á hér í gær, að gefa slíkt vald í hendur bæjarstj. Við vitum það ákaflega vel, að það er algerlega rakalaust, sem hv. 9. landsk. hélt fram í gær, að þessir menn væru kosnir af fólkinu. Við þekkjum það hér í Rvík, að það eru ekki mennirnir, sem eru kosnir, það eru flokkarnir. Það er hægt að segja, að það séu flokkarnir, sem kjósa mennina, en ekki fólkið, svo að frá því sjónarmiði standa þessir menn ekki í neinu sambandi við þá, sem kjósa þá, því að margir þekkja þá ekki, og að ætlast til þess, að bæjarstj. ráði fram úr þessu með álíka athugunum og koma fram í afgreiðslu málsins hér á þ., virðist mér vera alveg vonlaust um svo viðkvæmt mál. Það nær ekki nokkurri átt að ætla að heimila með l., að bæjarstj. geti sett reglugerðir um hámark íbúða. Ef á að tilgreina hámark íbúða, verður það að gerast hér á Alþ. Þetta vald á ekki að gefa bæjarstj. Það þarf meira að koma til greina heldur en hvernig bæjar- og sveitarstj. eru skipaðar á hverjum tíma, það þarf líka að athuga þarfir þeirra, sem í húsnæðinu búa. Þingið þarf að ráða, hvernig skipast um þessi mál, en ekki kasta því frá sér. Þá er miklu betra, að hér séu teknar upp til rökræðna þær ákveðnu till., sem komið hafa frá ákveðnum stjórnmálaflokki um, að menn hafi ekki til íbúðar nema vissa tölu fermetra. Ég er ekki víss um, að sú fermetratala næði samþykki allra þingmanna, þó að hún gæti náð eins atkv. meiri hl. í bæjarstj.

Hér er úrskurður n. um þessi atriði fullnaðarúrskurður. N. er gefið svo mikið vald, að það er raunverulega ekki undir neinum kringumstæðum hægt að áfrýja öðru en því, sem snertir fjárhagshliðina, til dómstólanna. En hvaða vit er í því að gefa þegnunum rétt til að fara til hæstaréttar með 2 króna spýtumál, eins og á Raufarhöfn, en banna þeim að sækja til dómstólanna mannréttindi, sem þeir meta meira en nokkra peninga? Slíkar till. geta ekki komið frá öðrum en þeim, sem er sama um bæði sín eigin heimili og annarra. Hjá öllum menningarþjóðum er það eitt aðalmenningarmál að skapa frið um heimilin. Þetta kemur einna sterkast fram hjá Englendingum, þegar þeir segja: Heimilið er virki. Þetta virki er verið að brjóta hjá okkur. Hafa þessir menn athugað, hve mikil uppeldisskilyrði eru fyrir börn hér á götunni og hver uppeldisáhrif það hefði að sparka þeim út úr húsunum? Ég er alveg undrandi á því, að hæstv. félmrh. skuli geta leyft það að láta þessi ákvæði standa.

Í 7. gr. er ákvæði um það, ef leigusali vanrækir leiguskyldu. Einnig það atriði á að vera dæmt af n., og er ekki hægt að áfrýja því fyrir dómstólana. Ég er alveg undrandi á því, að hv. frsm., sem er sjálfur málafærslumaður og rekur fyrir hæstarétti mál, sem eru auðvirðileg í samanburði við þetta, skuli geta ljáð þessu fylgi sitt.

Í 10. gr. stendur, að húsaleigun. beri að fella úrskurð um ágreining út af uppsögn á leigusamningi um húsnæði samkv. 1. gr. Skjóta megi þeim úrskurði n. til dómstólanna, en hlíta skuli honum, unz dómur falli. Hvernig geta þessir 4 lögfræðingar, þ. á m. hv. þm. Str., fyrrv. dómsmrh., ætlazt til, að farið sé inn á þessa nýju braut? Að láta dóm gilda, sem búið er að áfrýja. Eru nokkur fordæmi til slíks? Eru nokkur dæmi þess, ef maður hefur verið dæmdur, að dóminum sé fullnægt, áður en annar dómur hefur gengið um málið? En svo mjög er gengið á húseigendur hér, að þeim er ekki gefinn neinn réttur á neinum sviðum.

Hv. frsm. upplýsti í gær, að menn hefðu tekið til eigin afnota meira húsnæði en nauðsyn krafði, því að þeir væru hræddir um að losna ekki við leigjendur aftur. Gæti ekki líka verið, að menn hikuðu við að reisa hús meðan slík l. gilda í landinu? Það mundi hafa meiri áhrif til ills en hin ímynduðu áhrif til góðs, ef frv. verður samþ. Það mundi ekki verða til annars en vekja takmarkalausar þrætur, úlfúð og baráttu, sem mundi leiða til verra og verra öngþveitis í húsnæðismálunum. Ég vænti því, að hv. þm. hugsi sig vel um áður en þeir staðfesta þessi l. óbreytt. Bezt væri að láta frv. hreinlega falla, en láta þau l., sem gilda, standa, þar til samkomulag verður um að breyta þeim viturlega. Ég vil eindregið óska þess við hæstv. félmrh., að hann beiti sér fyrir því, ef frv. á að verða að l., að því sé breytt svo, að húseigendum verði gert jafnt undir höfði og öðrum þegnum, og verði ekki til að lama uppeldisáhrif í bæjunum. Það er miklu meira atriði en hægt er að meta í tölum.