06.04.1943
Efri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

116. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Þetta mál hefur komið frá hv. Nd., þar sem því hefur verið breytt, sumpart samkvæmt brtt. á þskj. 646, sem er orðalagsbreyt., en auk þess hefur 15. gr. frv. verið gerbreytt frá því, sem var, og mun ég nú leggja hér fram skriflega brtt. um það, að hún verði orðuð um aftur og komi til með að hljóða sem hér segir:

„Ákvæði þessara laga gilda og um leigu á húsum, bryggjum og vinnupöllum til hvers konar fiskiskipa og báta, nema öðruvísi sé ákveðið með reglugerð eða lögum.

Sé leiga eftir slík hús, bryggjur og palla greidd með aflahlut, geta aðilar krafizt, að metið sé, hve stór sá aflahlutur skuli vera.

Séu einhver önnur hlunnindi innifalin í leigunni, er áhrif hafa á hana, skal meta þau sérstaklega.“

Eins og 15. gr. er nú orðuð, þá segir það sig sjálft, að það er mjög gert upp á milli þeirra báta, sem róa úr landi, og ef ætti að fara málfræðilega út í það, þá verða undanskildir allir vélbátar, en það er ekkert vit í því að láta þetta ekki gilda um þá, eða þá báta, sem gera út frá fleiri en einum stað.

Ef þetta verður samþ. óbreytt, þá stangast það og við hafnarreglugerðir og hafnarlög og getur ekki staðizt nema þau séu numin úr gildi um leið. Það er ekki nema eðlilegt, að þetta gildi um hvers konar fiskiskip og báta, eins og það er eðlilegt, að það gildi ekki um bryggjur, sem sérstök l. gilda um. Það er sjálfsagt, ef leigan er greidd með aflahlut, að báðir aðilar eigi rétt á að fá það metið, hve stór sá hlutur skuli vera.

Ég þarf ekki að halda langa ræðu um þetta, Málið hefur verið rætt hér svo mikið, að það ætti að vera orðið skýrt fyrir hv. d., og ég vænti þess, að hún gangi nú ekki á móti því, sem hún hefur áður viðurkennt, að væri réttmætt.