09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

173. mál, stríðsslysatrygging sjómanna

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Efni þessa litla frv. er raunverulega ekki annað en það, að bátar, sem eru undir 4 smálestir að stærð, skuli tryggðir gegn slysum af völdum ófriðar, eins og stærri skip. Það er auðvitað ljóst, að þessi slys geta eins hent svo litla báta sem stærri skip, þótt ólíklegra sé, að á þá verði beint ráðizt. Hér gæti verið um tundurdufl og aðrar aðgerðir af völdum ófriðar að ræða, enda telur stj. grun leika á því, að tiltekinn bátur af þessari stærð hafi farizt af þessum ástæðum. Það er ljóst, að jafnrík ástæða er til að hafa þessa báta tryggða eins og aðra, þótt það hafi ekki verið gert, af því að það hefur þótt helzt til kostnaðarsamt fyrir útgerðarmennina. Úr þessu er reynt að bæta í þessu frv. með því að leggja til, að ríkið taki tiltekinn hluta tryggingarinnar að sér.

N. telur þetta tiltækilegustu leiðina í þessum efnum, og hún er sammála um að mæla með frv. þessu óbreyttu og væntir þess, að hv. d. greiði fyrir því.