06.04.1943
Efri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

116. mál, húsaleiga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Ég vona, að þessi hv. d. fari ekki að gera sér það til skammar að samþykkja þessa brtt. frá hv. þm. Barð., en hún er ekkert annað en vitleysa og þannig úr garði gerð, að Alþ. getur sóma síns vegna ekki látið slíkt frá sér fara.

Hún er á þá leið, að ákvæði þessara l. skuli gilda nema öðruvísi sé ákveðið í l. eða með reglugerð. Sem sagt, það er hægt að breyta þessum l. bæði með l. og reglugerð. Ég hygg, að það megi lengi leita til þess að finna dæmi þess, að Alþ. hafi látið aðra eins vitleysu frá sér fara, og það kemur alls ekki til mála að samþykkja svona fjarstæðu.

Rökin, sem þessi hv. þm. færði fyrir máli sínu, voru þau, að það væru til bæði l. og reglugerðir, sem brytu í bága við þessi lög. Ef svo er, þá verður að breyta reglugerðunum í samræmi við þessi lög. Alþ. getur ekki miðað lagasetningar sínar við þau l., sem fyrir eru, heldur við það, sem þörf krefur, og ef einhver l. skyldu brjóta í bága við þessi l., sem ég veit ekki, hvort nokkur l. gera, þá verða þau eins og hver önnur gömul l. að víkja fyrir nýjum l. sem venja er til.

Hv. þm. Barð. fann að orðalaginu „að róa úr landi“ og taldi, að það gæti einungis átt við árabáta. Ég hélt, að hv. þm. þekktu allir þá málvenju, að talað er um að bátar rói, þótt um vélbáta sé að ræða. Það hafa líka verið haldnar svo margar ræður um þetta hér í þinginu, að það mundi enginn dómstóll efast um, við hvað er átt með þessum orðum, og það mun engum hafa dottið þetta í hug nema þessum hv. þm. Þetta stafar líka aðeins af því, að þennan hv. þm. langar til þess að eyðileggja þetta ákvæði af einhverjum ástæðum. Að öðru leyti er brtt. hv. þm. sama og áður hefur komið fram hjá hv. 1. þm. S.-M., um að meta það, hve stór aflahlutur það skyldi vera, sem greiddur væri í leigu eftir bryggjur, verbúðir eða önnur slík mannvirki. Þetta mundi í „praksís“ verða áfram eins og það hefur verið, því að það mundi engin n. fást til þess að segja um slíkt, enda er það svo miklum breytingum undirorpið frá ári til árs. Þetta mundi því verða eins áfram, og þá miðað við allra rýrustu vertíð, þannig að útkoman verður sú, að sama okrið og nú á sér stað heldur áfram. Enda segir það sig sjálft, að það hljóta einhverjir hagsmunir að liggja til grundvallar þessu ofurkappi.

Hv. þm. Barð. talaði um, að þetta væru aðeins smálagfæringar á frv. Þessar líka litlu lagfæringar að laga frv. þannig til, að hægt sé að breyta því bæði með l. og reglugerð. Nei, hér hlýtur að vera annað og meira, sem liggur á bak við, því að það væri aldrei gerð tilraun til þess að senda málið til Sþ. vegna smávægilegra orðalagsbreyt. Annars er ég þess fullviss, að þessi brtt. verður felld, og ég trúi því varla, að hún fái nokkurt atkv. nema frá hv. flm., en ef þessu verður breytt þannig, þá verður það samþ. á móti vilja meiri hl. þingsins, því að í Nd. var sú breyt., sem þar var gerð á 15. gr. frv., samþ. með yfirgnæfandi meiri hluta atkv. Ég tel þannig engan vafa á því, að þótt þetta kæmist í gegn hér í Ed., þá væri það á móti vilja meiri hl. þingsins og hlyti því að verða fellt í Sþ.