04.03.1943
Efri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

116. mál, húsaleiga

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson):

Herra forseti. — Vegna ummæla hv. þm. S.Þ. langaði mig til að gefa örlitla skýringu.

Mér skilst, að það sé aðallega þrennt, sem sker þennan hv. þm. fyrir hjartað í þessu máli. Í fyrsta lagi, að það skuli ekki vera ákvæði í frv. stj., sem bægja að einhverju leyti fólki frá Rvík. Í öðru lagi, að frv. hafi komið þannig frá Nd., að alþm. og nemendur í föstum skólum þurfi að sækja um leyfi til húsaleigun. til þess að fá að taka á leigu húsnæði í Rvík. Í þriðja lagi er það skömmtun á húsnæði. Ég vil nú gefa nokkra skýringu viðvíkjandi þessum atriðum.

Í 11. gr. stendur, að leigusala sé skylt að leggja fyrir húsaleigun. til samþykktar alla leigumála, sem gerðir hafa verið eftir 14. maí 1940. Í 3. gr. er sagt, að leigusala sé óheimilt að leigja öðrum en heimilisföstum innanhéraðsmönnum íbúðarhúsnæði, og séu slíkir leigusamningar ógildir. Í 1. gr. stendur, að leigusala sé óheimilt að segja upp leigusamningum um íbúðarhúsnæði nema honum sé að dómi húsaleigun. þess brýn þörf til íbúðar fyrir sjálfan sig eða skyldmenni í beinni línu, kjörbörn og fósturbörn, enda hafi hann og eignazt hús það, sem íbúðin er í, fyrir 9. sept. 1941. Þegar sérstaklega stendur á, geti húsaleigun. þó leyft aðfluttum opinberum starfsmanni, sem Eignazt hefur hús á starfssvæði sínu eftir 8. sept. 1941, að segja upp leigusamningum um húsnæði í húsinu, verði honum talin þess brýn þörf fyrir sjálfan sig. Í stuttu máli, þetta frv. gengur fyrst og fremst út á að tryggja húsnæðislausu innanbæjarfólki húsnæði. Það gengur út á að bægja frá utanbæjarmönnum. Það verður að leggja fyrir n. alla samninga, sem gerðir hafa verið fyrir 14. maí 1940, og ef kemur í ljós, að með þeim hefur verið leigt utanbæjarfólki, þá eru þeir ógildir. Í 3. gr. segir, að húsaleigun. geti látið framkvæma útburð á þeim utanhéraðsmönnum, sem ólöglega hafa tekið húsnæði á leigu og skuli því ráðstafað handa húsnæðislausum innanhéraðsmönnum. Meira held ég ekki, að sé hægt að gera.

Þá er annað atriðið, að það sé óviðkunnanlegt, að alþm. eða nemendur í föstum skólum skuli þurfa að sækja um það til húsaleigun. að fá að taka á leigu húsnæði í Rvík. Það kann að vera, að það sé óviðkunnanlegt, en það verður þó ekki komizt hjá, að alþm. og nemendur í föstum skólum verði eins og aðrir þegnar landsins að gera vart við sig, þegar þeir taka húsnæði á leigu, og eftir brtt., sem n. gerir ráð fyrir, er n. skylt að veita alþingismönnum, nemendum í föstum skólum og öðrum, sem líkt stendur á fyrir, leyfi til að taka húsnæði á leigu, og það hefur ekki staðið á slíkum leyfum. Ef þetta ákvæði væri ekki, gæti verið hætta á, að menn kæmu og segðust vera nemendur í föstum skólum, en væru það ekki, og þá væri botninn farinn úr öllu. Ég vænti þess, að hv. þm. skilji þetta, þegar hann hugleiðir það, að nauðsynlegt er, að n. geti fylgzt með, hverjir fá húsnæði, og gæti þess, að ekki fái aðrir húsnæði en þeir, sem leyfilegt er að fá það.

Um 5. gr. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða neitt meir. Mér skilst, að flestir séu sammála um, að ekki sé hægt að komast hjá að reyna að leysa sárustu neyð manna í húsnæðismálunum, þ.e.a.s. innanhéraðsmanna. Ekkert bæjarfélag mundi líða, að fólkið liði hungur, og það getur heldur ekkert bæjarfélag liðið, að svo og svo margir bæjarbúar eigi ekki þak yfir höfuðið, og ég hygg, að ekki verði mikil vandræði að fá fólk til að hliðra svo til, ef að því er farið með lagi, að skömmtunarákvæði 5. gr. þurfi ekki að valda neinni byltingu.

Annars vil ég vekja athygli á því, að í Rvík er nú mikið húsnæði í smíðum. Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa eru nú í smíðum 5 eins herbergis íbúðir, 118 2 herbergja íbúðir, 110 3 herbergja íbúðir, 78 4 herbergja íbúðir, 25 5 herbergja íbúðir, 17 6 herbergja íbúðir, 4 7 herbergja íbúðir og 4 8 herbergja íbúðir. Alls er þetta 421 íbúð, sem nú er í smíðum í Rvík. Ef maður reiknar út herbergjafjölda, þá eru þarna 1350 íbúðarherbergi, og þegar þau öll eru fullgerð og þegar þess er gætt, að fólksstraumurinn til bæjarins stöðvast, vegna þess að ekki má leigja utanhéraðsmönnum, þá held ég, að húsaleiguspursmálið verði ekki svo mjög torleyst.