29.03.1943
Efri deild: 83. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

116. mál, húsaleiga

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson):

Herra forseti. — Ég vil aðeins segja örfá orð til þess að leiðrétta misskilning, sem fram kom hjá þeim tveimur hv. þm., er síðast töluðu.

Þegar ég talaði um, að hingað til bæjarins hefðu komið 4 þúsund manns, þá sagði ég, að þetta fólk hefði flest komið sér fyrir án þess að taka á leigu húsnæði með ólöglegu móti, heldur hefði það komizt inn með því, að almenningur hefði þrengt að sér fyrir sakir kunningsskapar og venzla.

Ég sagði, að í Bandaríkjunum væri fólk hvatt til þess að láta af hendi húsnæði, og síðan gæti hið opinbera breytt þessu húsnæði á sem haganlegastan hátt. Við viljum ekki fara svona langt, heldur förum við aðeins þess á leit, að þeir, sem vel eru settir með húsnæði, miðli því til hinna, sem í húsnæðishraki eru.

Ég tók enn fremur fram, að þessari heimild skyldi beitt vægilega, og að reynd yrðu sömu ráð og í Bandaríkjunum, þ.e.a.s., að fá fólk til , að taka menn til sín í húsnæði af fúsum vilja.

Ég hef margtekið þetta fram bæði í þessari hv. d. og einnig í hv. Nd., að bezt mundi farið að taka á þessu með lipurð, því að ef svo yrði ekki, þá kæmist af stað taugastríð milli húseigenda og þess, sem húsnæðisins á að njóta samkv. þessu ákvæði. Það er nauðsynlegt að fá þessa heimild, því að það hefur komið í ljós, að fleiri og fleiri vilja nú stækka við sig húsnæði, t.d.. eru nú í smiðum 25 íbúðir með sex herbergjum hver eða þar yfir, og það eitt sýnir, hvert þróunin stefnir í þessum málum.

Hvað viðvíkur því að ég hafi sagt, að þessi straumur til bæjarins væri nauðsyn vegna setuliðsvinnunnar, þá er það rúm túlkun á mínum orðum. Ég sagði, að það væri staðreynd, að 4 þúsund manns hefði flutt til bæjarins, og komizt inn hjá kunningjafólki sínu.

Ég vil benda á, að í þessu húsaleigufrv. eru ákvæði, sem banna að leigja nema innanhéraðsmönnum, og enn fremur er útburðarheimild til þess að bera utanhéraðsmenn úr húsnæði, og þessa heimild hefur til þessa vantað í húsaleigulögin.

Annars finnst mér ekki óeðlilegt, þó að fólk leiti þangað, sem atvinnan er mest.