04.03.1943
Efri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

116. mál, húsaleiga

Frsm. (Guðm. Í. Guðmundsson):

Hæstv. félmrh. veik að breyt., sem gerð var á 4. gr. frv. við afgreiðslu þess í Nd. Hann gat þess sérstaklega, að hann teldi óheppilegt, að húseiganda, sem væri staðinn að því að taka í heimildarleysi húsnæði, yrði gefið tækifæri til að ráðstafa því aftur.

Ég vil nota tækifærið til þess að undirstrika það sjónarmið, að það kemur ekki til mála, að húsráðandi, sem staðinn er að því að brjóta l. með því að taka til sín húsnæði, fái að hafa óbundnar hendur með að ráðstafa því. Það má ekki minna vera en að þess sé krafizt, að húsráðandi skuli ráðstafa því til húsnæðislausra innanhéraðsmanna. Ég mundi taka undir það að bera fram sérstaka brtt. um það.

Að því er snertir orðin „þegar sérstaklega stendur á“ í 5. gr., vil ég segja nokkur orð. Hæstv. félmrh. skýrði frá því, að í hv. Nd. hefði einn allshnm. tekið fram, að hann skildi ákvæðið þannig, að það ætti því aðeins við, að um brýna og óvenjulega nauðsyn væri að ræða, og vildi hæstv. félmrh. álita, að álit þessa hv. nm. kynni að hafa áhrif fyrir dómstólunum. Af þeirri reynslu, sem ég hef sem lögfræðingur, og kynnum mínum af dómstólunum, finnst mér ekki geta komið til mála, að þau ummæli hv. þm. í allshn. geti haft áhrif. Dómstólarnir eru vanir að leiða hjá sér álit einstakra þm. Enda er það svo, að þegar þm. ræða um slíkt, þá togar hver í þá skoðunina, sem hann vill sjálfur telja rétta. Ég fyrir mitt leyti get ekki fallizt á, að orðalag frv. gefi tilefni til þeirrar skoðunar, sem hann lagði í það. Vegna þess að nokkur ágreiningur er um, hvernig þessi ummæli eigi að skiljast, þá er eðlilegt að breyta orðalaginu svo, að eigi verði frekar um það deilt.

Þá mun ég fara nokkrum orðum um ræðu hv. 1. þm. S. M. Hann gat þess, að ég hefði látið þau orð falla í framsöguræðu minni, að I. þau, sem gilt hafa um húsaleigu, væru engin lausn á þessu máli. Mér er ljóst, að þau eru ekki fullnægjandi, því að það er ekki nóg að setja löggjöf um hagnýtingu húsnæðis, heldur þarf einnig að örfa nýbyggingar. En þetta frv., sem hér er á ferðinni, er ekki þýðingarlaust, heldur þvert á móti til mikils gagns. Það er að vísu aðeins bráðabirgðalausn á meðan brotizt er fram úr mestu erfiðleikunum. Hingað til hefur litið verið gert af hálfu ríkisvaldsins til bygginga. Hið eina er það, að veittur var styrkur til Byggingafélags verkamanna, til þess að koma upp húsum, en annað var ekki gert, enda þótt þess hafi verið full þörf.

Þá sagði hv. 1. þm. S. M., að óþarfi væri að láta l. um húsaleigu gilda nema í Rvík og stærstu kaupstöðunum. Ég er honum ekki sammála hér, því að það er vitað mál, að víða í sjávarþorpum er húsnæðisleysi fullt eins tilfinnanlegt og hér í Rvík. Að sjálfsögðu verða l. ekki framkvæmd nema þar, sem þess er þörf, og þess vegna þarf ekki að vera að binda þau við ákveðna staði. Þá mun ég snúa mér að hv. 6. þm. Reykv.hv. þm. og ég erum sammála um frv. að undantekinni 5. gr. þess. Við erum sammála um grundvallarsjónarmið 5. gr., enn fremur um það, að húsaleigun. þurfi heimild til þess að taka auðar íbúðir og ráðstafa þeim. Einnig erum við sammála um, að nauðsynlegt sé að skammta húsnæði. Um þetta þrennt er enginn ágreiningur okkar á milli, heldur hitt, hver skuli hafa í hendi yfirstj. á skömmtun húsnæðis. Ég tel því máli bezt borgið í höndum bæja- og sveitastj., en hv. 6. þm. Reykv. vill, að málið sé í höndum húsaleigun., og rök þau, er þessi hv. þm. færði fyrir máli sínu í gær, leiddu að þeirri niðurstöðu, sem ég kemst að í þessum efnum. Hann sagði, að Rvíkurbæ hefði gengið erfiðlega að fá lagaheimild til þess að bera utanbæjarmenn út úr húsnæði, og ég skal ekkert segja um hvað rétt er í því efni. En svo gat hv. þm. þess, að þegar lagaheimildin hefði verið fengin, þá hafi reynzt erfitt að framkvæma hana af því, að húsaleigun. hafi gengið lélega fram í því að nota lagaheimildina, og bæjarstjórn hafi ekki nóg vald hvað þetta snertir.

Af þessum forsendum dregur svo hv. þm. þá ályktun, að rétt sé að hafa þetta vald í höndum húsaleigunefndar, en mér fyndist nær að draga þá ályktun að réttara sé að hafa þetta vald í höndum bæjarstj.

Ég get að vísu vel skilið, að hv. 6. þm. Reykv. vilji ekki fá þessi mál undir bæjarstj., því að það er erfitt að gera svo öllum líki í þessum efnum, og getur hæglega skapað bæjarstj. óvild, en þó er það að mínum dómi eðlilegra, að þessi mál séu í höndum þeirra manna, sem kjósendurnir trúa fyrir málum sínum.

Þá er ræða hv. þm. Barð. Það var löng ræða, en innihaldið fremur veigalítið. Hv. 5. þm. Reykv. hefur svarað þessari ræðu rækilega, svo óþarfi er fyrir mig að fara út í hana nákvæmlega, en ýmis atriði í ræðunni gefa tilefni til nánari íhugunar. Hv. þm. Barð. sagði, að frv. þetta væri bæði illa undirbúið og illa athugað af n. — Þessi ummæli ásamt ýmsu fleiru bera með sér, að þessi hv. þm. hefur hvorki kynnt sér frv., álit milliþn. né heldur l. um þessi efni. Hann talaði um 2. gr. frv., en hún er svohljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. heldur leigusali óskertum rétti sínum til að slita leigumála vegna vanskila á húsaleigu eða annarra samningsrofa af hálfu leigutaka, svo og ef leigutaki hagar sér þannig eða fremur eitthvað það, er að mati húsaleigun. gerir leigusala verulega óþægilegt að hafa hann í húsum sínum.“ —– Hv. þm. Barð. fannst þessi ákvæði ekki nógu skýr, og enn fremur sagði hann, að hér væri á ferðinni nýmæli. Ef hv. þm. hefði staldrað við, þá hefði hann getað séð, að hér var ekki um nýmæli að ræða, því að 2. gr. frv. er tekin úr 2. gr. l. 8. sept. 1941. Svo að ef þessi hv. þm. hefði fylgzt með almennum fréttum í dagblöðunum, þá hefði hann getað séð, að þessum málum var komið þannig fyrir, að húsaleigun. gat úrskurðað útburð. Ef eigi var unað við þann úrskurð, þá gat málið farið til bæjarþings og síðan til Hæstaréttar. — Þetta vita allir, nema ef til vill ekki hv. þm. Barð.

Svo er hér annað dæmi, sem sýnir, hve grunnt þessi hv. þm. veður í málinu. Hann minntist á 10. gr. frv., en hún er á þessa leið: „Húsaleigunefnd ber að fella úrskurð um ágreining út af uppsögn á leigusamningi um húsnæði samkvæmt 1. gr. laga þessara. Skjóta má þeim úrskurði til dómstólanna, en hlíta skal honum, unz dómur fellur.“

Þetta finnst þessum hv. þm. nýmæli og biður mig að benda sér á hliðstæð ákvæði í l. — Úr því hann hefur ekki kynnt sér þetta, þá get ég frætt hann á því, að mörg hliðstæð ákvæði eru til í íslenzkum 1., og þessi gr. er tekin orðrétt úr 10. gr. 1. frá 8. sept. 1941. — Þá gat hv. þm. þess í sambandi við 5. gr., að þegar um skömmtun húsnæðis væri að ræða, þá væri húsaleigun. æðsti aðili. Ef hv. þm. hefði lesið 3. málsgr. 5. gr., þá gat hann séð, að þar er heimild til að skjóta málinu til bæjar- eða sveitarstj., ef ágreiningur kemur upp. Á þessu getur hv. þm. séð, að úrskurðarvaldið er ekki í höndum húsaleigun.

Mér blöskraði ræða þessa hv. þm., en þó ekki verulega fyrr en hann réðst að okkur fyrir það að vera fylgjandi frv. og sagði, að það sýndi, að við mætum lítils heimili okkar. Ég tel þurfa mikinn kjark til þess að bera fram aðra eins ósvífni, því að ef hv. þm. hefði fylgzt með húsnæðismálunum, þá hefði hann aldrei viðhaft slík ummæli.

Heilsa fjölda barna og kvenna er nú í mikilli hættu vegna húsnæðisskorts. Heilar fjölskyldur þurfa nú að hafast við í bárujárnsskúrum suður á Melum, á meðan ýmsir hér í Rvík hafa húsnæði svo úr hófi keyrir. Jafnvel eru dæmi þess, að tvær manneskjur hafi 10 herbergja íbúð.

Ef hv. þm. Barð. hefði spurt sessunaut sinn um þessi mál, þá hefði hann ekki látið annað eins frá sér fara og raun ber vitni. Ég vil undirstrika það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, snertir alla, og heilsa fjölmargra er undir því komin, hvort frv. verður samþ. Ég legg til, að það verði samþ. óbreytt, því að ég er með því, að til bóta verði stefnt, en ekki í voða, eins og hv. þm. Barð. virðist vilja.