30.03.1943
Efri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

116. mál, húsaleiga

Bjarni Benediktsson:

Ég get verið stuttorður. Hæstv. félmrh. talaði hér í gær og taldi, að ég hefði misskilið sín ummæli. Þetta skiptir raunar ekki miklu máli. Mín skoðun kom glöggt fram, og ég held, að ekki hafi verið um neinn verulegan misskilning að ræða, heldur raunverulegan skoðanamun. Hann taldi setuliðsvinnuna og aðstreymið í bæinn æskilegt, að minnsta kosti á víssum tíma, en ég er þar á gagnstæðri skoðun og vil láta framfylgja ákvæðum húsaleigul. í því skyni að koma í veg fyrir slíkt aðstreymi. Það er rétt, að þessi l. eru að sumu leyti strangari en áður var, að því er utanbæjarmenn snertir, en það gildir þó aðeins um þá, sem kaupa hér hús. Þau eru efnislega strangari að því leyti, að þessir menn geta ekki flutzt í húsin, þó að þeir hafi keypt þau. Hitt er ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að ekki sé heimilt að bera utanbæjarmenn út.

En ég ætlaði einkum að minnast á þau orð hæstv. ráðh., að í Bandaríkjunum væri gengið lengra en hér að því leyti að þar væri heimilað að taka húsnæði, sem notað væri til annars en íbúðar og breyta því í íbúðarhúsnæði. Hann virðist telja, að slíkt væri ekki leyfilegt hér á landi. En í 2. málsgr. 5. gr. stendur: Á sama hátt er húsaleigun. heimilað að taka til sinna umráða annað ónotað húsnæði og útbúa það til íbúðar.“ Hér stendur skýrum stöfum, að þetta sé leyft, sem hæstv. ráðh. dró í efa, að heimilt væri samkv. frv., og er þetta því misskilningur hjá honum.