30.03.1943
Efri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

116. mál, húsaleiga

Brynjólfur Bjarnason:

Það má segja, að haldið hafi verið uppi óvenjulegu málþófi í þessu máli og töluð mörg óskynsamleg orð, og er gersamlega tilgangslaust að elta ólar við það allt. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, áður en gengið er til atkv., að brtt. á 617. þskj. frá hv. þm. S.-Þ. er þess eðlis, að mjög illa væri farið, ef hún yrði samþ., en hún er á þá leið, að ákvæði 2. málsliðar 5. málsgr. skuli falla úr gildi 14. maí 1944. Sá málsliður frv. fjallar, eins og kunnugt er, um rétt til að ráðstafa auðum íbúðum handa húsnæðislausu innanhéraðsfólki.

Vitanlega er enginn kominn til að segja um, að þetta ákvæði verði síður nauðsynlegt 14. maí 1914 en nú. Hins vegar er sjálfsagt, að húsaleigul. verði afnumin í heild, þegar þeirra er ekki lengur þörf, og þeim verði breytt, eftir því sem aðstæður krefjast. Þegar rýmkar aftur um húsnæði, verða að sjálfsögðu þau ákvæði l. afnumin, sem ekki verða lengur nauðsynleg. En á þessu stigi málsins er auðvitað ekki hægt að segja um það, á hvaða mánaðardegi tiltekin ákvæði verði orðin óþörf, enda er nógur tíminn að afnema þetta á næsta reglulega Alþ. eða þinginu 1944, ef það reynist þá orðið óþarft. Ég vil því skora á hv. d. að fella þessa till. hv. þm. S.-Þ.