06.04.1943
Efri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

116. mál, húsaleiga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Ég veit, að það er gersamlega þýðingarlaust fyrir mig að halda uppi deilum við þennan hv. þm. út af þessu, en hann vildi þó ekki halda því til streitu, að brtt. hans væri aðeins orðalagsbreyt.

Hann kvartaði yfir því, að ég skyldi vilja hafa mismunandi l. eftir því, hver ætti í hlut. Ég skal segja þessum hv. þm. það, að ég vil láta setja l. móti okri, þótt ekki sé hægt að láta þau ná til allra okurkarla í landinu. Það er æskilegt, að hægt væri að ná til þeirra allra, en þó að það sé ekki hægt, þá er það alltaf gott að geta náð til sem flestra, bæði þessa hv. þm. og annarra. Hér er um okur að ræða og ráðstafanir gegn því, því að húsaleigul. eru ráðstafanir gegn okri og þetta ákvæði er sett inn til þess að koma ekki aðeins í veg fyrir okur á íbúðarhúsnæði, heldur og öðru húsnæði og mannvirkjum, sem almenningur þarf ekki síður á að halda. Hv. þm. Barð. kom þó ekki að kjarna málsins, sem sé því, að það sé óvirðing fyrir Alþ. að láta slíka endileysu frá sér fara, því að það er endileysa ein að taka það fram í 1., að þeim megi breyta, ekki aðeins með öðrum l., heldur og með reglugerð.