24.02.1943
Neðri deild: 63. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Allar þjóðir, sem við þekkjum og vitum um, hafa lagt á það höfuðáherzlu að fyrirbyggja hjá sér vaxandi dýrtíð og verðbólgu, vegna þess að dýrtíð og verðbólga skapar alltaf glundroða og ringulreið í lífi og atvinnuháttum þjóðanna. Hér í okkar landi var í upphafi styrjaldarinnar líka byrjað á sömu braut með því að leggja nokkrar hömlur á dýrtíðina og verðbólguna, en því miður var síðar fallið frá þessu að mestu eða öllu leyti. Afleiðingarnar eru öllum kunnar. Hér var um hríð vaxandi dýrtíð með öllum venjulegum afleiðingum. Í síðastliðnum desembermánuði var svo komið, að allur almenningur gerði sér grein fyrir því, hver vá væri fyrir dyrum, og ég held, að allir hafi talið nauðsyn á, að gripið væri í taumana og eitthvað aðhafzt, enda var þá öryggisleysið og dýrtíðin orðin slík, að atvinnuvegirnir voru teknir að stynja. Öllum er t.d.. kunnugt, hvernig komið var um frystihúsin. Siglingar smærri fiskiskipa okkar á erlenda markaði gátu ekki borið sig, og varð að leggja þeim í naust. Þrátt fyrir síhækkandi verð á landbúnaðarafurðum, var sjáanlegt, að landbúnaðurinn hlyti að dragast saman verulega, og var það ekki sízt alvarlegt mál. Þetta olli vonleysi og vantrú á framtíðina, svo og vantrausti manna á peningana. Uppsparaðir peningar, sem oft og tíðum eru hið eina, er aldrað fólk hefur sér til lífsviðurværis, lækkuðu í verði, svo að hætta var á, að þeir yrðu að engu. Þetta vantraust á peningana skapaði kapphlaup um fasteignir og slík verðmæti, sem talið var öruggara að eiga. Framhald á sömu braut hlaut að leiða af sér hrun atvinnuveganna í landinu. Aðrar þjóðir höfðu séð, hvað gera þurfti. Ein grannþjóð okkar, sem við metum á margan hátt meira en aðrar, gerði einna ákveðnastar ráðstafanir til að standa á móti verðbólgunni og ákvað að varðveita verðgildi peninganna. Þessi þjóð einsetti sér að halda niðri vöruverðinu, bæta ekki dýrtíðina nema að nokkru leyti og taka úr umferð peninga, sem hefðu haft þau áhrif að auka dýrtíðina, með því að leggja á sérstaka skatta og koma á skyldusparnaði. Þessi þjóð sá, hvað gera varð til að fyrirbyggja voðann. Og ég held, að okkur sé nauðsyn á sams konar ráðstöfunum til að bæta úr því ástandi, sem nú ríkir. Með þetta ástand fyrir augum hefur öll ríkisstj. orðið sammála um að leggja fram þetta frv. Hæstv. fjmrh. hefur getið þess, hver áhrif þetta mundi hafa á kaupgreiðslur í landinu.

Viðvíkjandi V. kafla frv., um verð landbúnaðarafurða, vil ég segja nokkur orð. Í 14. gr. þessa kafla er gert ráð fyrir, að verð landbúnaðarafurða lækki um 10% frá því, sem var 31. des. 1942. Þessi hundraðstala er þannig fundin, að við það er miðað, að kaup launþega lækki almennt um 12.4% frá því, sem var um áramót. Nú var það aðgætt, hve mikill hluti af framleiðslukostnaði landbúnaðarafurða fælist í vinnulaunum, og eftir vitneskju, sem fengin er hjá búreikningaskrifstofu ríkisins, nam sá hluti 78% árið 1940. Með því að margfalda 12.4 með 78 og deila með 100 koma út þessi 10%, eða því sem næst, og virðist sanngjarnt að ákveða verðlækkunina þannig. Þó má benda á það, að vörur þær, sem lækkaðar eru í verði á þennan hátt, svo sem kjöt og nýmjólk, eru yfirleitt framleiddar á síðasta ári, og að því leyti sem kaupgjald við þessa framleiðslu var þá hlutfallslega hærra en verður næstu mánuði, má segja, að frekar sé hallað á landbúnaðinn. En ég get ekki séð, að hægt hafi verið að fara nær um samræmi, að því er snertir byrðar á launþega og bændur, en hér er gert, þó að frekar sé á bændur hallað.

Í frv. er lagt til, að skipuð sé 5 manna n., er hafi með höndum að ákveða réttlátt verð á landbúnaðarafurðum. Þegar það hefur tekizt, á að koma á réttu samræmi milli verðs á landbúnaðarafurðum og kaups launþega í landinu. Ef n. getur ekki lokið störfum fyrir 1. maí 1943, sem væri æskilegast, skal sú regla gilda, þar til vísitölugrundvöllur hefur verið lagður, að mjólk og mjólkurvörur lækki um 1% fyrir hvert stig framfærsluvísitölu undir 230 niður í 200 stig, en 1% fyrir hver 2 stig þar undir. Sama regla gildir um verðlækkun á kjöti, kartöflum og grænmeti eftir l. sept. 1943, ef n. hefur ekki þegar ákveðið grundvöll fyrir verðvísitölu þessara vara.

Ég bendi á það, að ef svo skyldi fara gagnstætt öllum vonum, að kauphækkanir ættu sér stað í náinni framtíð, þá verður að sjálfsögðu slíkur aukinn vinnukostnaður tekinn til greina og bændum tryggð verðhækkun á sama hátt og á þá er lögð verðlækkun með lækkandi vinnulaunum.

Í 16. gr. er svo gert ráð fyrir framlagi úr víðreisnarsjóði til þess að lækka enn frekar verð á kjöti og nýmjólk. Þetta gerir ríkisstj. af því, að hún telur lífsskilyrði, að dregið sé úr verðbólgunni þegar í stað, og þó að þetta kosti nokkurt fé, telur hún, að það muni koma aftur með heilbrigðari háttum í þessum efnum.

Eftir lauslegum skýrslum um kjötmagn í landinu og áætlunum um nýmjólkurinnlegg á næstu mánuðum má gera ráð fyrir, að útgjöld vegna 16. gr. muni nema 4.5 millj. kr.

Í 16. gr. er það tekið fram, að á meðan sú skerðing verðlagsuppbótar er í gildi, sem um getur í 12. gr., skuli hliðstæð skerðing vinnulauna við landbúnað koma fram í verði landbúnaðarafurða, þegar það verður ákveðið samkvæmt vísitölu.

Ég læt þessi orð nægja um málið, en vil að lokum segja þetta: Ég vil telja víst, að allir Íslendingar vilji vinna að því í sameiningu, að þjóð vor eigi sem bjartasta framtíð í þessu landi, en það veltur á því, hvort við, sem nú lifum, reynumst færir um að taka réttar ákvarðanir og miða þær við framtíðina, en ekki aðeins stundarhagsmuni, — hvort við höfum skilning til að fallast á, að nokkuð af þeim réttindum, sem við höfum, verði skert í því skyni að stuðla að því, að skapast megi meira öryggi og heilbrigðara líf í framtíðinni. Ég vil vona, að við berum öll gæfu til þessa.