11.03.1943
Efri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

116. mál, húsaleiga

Ingvar Pálmason:

Þetta frv. var til framhalds 2. umr. á síðasta fundi í d. Í fundarbyrjun lýsti hæstv. forseti yfir því úr forsetastóli, að útbýtt væri á fundinum brtt. við frv. á 2 þskj. Siðan hófust umr. um málið. Tveir hv. þm. höfðu kvatt sér hljóðs í fundarbyrjun, og tóku báðir til máls. Brtt. þær, sem hæstv. forseti lýsti yfir úr forsetastóli, að útbýtt hefði verið, gátu samkv. þingsköpum ekki komið til umr., nema veitt væru um þær afbrigði. Vegna þess að ég hafði við fyrri hl. umr. talað um frv. almennt, kvaddi ég mér ekki hljóðs, því að ég ætlaði aðeins að tala um brtt. Þegar þessir tveir hv. þdm. höfðu lokið máli sínu, stendur hæstv. forseti upp og lýsir yfir, að umr. sé lokið. Vafalaust er það rétt, að þá hefur enginn verið á mælendaskrá. Hitt er líka rétt, að afbrigða var aldrei leitað fyrir brtt., og því tel ég, að hæstv. forseti hafi tekið sér vald til að synja um afbrigði fyrir brtt., sem ég þekki ekki fordæmi fyrir í þessari d. í þau 20 ár, sem ég hef átt sæti á þingi. Ég skal ekki segja, hvort þetta brýtur í bága við þingsköp, en ég fullyrði, að það brýtur í bága við fasta venju, sem hefur ríkt í þessari d. a.m.k. síðustu 20 árin. Það hefur ætíð verið leitað afbrigða um þær till., sem fram hafa komið of seint, og það þótt þær hafi komið skrifl. Ég tel því, að formlega séð sé umr. ekki lokið enn, og vil skora á hæstv. forseta að opna umr. aftur, en ef hann vill ekki gera það, þá færi hann þeim úrskurði sínum stað, að hann hafi vald til þess upp á eigin spýtur að synja um afbrigði.