25.03.1943
Efri deild: 81. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

116. mál, húsaleiga

Forseti (StgrA):

Við umr. um þetta mál á síðasta fundi d. óskaði hv. þm. Barð. eftir því, að ég felldi úrskurð um það, hvort brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 587, gæti komið til atkvgr., þar sem brtt. eins orðuð hefði verið úrskurðuð frá atkvgr. við 2. umr. málsins.

Ég vil í tilefni af þessu taka fram, að ég sé ekkert í fundarsköpum, sem hindri það, að þessi brtt. geti komið hér til atkvgr. og afgreiðslu. Það er að vísu rétt, að við 2. umr. málsins var einn liður í brtt., sem þá lá fyrir, orðaður á sama hátt og þessi brtt. á þskj. 587, en var þá fluttur sem brtt. við ákveðna mgr. í 5. gr. l., og sú málsgr. hafði samkv. annarri till., sem þá lá fyrir, verið felld. Og þess vegna gat þá ekki þessi till. komið til greina formsins vegna. Nú er till. flutt sem Brtt. um það, að hún komi inn sem ný málsgr. í 5. gr. frv., og tel ég ekkert því til fyrirstöðu, að hún komi til afgreiðslu hér, og liggur hún því fyrir ásamt öðrum brtt.