10.04.1943
Efri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

176. mál, samflot íslenzkra skipa

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Ég vil ekki eyða tíma til þess að deila um þetta mál. En ég vil leyfa mér að mótmæla því, sem hv. 9. landsk. sagði, að hann hafi nokkurt umboð til þess að segja, að þessi breyt., sem á að gera, sé mjög illa gerð og í óþökk sjómanna. Þessi hv. þm. hefur ekki kynnt sér þá hlið málsins að öðru leyti en því, að hann veit, að formaður sjómannafélagsins gerir það að kappsmáli, að þessu sé ekki breytt frá því, sem hann hefur gengið frá því. Hv. 9. landsk. þm. lætur þetta hafa svo mjög áhrif á skoðanir sínar, að hann gengur frá svo að segja öllu, sem hann var samþykkur í n. Og þessar aths. hans, sem nú koma fram, komu aldrei fram á þeim tveimur fundum, sem haldnir voru í n. um málið, annað heldur en það, hvernig skyldi skipa n., sem úrskurðarvaldið hefði í þessum málum. Hér er ekkert rýrt það vald, sem n. átti að fá út af fyrir sig. En þeir, sem þetta sömdu, gleymdu því bara, að til væru útgerðarstaðir annars staðar á landinu en hér í Rvík. Það er eins og þeir álíti Rvík eina útgerðarstaðinn, en við hinir nefndarmennirnir viljum ekki viðurkenna, að svo sé. Það hefur verið álitið, að ekki væri ástæða til að setja l. um þetta fyrir Suðurland, vegna þess að þar væri fullt samkomulag um þetta. En ef komið er samkomulag um þetta þar, að láta skipin sigla eins og frv. bendir til og eins og mér er kunnugt um, að þau gera, þá sá meiri hl. sjútvn. engin rök fyrir að leyfa ekki að lögfesta það. Og ég get upplýst hv. 9. landsk. þm. um það, að allir útgerðarmenn, bæði þeir, sem eru hér í Rvík og útgerðarmenn utan af landi og fulltrúar þeirra, sem ég hef talað við, sætta sig við frv. eins og það er gert úr garði frá meiri hl. n., þ.e. eins og það verður, ef brtt. meiri hl. n. verða samþykktar, en alls ekki, ef það verður eins og hv. minni hl. n. vill hafa það, vegna þess að þeir fá ekki skilið, að það sé meira öryggi fyrir þessi skip, þó að tveir menn úti á landi séu skipaðir af n. hér í Rvík til að sjá um þetta. Ef þessi n. á að hafa yfirumsjón í þessu efni, þá afhendir hún með þessu tveim mönnum eftirlitið með skipunum úti um land, sem svo einhvern tíma og einhvern tíma er hægt að ná í, og í framkvæmdinni verður það þannig, að mennirnir, sem eru á staðnum, sem skipin ætla að sigla frá, úti um land, verða að ákveða um þetta. Ég sé því ekki ástæðu til að breyta nokkru um þetta samkomulag n. Og mig undrar, að hv. 9. landsk. þm. hefur nú fallið frá því, sem hann á fundum í n. taldi mikils virði. Það er einhver illur andi, sem hefur spilað á hann síðan og komið honum til að fara allt aðrar leiðir í málinu.

Ég álít, að Alþ. eigi að taka tillit til allra þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, og það á þann hátt, sem ég hef lagt til, sérstaklega þegar með því er hægt að hafa sama öryggi fyrir alla aðila fyrir því. Og það fullyrði ég, að hægt er að framkvæma með því að samþykkja brtt. meiri hl. sjútvn. við frv., en að það verði til minni óþæginda fyrir suma þá, sem hlut eiga að máli.