23.02.1943
Neðri deild: 63. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Það hefur vafalaust verið beðið eftir því með mikilli óþreyju af þingi og þjóð, hvað ríkisstj. legði til, að gert yrði í dýrtíðarmálunum. Þótt nokkur dráttur hafi orðið á því, að þetta frv. kæmi fram, er það afsakanlegt. Ég býst við, að það komi í ljós, að það sé hvorki einfalt eða óbrotið að ráða fram úr þessu vandamáli á réttlátan hátt. Ég er því ekki að ásaka hæstv. ríkisstj. fyrir þann drátt, sem orðið hefur á þessu, en ég ásaka hana miklu fremur fyrir það, að þegar frv. loks kemur fram, þá skuli það vera eins og það nú er. Það hefur verið mjög mikið um það rætt, að nú verði allir að leggja eitthvað á sig til þess að ráða bót á þessu ástandi, sem nú ríkir hér, en það er ekki hægt að slá þessu fram sem algildri reglu, og þegar á að ráða bót á dýrtíðinni, þá verður að líta í kringum sig og sjá, hvað hefur gerzt í íslenzku þjóðlífi og íslenzku hagkerfi frá því 1940 og fram til þessa dags. Það er strax hægt að slá því föstu, að þjóðarauður Íslendinga hefur vaxið mjög á þessu tímabili. Í þessu sambandi nægir að líta á erlenda gjaldeyrinn, en hann heldur alltaf áfram að vaxa hér í landinu, þótt verzlunarjöfnuðurinn sé okkur nú óhagstæður. Þjóðartekjurnar eru nú orðnar mjög miklar, og miklu meiri en nokkru sinni áður í sögu landsins. Nú á tveimur síðustu árum hefur mönnum einnig orðið það ljóst, að hætta geti steðjað að og slegið geti í bakseglin, ef ekkert sé gert til þess að halda dýrtíð og verðbólgu í skefjum. Þessu tvennu getum við slegið föstu, að þjóðarauðurinn hefur aukizt mjög og að nú þarf að gera ráðstafanir, sem kosta mikið fé, til þess að auka öryggi þjóðarinnar og bæta afkomumöguleika hennar.

Að segja það, að nú þurfi allir að taka á sig hlutfallslega sömu byrðar, er algerlega röng og ósanngjörn ályktun. Það verður að athuga vel, hverjir hafa hagnazt og hverjir tapað. Ef við tökum til dæmis launastéttina, þá tók hún á sig miklar byrðar með gengislækkuninni 1939 í von um það, að þá mundi eitthvað rakna fram úr atvinnuleysinu. Það fór eins og búast mátti við, að kaupmáttur launastéttarinnar minnkaði, en áður hafði mikill hluti hennar átt að búa við atvinnuleysi, sem hafði gengið svo nærri mörgum, að þeir höfðu neyðzt til þess að leita á náðir hins opinbera. Það voru verkalýðurinn og launastéttin, sem tóku á sig byrðar 1939, og þær komu hart niður fyrst í stað. En þegar leið á árið 1939 og stríðið skall á, þá varð það strax í upphafi ljóst, að við það mundu opnast nýir og óvæntir gróðamöguleikar fyrir ýmsar stéttir þjóðfélagsins. Sjávarútvegurinn hafði verið hart leikinn á ýmsa lund. Margar greinar hans höfðu verið reknar með tapi. Landbúnaðurinn hafði mætt nokkru tapi, en hið opinbera hafði gert ráðstafanir að sínu leyti til þess að létta kreppunni af bændum landsins, eftir því sem efni stóðu til. En í árslok 1939 byrjaði strax nýtt víðhorf. Sölufarmar til Þýzkalands og Bretlands voru þá keyptir fyrir óvenjulega hátt verð, sem bætti aðstöðuna fyrir sjávarútveginn og landbúnaðinn. Gærufarmur, sem fór héðan til Þýzkalands síðast á árinu 1939, og aflasölur strax þá, til Þýzkalands sérstaklega, gerðu það að verkum, að strax kom í hendur vissra stétta í þjóðfélaginu veruleg tekjuaukning. En verklýðsstéttin bjó áfram við skarðan hlut. Það ár er kaup verkalýðsstéttanna og launastéttanna bundið og ekki greidd á það full dýrtíðaruppbót. Tekjur þessara stétta, framleiðendanna, voru rýrar fram yfir mitt ár ið. En þá fer allt að gerbreytast á hina hliðina. Þá er, undir lögbindingunni á kaupinu, byrjað að hækka verð landbúnaðarafurðanna. Þá byrjuðu fljótlega að hækka afurðir útgerðarinnar í landinu með bættum kjörum og hækkuðu verði á sjávarafurðunum.

Árið 1940 var ágætt afkomuár og að sumu leyti mikið gróðaár fyrir sjávarútveginn. En fyrir launastéttirnar var það lélegt ár, þó að seinni hluti ársins bætti það að nokkru leyti upp, en það dugði alls ekki til. Þá eru liðin tvö ár, sem gera það að verkum, að aukizt hefur misræmið milli tekna stéttanna í íslenzka þjóðfélaginu miðað við það, sem áður var. Launastéttirnar verða út undan, en framleiðslustéttirnar taka gróðann, og þeir, sem annast dreifingu vara, byrja líka að safna að sér álitlegum gróða. Fram til þessa tíma voru og útgerðarmenn skattfrjálsir.

Svo kemur árið 1941. Þá verður breyting að því leyti, að kaup launastéttanna hækkar til samræmis við hækkandi dýrtíð, eftir vísitölu, sem var reiknuð einum til þrem mánuðum eftir á. Verðlagið heldur enn áfram að hækka. Launastéttirnar verða enn fyrir auknum þunga af vaxandi dýrtíð, því að þær fá ekki kaup sitt hækkað eftir dýrtíðinni. En þá hjálpar þeim aukin atvinna. En nú fer stríðsgróðinn að flæða til útgerðarinnar og verzlunarstéttarinnar og að mörgu leyti einnig til bændastéttarinnar. En verkalýðsstéttin og launafólkið gerir lítið meira en að standa í stað, fastlaunafólkið alls ekki meira en að standa í stað. Dýrtíðaruppbót er því að vísu greidd, en hún kemur öll eftir á. Laun aukast við það, að menn vinna lengri vinnutíma. Menn leggja nætur við daga til þess að auka tekjurnar.

Svo kemur árið 1942. Þá hækkar verulega grunnkaupið hjá launastéttunum öllum á því ári, og afkoman hjá því fólki verður mjög sæmileg. Þá fyrst er hægt að segja, að þessar stéttir fari að fá dálítið í sinn hlut af þeim stríðsgróða, sem hafði flætt yfir landið í rúm tvö ár. Á þessum tímamótum stöndum við nú.

Við þekkjum þessa forsögu. Og minnugir þessarar forsögu eigum við að ákveða framtíðina. En við eigum ekki að slá fastri þeirri regin-vitleysu, rangsleitni og ósanngirni, að nú beri að leggja einhverjar tiltölulega jafnar byrðar, reiknaðar „prósentvís“, á allar stéttir þjóðfélagsins, án tillits til þess, hver hefur verið afkoma þeirra nú síðustu árin. Til þess að meta það, hvort rétt sé, að byrðarnar raunverulega geti verið jafnþungar eða ekki, þá ber að meta það, sem á undan er gengið, sem ég hef að nokkru getið, tekjur hinna ýmsu stétta í þjóðfélaginu og þess samræmis eða misræmis, sem þar hefur átt sér stað. — En mér virðist þetta frv. bera sára lítinn keim af því, að þessa hafi verið gætt, heldur að með því sé meira að segja vakinn upp gamall draugur, sem ég hélt, satt að segja, að hefði verið kveðinn niður fyrir fullt og allt á síðasta ári, þar sem það nú skýtur upp höfðinu, að beita eigi lögþvingun gegn launastéttunum, móti vilja þeirra og andstöðu þeirra. Ég hélt, að þessi draugur, sem riðið hafði húsþökum launastéttanna undanfarið, væri kveðinn svo langt niður, að engri ríkisstj. tækist að vekja hann upp. En núv. hæstv. ríkisstj. gerir þó tilraun til þess að vekja þennan draug upp. Og því óskiljanlegra er það, þar sem hæstv. núv. forsrh. hefur talað af mikilli sanngirni og velvild um það mál, rétt áður en hann tók við forsæti þessarar hæstv. ríkisstj. Hann sagði l. desember í ræðu sinni:

„En í byrjun yfirstandandi árs (þ.e. 1942) horfði svo um kaupgjalds- og verðlagsmál, að ríkisvaldið taldi nauðsyn að taka á ný í taumana í því skyni að halda hinni vaxandi dýr tíð í skefjum. Var þá gripið til ráðstafana án þess að hafa verkalýðsstéttirnar með í ráðum, ráðstafana, sem leiddu til ófarnaðar.“

Þetta var hverju orði sannara og lýsir góðum skilningi þess mæta manns, sem hafði verið áhorfandi pólitískra átaka undanfarið og hafði séð, hvað það kostaði að beita eina stétt í þjóðfélaginu rangindum, að það leiddi einungis til ófarnaðar. Þeim mun sárara og óeðlilegra finnst mér það nú, að hæstv. ríkisstj., með forsæti þessa hæstv. ráðh., skuli nú leggja fram till. um að lögbjóða lækkun á kaupi hjá launastéttunum. Því að ég þori að fullyrða, að það er ekki gert í samráði við þær. Ég þori líka að fullyrða, að það er gert gegn vilja þeirra, og það veit hæstv. ríkisstj., þó að hún kunni ekki að hafa gert miklar tilraunir til þess að afla vitneskju um það hjá þeim.

Þessi almennu orð vildi ég láta falla um frv., en skal svo r eyna á þeim örfáu mínútum, sem eftir eru af ræðutíma mínum, að minnast á nokkur atriði í frv., sem mér virðist rétt að benda á strax í upphafi.

Um I. kafla frv. er það að segja, að mjög kann að orka tvímælis, hvort það er rétt að undanskilja jafnfortakslaust einn þriðja hluta af tekjunum, sem lagðar eru í varasjóð og til nýbyggingasjóða hjá útgerðarfélögum yfirleitt. Get ég þar tekið undir orð hv. 2. þm. S.-M. og bent honum á það, að vera kynni, að sum útgerðarfélög væru orðin svo sterk, að engin sérstök ástæða væri til þessa. Sérstaklega er þetta líka athugunarvert og þarf nánari athugunar við, þegar athuguð eru ákvæði 3. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að leyfa megi óvenjulegar afskriftir á eignum slíkra fyrirtækja.

Ég vil líka benda á það, að það sé rétt að athuga, þegar þar að kemur, hvort það er rétt að ákveða jafnfortakslaust eins og gert er í frv., að samvinnufélög séu laus við það að fá skatt á þann hluta teknanna, sem þau leggja í varasjóð. Ég álít, að það þurfi athugunar við líka, hversu mikils auðs samvinnufélög kunna að hafa aflað á þessum stríðsgróðatíma og hvort sanngirni mæli með því, þegar á að fara að ganga á eignir og tekjur þeirra, sem mest hafa grætt, að þau eigi þá fortakslaust að vera undanskilin.

Um viðreisnarskattinn sjálfan vil ég aðeins segja það, að það gefst enginn tími eða tækifæri til þess að fara nákvæmlega út í skattstigann þar. Þó virðist mér, að á það megi benda, að skattstiginn í þessum viðreisnarskatti er fyrst og fremst á tekjum upp að 100 þús. kr., jafnvel þó að hann sé lækkandi þar á tekjubili, og svo er hann lækkandi á tekjunum upp að 200 þús. kr. Nú er athugandi, að þetta frv. breytir því ekki, að sveitar- og bæjarfélög megi ekki leggja útsvör á tekjur fyrir ofan 200 þús. kr. Allir tekjuöflunarmöguleikar sveitar- og bæjarfélaga eru á tekjum einstaklinga og félaga, sem hafa tekjur á þessum hluta skattstigans, sem fellur undir viðreisnarskattinn. Og vera má, að þar kunni að vera gengið full nærri tekjuöflunarmöguleikum sveitar- og bæjarfélaga með þessu móti. — Þetta er atriði, sem ég vil benda á.

Annars virðist margt mæla með því, að hugmyndin um viðreisnarskatt sé rétt og það sé rétt að bæta við skatti á þessum hluta skattstigans og breyta ákvæðum núgildandi skattal., hvað snertir skattlausan frádrátt til varasjóða, þó að ég álíti, að þau ákvæði frv., er þetta snerta, þurfi af ýmsum ástæðum mjög náinnar endurskoðunar við, eins og við Er að búast. Getur enginn til þess ætIazt, að nein ríkisstj. leggi fram svona lagað frv. þannig, að ekkert þurfi við það að athuga. Þætti mér því ekki undarlegt, þó að það kynni að þurfa að taka breytingum. Og víst er það, að það þarf að athugast mjög gaumgæfilega.

Hugmyndinni um eignaaukaskatt er Alþfl. hlynntur. En ég get að sumu leyti tekið undir það með hv. 2. þm. S.-M, að mér finnast ákvæðin um þetta í IlI. kafla frv. vera bæði mjög ónákvæm og að sumu leyti þannig, að þau orki mjög tvímælis. Það er t.d., jafnan áður en eignaaukaskattur er ákvarðaður lögheimilaður tapsfrádráttur útgerðarfélaga. Það var nú svo, að þegar tapsfrádráttur var lögheimilaður, þá voru deilur um, hvort það skyldi gert. Alþfl. var andvígur því, að hann yrði leyfður. En samkomulag varð um það milli Framsfl. og Sjálfstfl. að leyfa þennan frádrátt. Og það samkomulag var víðtækara heldur en kom fram í þessu máli.

Alþfl. er ekki reiðubúinn fyrir sitt leyti til að ganga inn á það skilyrðislaust, að tapsfrádráttur verði tekinn til greina, þegar kemur til þess að leggja þennan skatt á. Enda mun þetta vera síðari tíma viðbót í frv., eins og hv. þm. mun vera kunnugt um, sem í trúnaði fengu að sjá frv. áður, hvaða ástæða sem var til að setja þetta ákvæði í frv., áður en því var útbýtt á Alþ.

Um IV. kafla hef ég rætt í sambandi við launastéttirnar almennt og skerðingu á réttindum þeirra. Og mér finnst engin rök vera hægt að færa fram fyrir því, að Alþ. gegn vilja verkalýðssamtakanna og launastéttanna ákveði að lækka kaup þeirra stétta nú um tæp 13%. Engin rök liggja til þess, engin sanngirni mælir með því og ekkert rétt hlutfall fæst milli stéttanna í landinu með því móti. Það er að vísu svo, að ákvæði 12. gr. frv. eru þannig, að það er opið fyrir verkalýðssamtökin og launastéttirnar að fara fram á grunnkaupshækkun, sem gerir þá alveg haldlaust þetta ákvæði frv. um lækkun á verðlagsuppbót. Og mér skildist á hæstv. forsrh., að það væri kannske einhver von til þess, að þetta yrði athugað, hvort þessa leið eigi að fara svona fortakslaust, eins og gert er ráð fyrir í frv. Ug ég vil mega vænta þess, að ríkisstj. athugi það og finni þann þunga, sem á bak við býr og fljótt mun koma í ljós hjá launastéttunum í landinu út af þessu ákvæði frv., af því að þeim finnst þetta ákvæði ekki réttlátt, borið saman við önnur ákvæði frv. Og ég álít líka það vera annað, sem gera ætti, að þetta ákvæði ætti að athugast af samtökum launastéttanna, til þess að hægt væri að sjá, á hvern hátt væri hægt að fá gagnkvæman skilning ríkisvaldsins og launþegasamtakanna í öllum þessum greinum, til þess að sjá, á hvern hátt væri hægt að gera aðstöðu þeirra í þjóðfélaginu á þá leið, að byrðarnar væru ekki lagðar tiltölulega þyngstar á þá, sem laun taka, þegar á að fara að hefja svo kallað viðreisnarstarf. En að mínu víti eru byrðar þessar lagðar þyngst á launastéttirnar með IV. kafla frv., eins og það er lagt fram hér fyrir hæstv. Alþ.

Um verðlag landbúnaðarafurða get ég sagt það eitt, að mér finnst mjög á skorta í því efni í 15. gr., að engin ákvæði skuli vera um það, eftir hvaða reglum í höfuðatriðum eigi að finna út verðlagsvísitölu landbúnaðarafurða og frá hvaða tíma þar eigi að taka skurðpunktinn. Það er eins og hæstv. ríkisstj. hafi sjálfa órað fyrir því, að það mundi ekkert koma frá þessari n., sem í 15. gr. er gert ráð fyrir, að skipuð verði, og þess vegna hafi hæstv. ríkisstj. sett til vara það ákvæði í frv., að ef engin vísitala yrði fundin, þá lækkaði verð landbúnaðarvara á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í 15. gr. frv. En ég held, að þessi ákvæði 15. gr. þurfi gagngerðrar athugunar við eins og önnur ákvæði V. kafla frv., og er Alþfl. fús til þess fyrir sitt leyti að taka þátt í rækilegri athugun á þeim kafla.

Ég hef nú notað þann tíma, sem mér var framast leyfður af hæstv. forseta til ræðu minnar, og þó að ég hefði kosið að fara um málið fleiri orðum, læt ég nú. staðar numið. En ég vænti þess, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, sé aðeins opnun á viðræðum um það, á hvern hátt hægt er að bæta úr erfiðleikum, sem bíða fram undan, en hæstv. ríkisstj. vilji ekki með þessu frv. setja einskorðað fram hugmyndir, sem hún telji rangt og fráleitt að víkja frá. Mörg atriði frv. eru þess eðlis, að Alþfl. vill ræða þau, telur þar þörf á breyt. og telur, að þar sé í frv. stefnt í rétta átt. Sum ákvæði frv. eru hins vegar á þá lund, að Alþfl. telur þau, í þeirri mynd, sem þau hafa frv., þannig, að þau verði að hverfa algerlega burt úr frv. Með þetta fyrir augum mun Alþfl. taka þetta mál til rækilegrar athugunar eins og ávallt, er um vandamál er að ræða, og ræða bæði við flokkana og ríkisstj. um þær till. til lausnar þessa vandamáls, sem hann hefur fram að bera.