25.02.1943
Neðri deild: 63. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Þó að þetta frv. hafi litið verið rætt í flokkum þingsins og litlar upplýsingar legið fyrir um það þar til nú og því verið erfitt að mynda sér skoðun um málið, þykir mér hlýða að fara um það nokkrum orðum, sumpart almennt og sumpart um einstök atriði til athugunar fyrir n. þá, sem fær það til meðferðar. Þegar litið er yfir það, sem komið hefur frá þingflokkunum, síðan þing hófst, um dýrtíðarmálin eða þau mál, sem hér er fjallað um, vekur það eftirtekt, að alltaf hefur verið lögð áherzla á samkomulagsleiðina og að ekkert yrði gert í þessum málum, fyrr en gerðar hefðu verið ýtarlegar tilraunir til að koma á samningum milli þeirra stétta, sem þessar ráðstafanir snertu mest. Hafa menn þá einkum haft í huga verkamenn og aðra launþega og bændur. Ég sé ekki ástæðu til að rekja ástæðurnar fyrir þessari afstöðu flokkanna, en þannig hefur verið um þessi mál ályktað, eftir að þing kom saman. Þetta frv. er hins vegar lagt fram, án þess að hæstv. ríkisstj. hafi gert nokkrar ráðstafanir til að koma á samningum við þessa aðila. Hæstv. ráðh. nefndi tvær ástæður til þess, að stj. hefði ekki hnigið að þessu ráði. Hin fyrri var sú, að ekki væru sjáanlegir utan þings neinir þeir aðilar, sem færir væru um að fjalla um þessi mál. Þetta er sjálfsagt að verulegu leyti á misskilningi byggt. Ég trúi ekki öðru en hægt væri að finna slíka aðila til að ræða málin fyrir hönd hlutaðeigandi stétta og í umboði þeirra. Ég vil sérstaklega láta í ljós undrun mína yfir því, að þetta skuli ekki hafa verið reynt. Hin ástæðan, sem hæstv. ráðh. nefndi, var sú, að ríkisstj. setti ekki l. og hún gerði ráð fyrir, að hér á þingi væru aðilar, sem gætu talizt fulltrúar stéttanna. Eftir þessum orðum ætti að mega líta á þetta frv. sem nokkurs konar grundvöll að samningum fremur en skilyrðislausa stefnu hæstv. ríkisstj. Ég dreg þetta beint af ummælum hæstv. ráð)., og er síður en svo, að ég hafi nokkuð við það að athuga. Það væri einmitt mjög æskilegt, að samningaumleitanir gætu nú hafizt, því að málið er flókið, og í þessu fáorða frv. er í raun og veru fjallað um vandamálin, sem nú eru efst í hugum manna. Betra hefði þó verið, að sá tími, sem liðinn er, hefði verið notaður til þess að semja við þá, sem mest eiga hér hlut að.

Frv. má skipta í tvo kafla. Er annar um skattamálin, en hinn um ráðstafanir til að halda niðri dýrtíðinni (þó að frv. sé í sjálfu sér í fleiri köflum). Ég ætla fyrst að víkja að skattamálunum. Í I. kafla er lagt til að taka af hlutafélögum varasjóðshlunnindi þau, er slík félög hafa notið, að undanskildum útgerðarfélögum, ef þau leggja allt varasjóðstillag í nýbyggingasjóð. Ég tel það eðlilegt, eins og á stendur, að þetta sé gert. Þó tel ég vafasamt, að rétt sé að láta útgerðarfélög alltaf halda þessum hlunnindum að fullu, hversu mikið fjármagn sem einstök félög hafa nú lagt fyrir.

Það er algert nýmæli, að stj. megi ákveða með reglugerð, að sérstaklega skuli afskrifa eignir þeirra fyrirtækja, er einkum starfa að útflutningsframleiðslu, ef framleiðslutækjanna hefur verið aflað með óeðlilega háu verði.

Ég álít þetta ákvæði vafasamt fyrr en séð er, hvort þær dýrtíðarráðstafanir heppnast, sem nú eru á döfinni. Vel getur orðið langt í land, þar til v erðlag lækkar, og e.t.v. verður gengishrun. Það er því vafasamt að slá þessu atriði föstu nú og óhafandi að ráðherra hafi þetta í hendi sér. Ég bendi á þetta strax, svo að hægt sé að athuga þetta sjónarmið í nefnd nánar.

Þá kem ég að II. kafla frv., um viðreisnarskattinn. Hann er þungur, eins og hv. fjmrh. sagði. En ég sakna upplýsinga í sambandi við það, hvernig hann verkar, og þá sérstaklega hvernig skattaálögur í heild verða, ef þessi kafli verður samþykktur.

Mér finnst alveg nauðsynlegt að leggja upplýsingar um þetta efni fyrir án tafar. Það er að vísu hægt að afla þeirra án atbeina stj., en það er eðlilegt, að hún leggi þær fram með frv., og hefðu þær átt að vera í grg. Meðan þessar upplýsingar eru ekki fyrir hendi, er erfitt að dæma um skattstigann nýja.

Ég vil benda n. á, að þegar allir skattstigar eru samanlagðir, þá er ekki sýnilegt að skatturinn hvíli afar þungt á 20–100 þúsund króna tekjum. Ég vil benda á, að í því sambandi þarf að athuga sérstaklega viðhorf smáútgerðarinnar, og setja um hana sérákvæði, ef þessi nýi skattur verður samþ. Það verður að auka nýbyggingarsjóðshlunnindi hennar.

Það er gert ráð fyrir því, að stj. sé heimilt að verja skattatekjum þeim, er fást (12–13 millj.) til að lækka dýrtíðina og halda niðri verði á nauðsynjavörum bæði innlendum og erlendum, skilst mér.

Þá er komið að því meginatriði frv. að kaupa niður dýrtíðina með almannafé.

Það var mikið rætt um það í byrjun stríðsins, þegar rætt var um dýrtíðarráðstafanir, að verja fé af stríðsgróðanum til að halda niðri vöruverði í landinu. Þetta var, á meðan dýrtíðin var ekkert lík því, sem nú er.

Þetta taldi ég þá kleift að víssu marki. Þá var auðséð, að með tiltölulega lágum upphæðum var hægt að koma í veg fyrir allverulegar verðhækkanir. Nú er aftur á móti þannig ástatt, að verðlag er hér margfalt hærra en þá var, og allt annað á því við í þessum efnum, þegar nú er rætt um hugsanlegar leiðir til þess að lækka það gífurlega verðlag, sem nú er orðið.

Nú er svo komið, að fjárupphæð, sem þá hefði getað komið í veg fyrir 54% hækkun á tiltekinni vörutegund, lækkar sömu vörutegund vart, svo að verulegu nemi.

Með milljónatug er nú hægt að hnika til verðlagi á sömu vörum, sem þá hefði verið hægt að halda niðri með einni milljón. Ég vil, að menn hugsi sig nú vel um áður en horfið er að því að verja milljónatugum af almannafé til þess að kaupa dýrtíðina niður um örfá stig.

Annað hefur og mjög breytzt frá því, sem var, þegar talað var um að halda niðri dýrtíðinni með fjárframlögum, sem þó átti aðeins að vera einn þáttur í dýrtíðarráðstöfunum. Þá var auðvelt að afla fjárins með sköttum og útflutningsgjaldi, og þá var gert ráð fyrir mjög góðri afkomu ríkisins. Nú er ástandið gerbreytt. Nú er erfitt að afla fjár í þessu skyni, og þörf ríkisins er sár fyrir fé til framkvæmda síðar. Viðhorfið er gerbreytt í tvennum skilningi: Í fyrsta lagi eru áhrif fjárframlaga í þessu skyni alveg hverfandi, og í öðru lagi er aðstaðan til þess að afla þess fjár, sem um munar, margfalt erfiðari.

Enda þótt stj. hafi lagt hér fram háar skattakröfur, sem eru áættaðar 12–13 milljónir, þá er sú upphæð hverfandi í þessu sambandi. Til þess að borga einnar krónu lækkun á hvert kíló af kjöti þarf ca. 2.5 milljónir króna á ári, svo að af því sést vel, hvernig komið er.

Þó er ótalið enn eitt atriði í þessu sambandi og er nauðsynlegt að rannsaka það gaumgæfilega.

Setjum svo, að farið væri út á þá braut að verja milljónum króna úr ríkissjóði til lækkunar á kjöti og mjólk t.d., Þetta fjárframlag mundi vitanlega hafa í för með sér lækkað kaupgjald og verðlag og verða til þæginda, og af einni lækkun mundi leiða aðra, en þó mun minni en menn halda. En einhver lækkun á sér stað.

Nú getur ríkið ekki endalaust greitt út milljónatugi í þessu skyni, enda gerir frv. ekki ráð fyrir því. Ég sé ekki betur en þegar þar er komið sögu, gerist eitt af tvennu: Bændur verði þvingaðir til þess að taka á sig verðhækkunina, sem þó er auðvitað ekki mögulegt, eða þá að útsöluverð varanna verði að hækka af nýju um það, sem ríkið greiddi. Þá hæfist víxlgangurinn á ný, verðlagið og kaupgjaldið hækkaði á nýjan leik, en féð tapað, sem greitt hefði verið úr ríkissjóði. Þetta þarf að rannsaka mjög vel, og enn þá er ég þeirrar skoðunar, að þessi leið sé ekki fær.

Hitt er annað mál, að væri gerð heildaráætlun um lækkun dýrtíðarinnar í landinu, sem búast mætti við að stæðist í framkvæmd, þá kæmi til mála að veita almannafé til þess að mæta utanaðkomandi verðhækkunum. Enda væri það í meira samræmi við þær ráðstafanir, sem áður hafa verið fyrirhugaðar í þessum málum.

Þá vík ég næst að III. kafla frv. Sá er um eignaraukaskatt. Það er ekki langt, síðan farið var að tala um hann. Svo mun á því standa, að menn hafa yfirleitt gert ráð fyrir því þangað til nú alveg nýverið, að ríkið væri að safna fé, er síðar yrði hægt að nota til framkvæmda. Einn góðan veðurdag kemur það hins vegar í ljós, að ríkið hefur ausið út öllu fénu jafnharðan vegna þeirrar fjármálastefnu, sem fylgt hefur verið. Nú horfa menn fram á óleyst verkefni og fjárvana ríkissjóð, þegar miðað er við verkefnin. Þrátt fyrir þetta hafa landsmenn hins vegar eignazt stórkostlega fjármuni í innstæðum erlendis og hérlendis, menn hafa lækkað skuldir sínar og aukið eignir sínar, svo að verulegum auðæfum nemur á okkar mælikvarða.

Nú sjá menn, að svo má ekki lengur ganga, og er það almennt víðurkennt.

Upp úr þessum jarðvegi er hugmyndin um eignaraukaskattinn sprottin. Hinsvegar er augljóst, að ýmsir erfiðleikar eru á framkvæmd eignaraukaskattsins og er ekkert upplýst í frv., eftir hvaða reglum á að innheimta hann. Það getur orð ið erfitt að komast að raun um, hvað hver á. Í því efni er tilgangslaust að fara eftir upplýsingum, sem menn vita, að eru rangar í mörgum dæmum. Það þarf því undir eins að gera sér grein fyrir framkvæmdinni. Mér finnst þessi kafli í frv. vera í undarlegu ósamræmi við þau rök, sem til þess liggja, að eignaraukaskattur er nauðsynlegur og réttlátur. Það er vegna þess, að það þarf á geysimiklu fé að halda til stórra framkvæmda í almanna þágu. Það þarf að gera meira en að afla 2–3 milljóna til þess að byggja stjórnarráðshús. Það þarf að umsteypa alveg þennan kafla frv.

Þá vil ég spyrjast fyrir um það hjá stj., hvernig hún ætlar að tryggja hreint eignauppgjör við framtal til þessa skatts, svo að líklegt sé, að hann verði réttlátlega á lagður. Þetta er undirstöðuatriði í málinu. Ýmislegt í því sambandi er þannig vaxið, að ekki er hægt að ræða það í heyranda hljóði, en úr þeim atriðum verður stjórnin að hafa á reiðum höndum úrlausnir eigi að síður, í samvinnu við þingið. Meginatriðið er, að tryggð verði réttlát framkvæmd þessa skatts.

Auk þessa bendi ég á: Það er ekkert ákvæði í frv. um það, hvernig skuli meta eignir manna og hvað skuli telja eignaaukningu í því sambandi.

Þá er ein málsgrein í frumvarpinu, sem heimilar fjármálaráðherra að færa niður eignaraukaskatt eða veita gjaldfrest á honum að einhverju leyti. Það er algert einsdæmi í íslenzkri löggjöf, ef setja ætti slíkt ákvæði, og það er alveg óverjandi að veita nokkrum einum manni heimild til þess að ráða því hvernig skattur skuli lagður á einstaka borgara. Þetta hefur sennilega verið tekið upp vegna þess, hve margt hefur verið órannsakað í þessum efnum.

Mér finnst allur kaflinn um eignaraukaskattinn svo óverulegur og þannig úr garði gerður, að ég vildi heldur, að ekkert yrði samþ. um eignaraukaskatt en þessi kafli yrði samþ. þannig eins og hann er frá ríkisstj. hendi. En þar sem málið er aðkallandi, þá er sjálfsagt að leggja fram vinnu til þess að gera það svo úr garði, að viðunandi verði.

Þá er að lokum IV. og V. kafli frv., að svo miklu leyti, sem ég hef ekki komið að þeim áður. Það er yfirlýstur vilji allra flokka, eins og ég hef á drepið, að um þetta mál verði reynt að ná samkomulagi milli allra aðila, en stjórnin hefur kosið að leggja nú fram till. sínar án þess að leita áður samkomulags. En það virðist þó jafnframt koma fram í 12. gr. frv. að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar, að þetta verði samningamál og ekki nema að sumu leyti löggjafaratriði. Ég hjó eftir ummælum í þessa átt hjá hæstv. atvmrh., og dreg það einnig af því, að hér er ekki um allsherjar kaupbindingu að ræða, heldur millilið, sem l;etur ekki einu sinn náð tilgangi sínum, nema samkomulag náist um kaupgjaldsmálin utan Alþ.

Hér eru engin ákvæði um festingu grunnkaups, og þá ber væntanlega heldur ekki að skilja frv. þannig, að um tiltekið hámarksverð á landbúnaðarafurðum verði að ræða, enda þótt annað verði raunar helzt skilið af orðalagi frumvarpsins.

Ef þetta frv. verður þáttur í samningsgerð eða samkomulagi við verkamenn og bændur, þá skilst mér, að það hafi litla þýðingu sem löggjöf.

Lækkanir þær á kaupi og verðlagi landbúnaðarvara, sem hér er gert ráð fyrir, mun ég ekki ræða að svo stöddu, þar sem ýmsar upplýsingar viðvíkjandi því eru alveg nýkomnar fram, og ég hef því ekki haft tíma til þess að athuga þær sem skyldi. Ég vil þó aðeins minnast á eitt.

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að samkvæmt 14. gr. — þ.e. vegna þessarar verðlækkunar, sem á að gera á landbúnaðarafurðum —, muni vísitalan lækka um 10 stig. Ég geri ráð fyrir, að þetta muni vera rétt, og samsvarandi yrði hún raunverulega lækkun á verði, sem landbúnaðurinn tekur á sig, eftir frumvarpinu. Hæstv. landbrh. gerði ráð fyrir, að vegna þeirrar lækkunar, sem gert er ráð fyrir í 16. gr. frv. og keypt er til bráðabirgða með framlagi úr ríkissjóði, mundi vísitalan lækka enn um 16 stig, þannig að með þessu móti mætti lækka vísitöluna alls um 26 stig, eða niður í 236 stig. Af þessari 26 stiga lækkun yrði þá 10 stiga raunveruleg lækkun, en 16 stiga lækkun keypt til bráðabirgða. Síðan taldi hæstv. ráðh., að búast mætti við, að vísitalan lækkaði enn eitthvað síðar vegna afleiðinga af þessum lækkunum, en hann gat ekki um, hve miklu þær afleiðingar mundu orka.

Að því er viðvíkur fjárframlögum til lækkunar vísitölunni, er það að segja, að til þess þarf svo miklar upphæðir, að ómögulegt er að kaupa hana niður til lan~frama. Má í því sambandi benda á, að hæstv. ráðh. taldi, að til þess að kaupa vísitöluna niður um 16 stig fram til 1. maí n.k. mundi þurfa 4–5 millj. kr. Áður er búið að kaupa vísitöluna niður um 4-5 stig með 1 kr. lækkun á kjötkílói, og auk þess hefur hún verið keypt nokkuð niður með lækkun á smjöri, þannig að alls mun fást um 23–24 stiga lækkun á vísitölunni með „annarlegum“ ráðstöfunum, þ.e. með beinum framlögum úr ríkissjóði og ráðstöfunum, sem ekki geta staðið til frambúðar. Hvað verður þá eftir af þessari lækkun þegar framlögin þrjóta. Þá hækkar allt á nýjan leik að öllum aðstæðum óbreyttum, og lækkunin verði þá raunverulega mjög lítil, sem eftir stendur. Hér þarf hins vegar að koma fram varanlegri lækkun. Það er aðalatriði þessa máls.

Þá leyfi ég mér að spyrja sérstaklega um eitt atriði í V. kafla frv., sem lýtur að verðlagi á landbúnaðarafurðum. Í 15. gr. segir, að kjósa skuli 5 manna nefnd til þess að búa til vísitölu fyrir landbúnaðarafurðir, en að verð á landbúnaðarafurðum skuli ekki vera hærra en nú er. En nú skildist mér á hæstv. landbrh., að þessi n. ætti einnig að verðleggja landbúnaðarafurðir. Þetta þarf að fá upplýst strax. Það verður að liggja ljóst fyrir, hvort bundið verði ákveðið hámarksverð á landbúnaðarafurðirnar eða ekki. Ég spyr því, hvort n. eigi eingöngu að fjalla um vísitölu fyrir verð á landbúnaðarafurðum, eða hvort hún á einnig að ákveða grunnverð á þessum vörum. Það gæti að sjálfsögðu átt sér stað, þegar þessi n. er komin á laggirnar og farin að rannsaka þessi mál, að hún kæmist að þeirri niðurstöðu, að það væri eðlilegt, að verð á landbúnaðarvörum hækkaði frá því, sem nú er, að frádregnum þessum I0%. Ef það er ætlunin, að þessi n. eigi aðeins að setja vísitölu fyrir landbúnaðarafurðir, en hámark sett á verð þeirra með þessu frv., hvað á þá að gera, ef rannsókn sýnir, að landbúnaðarvörur þyrftu að hækka? Getur þá n. aðeins fært verðið niður, en ekki upp, þótt sanngjarnt væri? Þessu óska ég að fá svar við.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ríkisstj., hvað hún hyggst fyrir um heimildina í dýrtíðarl. frá 1941, um að nota fé til að halda dýrtíðinni í skefjum. Hefur hæstv. ríkisstj. hugsað sér að nema þessa heimild úr l., eða hyggst hún að fá henni haldið við sem möguleika til fjáröflunar í dýrtíðarráðstafanir jafnframt því, sem hún fer nú fram á?

Nú hefur hæstv. ríkisstj. sagt, að búið sé að nota aðeins 11/2 millj. kr. samkvæmt þessari heimild, en að upphæðin, sem heimildin hljóði um, nemi um 71/2 millj. kr. samtals, og eru þá eftir um 6 millj. kr., eftir skilningi hæstv. ríkisstj. Þótt gert hafi verið ráð fyrir því af hálfu Alþ., að þessi heimild yrði notuð, ef svo bæri undir, tel ég nauðsynlegt að fá að vita nú, hvort hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér að láta hana falla niður ónotaða, eða hvort hún hefur gert ráð fyrir að nota þetta fé til dýrtíðarráðstafana til viðbótar því, sem frv. það hljóðar um, sem nú er rætt.