10.04.1943
Efri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

176. mál, samflot íslenzkra skipa

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Eins og séð verður á þskj. 702, nál. meiri hl., hefur sjútvn. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n., ég og hv. 1. þm. S.-M., við erum á þeirri skoðun, að það sé bæði eðlilegt og nauðsynlegt að binda aðalákvæði þessa máls í l., en gefa reglugerð ekki það svigrúm, sem gert er ráð fyrir í frv. hæstv. ríkisstj. Minni hl., hv. 9. landsk., var raunverulega okkur sammála um þetta að miklu leyti, en aðeins var ágreiningur um það innan n., hvernig skyldi skipa málunum og hverjir skyldu hafa úrskurðarvald um undanþágurnar, þegar þær skyldi veita. Nú sé ég, að eftir að fundum hefur verið slitið í n., þá hefur hv. 9. landsk. skipt eitthvað um skoðun, því að þetta kemur ekki fram í hans áliti, heldur allt annað sjónarmið, sem aldrei var minnzt á í n.

Vegna ummæla hæstv. atvmrh. hér í d. um þetta mál og vegna þess að mér var kunnugt um það, að hlutaðeigandi aðilar voru ekki sammála um þetta mál, þá kallaði sjútvn. fulltrúa þessara aðila til sín á fund, svo að n. fengi fulla vissu um það, hvernig málin stæðu almennt meðal þeirra. En þá kom það í ljós, að fulltrúar frá þeim skipum, sem tilheyra línubátum og fisktökuskipum, höfðu ekki verið sammála um afgreiðslu málsins, þeir höfðu meira að segja tjáð sig mótfallna afgreiðslu málsins eins og hún var og lagt áherzlu á það, að það væri sama sem að leggja þennan atvinnuveg niður, ef málið yrði afgr. eins og það er afgr. með stjfrv. annars vegar og reglugerðinni, sem því fylgir, hins vegar. Ég hef þess utan fengið bréf frá félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, dags. 8. apríl, þar sem þeir staðfesta það, tveir fulltrúar frá línu- og fisktökuskipum, sem sátu fund hjá ríkisstj., að þeir hefðu ekki verið sammála um þetta atriði, og þeir hefðu því ekki getað undirskrifað þetta samkomulag fyrir þeirra hönd, þegar þeir hefðu setið fund með ríkisstj. Þetta bréf er lagt fram í lestrarsal, dagbókarfskj. 1027. Eftir að sjútvn. hafði heyrt rök frá öllum viðkomandi aðilum, hélt hún annan fund og kom sér saman um að fella inn í frv. aðalatriðin úr reglugerðinni, eins og hún er prentuð sem fylgiskjal með frv. stj., að undanteknu því, að minni hl. vildi ekki vera með því, að 2. gr. frv., eins og hún er sett fram í breyt., yrði sett þannig inn fl., þ.e.a.s. að skipa 2 menn á hverjum stað til þess að hafa úrslitavald í þessum málum. Minni hl. vildi hins vegar, og lagði á það áherzlu, halda sig að því, sem kemur fram í reglugerðinni, að með þessi mál fari 5 menn hér í Rvík og Hafnarfirði og allt landið yrði að sækja þetta mál undir þá n., þó þannig, að þessi sama n. gæti skipað 2 menn fyrir hverja útflutningshöfn, en þeir menn yrðu að standa í sambandi við aðalnefndina hér í Reykjavík. Hann ætlaðist til þess, að þetta yrði fellt inn í lögin, en hefur nú fallið frá því, í meiri hl. telur hins vegar, að þessi skipan málanna sé nokkurn veginn það sama og að stöðva siglingu fiskkaupaskipa og línuveiðabáta fyrir Austurlandi, sérstaklega á Hornafirði, Norðfirði og Seyðisfirði, og jafnvel líka fyrir Norðurlandi og í Vestmannaeyjum. Það mundi enginn útgerðarmaður vilja eiga það á hættu að hlaða skipin, án þess að vita hvernig þessum málum reiddi af. Þeir gætu t.d., búizt við því, að símasambandið við þessa staði bilaði, svo að ekki væri hægt að komast í samband við þá, eins og verið hefur á þessum vetri. Meiri hl. gat heldur ekki fallizt á, að hér sé um neitt meira öryggi að ræða. Það er gert ráð fyrir því, í till. meiri hl., að 2 menn verði skipaðir fyrir hverja útflutningshöfn til þess að hafa með höndum eftirlit með þessum málum og úrskurðarvald um það, hvenær skuli veita undanþágur. Þeir skulu einnig hafa eftirlit með því, að þessum l. sé hlýtt, og telur meiri hl., að með þessu muni fást meira öryggi í þessum málum. Meiri hl. n. lítur svo á, að í Rvík sé ekki ástæða til þess að hafa fleiri en 2 menn, er hafi þetta starf með höndum. Ef þessir menn koma sér ekki saman, þá gerir meiri hl. ráð fyrir því, að þeir geti kallað sér til aðstoðar lögreglustjórann á hverjum stað. Þá gerir meiri hl. ráð fyrir því, að ekki sé hægt að veita undanþágu til þess að skip sigli eitt, ef skipshöfnin mótmælir slíkum úrskurði. Við teljum, að með brtt. okkar, ef samþ. verða, sé fengið öryggi í þessum málum, að svo miklu leyti sem hægt er að fá öryggi um þessi mál. Við væntum þess, að hv. d. gangi þannig frá þessu máli, að hún hafi fullan skilning á því, að meiri hl. sjútvn. hefur viljað gera tvennt í þessu máli: Að tryggja öryggi sjómannanna annars vegar og hins vegar að stuðla að því, að þessi atvinnuvegur geti haldið áfram. Ef aðeins á að horfa á aðra hliðina og tryggja hana, eins og okkur virðist hafa komið fram hjá hv. 9. landsk., þá er ein alveg örugg leið í því máli, og hún er sú að banna siglingar algerlega. En við lítum svo á, að það sé hvorki frá sjónarmiði sjómanna né landsmanna æskilegt að gera það. Við fáum ekki séð, að 5 menn í Rvík hafi meiri þekkingu á þessum málum eða betri skilyrði til þess að dæma um aðstöðuna úti á landi heldur en þeir menn, sem þar eru fyrir og geta fylgzt með málunum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða meira um þetta mál, nema því aðeins, að sérstakt tilefni gefist til. Ég vil aðeins benda á það, að hér er um mikið tilfinningamál að ræða, sem hægt er auðveldlega að leiða út í öfgar, en ég tel ekki rétt, að það sé gert, heldur sé reynt að skoða málið frá raunveruleikanum. Að síðustu vil ég benda hæstv. atvmrh. á það, að meiri hl. n. leggur mikla áherzlu á það, að þegar reglugerðin verður samin, þá vé tekið upp í þá reglugerð ákvæði 2., 3. og 4. gr. þeirrar reglugerðar, sem er prentuð með frv. stj. þ.e. að málið sé að nokkru leyti í höndum útgerðarmanna, þar sem því verður komið við, og þeir hafi eftirlit með því, hvernig skipunum vé raðað niður.