06.04.1943
Efri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

116. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil benda hv. 5. þm. Reykv. á það, að ef öll rök hans í þessu máli eru reist á því, að ég hafi talið, að hér væri aðeins um orðalagsbreyt. að ræða, þá skal mig ekki furða á því, þótt hann hafi ekki mikið fylgi hér. Ég talaði um það, að það hefði verið orðalagsbreyt., sem hefði verið gerð með brtt. á þskj. 646, en ég talaði aldrei um, að brtt. mín væri aðeins orðalagsbreyt. Hann taldi það og smán fyrir Ed. að samþykkja þessa brtt. mína, en ég tel það ósæmilegt fyrir d. að standa ekki við sínar eigin samþykktir. En þetta var samþykkt af Ed., af því að hún fann, að það var smán að láta landsmenn búa við tvenns konar l.

Ég skil því vel, að hv. 5. þm. Reykv. sé á móti þessu, því að hann og flokkur hans vill koma því þannig fyrir, að sem flest l. gildi um sem fæsta, og ég veit, að hann vill ekki búa við sömu l. og aðrir. (BrB: Að minnsta kosti vil ég ekki greiða jafnmikla skatta og hv. þm. Barð.). Já, ég veit það, að þessi hv. þm. vill bera minni byrðar en aðrir þegnar þjóðfélagsins, og það vilja allir flokksmenn hans. En sú skoðun smækkar menn svo, að þeir kunna að lokum ekki skil á góðu og illu. (BrB: Ég kýs mér þá smæð í augum þessa hv. þm.). Með þessu er verið að ryðja til hliðar reglum, sem hafa verið settar, ekki af neinum einstaklingi, sem hefur haft eigin hagsmuna að gæta, heldur af hafnarn. og stj. sýslu- og bæjarfélaga. Ég vil taka það fram, að þetta snertir alls ekki mína eigin hagsmuni, því að ég á enga verbúð, sem heyrir undir þetta. Nei, þessi deila er risin upp vegna reipdráttar milli Jóns Ívarssonar og austfirzkra sjómanna og útgerðarmanna.

Ég læt svo útrætt um þetta, en vænti þess, að d. standi fast saman um sínar eigin samþykktir.