24.02.1943
Neðri deild: 65. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Þegar lm. núverandi ríkisstjórn tók við völdum, gaf hún það fyrirheit, að hún mundi beita sér fyrir lausn dýrtíðarmálanna í landinu. Hún hefur, frá hennar sjónarmiði séð, gert tilraun til að ráða bót á þeim vandræðum, sem þing og þjóð eru einhuga um að ráða þurfi bót á, með frv. því, sem hér liggur fyrir. Það hefur verið rætt nokkuð af flokkunum og hefur sætt þungri gagnrýni. Það var borið fram af ríkisstjórninni, án þess að hún leitaði samstarfs við þingflokkana við samningu þess. Það hefur og komið fram í umr. nokkuð sterk gagnrýni á þingflokkana fyrir það að geta ekki komið sér saman um lausn þessa máls. Með hliðsjón af því mætti taka till. stjórnarinnar með góðvild, þótt hins vegar sé ekki óeðlilegt, að þær séu nokkuð gagnrýndar í einstökum atriðum. Vil ég leyfa mér að víkja örfáum orðum að aðaldráttum frv.

Ég tel það mjög varhugavert að skerða rétt varasjóða, eins og gert er ráð fyrir í frv. Það verður að Iíta á það, hve atvinnurekstur Íslendinga er áhættusamur. Þess vegna er talsvert rík ástæða til að hvetja menn til að safna í varasjóði til þess að geta staðizt misæri, ekki sízt þegar þess er gætt, að nú hækkar hagur ríkissjóðs ekki nema um 11/4 millj. kr. Það er því vafamál, hvort það er rétt leið, sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið, með tilliti til þeirrar nauðsynjar að standast taprekstur. Tel ég það varhugavert, ef skerða á rétt hlutafélaga, en samvinnufélögin eiga að njóta áfram sömu réttinda.

Ég hef sett þetta fram hér, án þess að ég hafi beina jákvæða till. að bera fram viðvíkjandi þessum kafla.

Varðandi 2. kafla frv. get ég tekið undir það, að um verulega skattaukningu er að ræða, einkum þegar þess er gætt, að áður hvíldi mikill skattaþungi á íslenzkum skattgreiðendum. Vil ég f.h. Sjálfstfl. áskilja mér rétt til að bera fram till. um þessi atriði síðar.

3. kaflinn er, eins og hv. fjmrh. tók fram, nýmæli í íslenzkri löggjöf. Það er náttúrlega neyðarúrræði mikið að leggja sérstakan skatt á eignir hlutafélaga og einstaklinga vegna þessa gróða. Menn verða að líta á það, að nú þegar eru greiddar 3 til 4 krónur af hverjum 5. Tel ég að rök ríkisstjórnarinnar séu ekki nógu sterk til að réttlæta það, hversu nærri eignaréttinum er hér gengið.

Varðandi 4. og 5. kafla vil ég taka fram, að enginn þurfti að ganga þess dulinn, að það efni mundi sæta gagnrýni, enda hefur það farið svo. Hv. frsm. framsóknarmanna sagði, að það þyrfti að athuga leiðir til lækkunar á dýrtíðinni. Vil ég taka undir þá skoðun. Hitt vil ég ekki styðja, sem sumir hafa haldið fram, að rétt sé að láta hana leika lausum hala. (Vantar í hndr.).

Að hann er mildilegur, sést bezt af því, að í dag er honum ætlað að vera 121/2%, en ef dýrtíðarvísitalan er 250 stig, þá á hann ekki að vera nema 61/2%, og ef vísitalan kemst niður í það, sem var 1939, er ekki um lækkun kaups að ræða fyrir launastéttirnar lengur. Þeir, sem bera hagsmuni launastéttanna sérstaklega fyrir brjósti, verða að viðurkenna, að hér er beitt mjög mildilegum aðferðum í þessum efnum.

Ég get vel skilið, að umboðsmenn bænda standi upp og segi: „Gamla þrætueplið, sem verið hefur í allri dýrtíðarbaráttunni, er hér tekið upp, og sú hliðin, sem verri er, er látin vita að okkur.“ Því að ég hef skilið ákvæði frv. þannig, að með því séu bein fyrirmæli sett um verðlag á landbúnaðarafurðum. En þó að þetta frv. sé samþ. óbreytt, er ekki með því af skorinn möguleiki launastéttanna til þess að bera úr býtum sömu krónutölu eins og nú að óbreyttum 1., eingöngu með því að beita samtökum sínum til grunnkaupshækkana, ef atvinnuvegirnir eru álitnir þola það, sem ég þó tel að sé ekki. En vegna lagafyrirmæla er ekkert að mínu viti því til fyrirstöðu, að slík launahækkun geti átt sér stað hjá launastéttunum, þó að þetta frv. verði samþ., þar sem þó bændum væri ákveðið visst verð fyrir sínar vörur, sem þeir með engu móti gætu breytt.

Ég get — eins og ég vona, að menn sjái af þessum orðum — ekki á þessu stigi málsins heitið einstökum atriðum þessa frv. fylgi Sjálfstfl. En ég vil — og ég held að ég megi mæla það fyrir hönd Sjálfstfl. — eiga þátt í því, að þetta mál sé athugað í ljósi þeirrar alvöru, sem hér er á ferðinni og með fullum góðvilja til þess að ná einhverri niðurstöðu. Ég hef litið á ræður hæstv. ráh. þannig, að þeir með þeim hafi viljað segja: „Við höldum nokkuð fast á þessu máli, bæði almennt og í einstökum atriðum, en þó ekki svo fast, að við séum ekki reiðubúnir til þess að hnika til, ef aðeins höfuðtilgangi okkar er náð, sem er að lækka dýrtíðina í landinu og reyna að fullnægja þeim þjóðarvilja, sem kveðið hefur hæst á um þessi mál innan sala Alþ, og af vörum alþm. utan þessara sala, enda þótt þeir hafi engar till. komið fram með, með nægilegu þingfylgi að baki til þess að leysa þessi mál.“

En til þess að niðurstaða náist í slíkum málum sem þessum, finnst mér verði að seilast dýpra og nota betur þá þekkingu, sem er fyrir hendi, heldur en kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, frsm. Sósíalistafl. (EOl). Ég heyrði ekki betur heldur en meginþættir ræðu hans væru helzt um þjóðnýtingu á einstökum atvinnurekstri eða einstakra greina atvinnurekstrar landsmanna, sem ekki stendur í neinu beinu sambandi við lausn þessa máls, eins og það liggur fyrir. Og allt hans tal um þá hlið málsins var líkara því, að hann kæmi frá Grænlandi eða einhverjum öðrum afskekktum skika veraldarinnar, heldur en hinu, að hann hefði setið á Alþ. á undanförnum árum og átt sinn þátt í því að semja um það, hvernig beri að skipta arðinum milli einstaklinga þjóðfélagsins annars vegar og þjóðfélagsins hins vegar. Það var ekki annað að skilja á honum heldur en að hann áliti, að gróði, sem hann taldi, að hálaunastéttirnar á Íslandi, sem hann svo kallaði, hafa fengið, væri eign útgerðarinnar, sem það opinbera hefði engin afskipti af. En sjálfur hefur þessi hv. þm. ásamt okkur, sem hér höfum átt sæti á hæstv. Alþ., ákveðið, að 3 og upp í og yfir 4 kr. af hverjum 5 af þeim gróða, sem fallið hefur í skaut af þessum atvinnurekstri, sé um leið orðið eign hins opinbera. Og mér var alveg óskiljanlegur sá hugsanagangur, sem þó mjög gætti hjá honum, að dýrtíðin í landinu hefði verið látin hækka takmarkalaust til framdráttar þessum stórtekjumönnum. Þessi hv. alþm. er það skýr í hugsun og hefur það mikla þekkingu á þjóðmálum, að hann hlýtur að tala hér alve g um hug sér. Hann hlýtur að vita, að þessi stórútgerð, sem hann kallar, hefur borið því minna frá borði sem dýrtíðin hefur vaxið meira í landinu. Tekjuhlið þessarar útgerðar markast af söluverði aflans í Englandi, en útgjaldahliðin hins vegar markast að verulegu leyti af dýrtíðinni í landinu, og verður því hærri sem dýrtíðin vex meir. Af þessu leiðir, að vaxandi dýrtíð í landinu er vaxandi böl fyrir þessa útgerð. Þetta er augljóst mál, þar sem söluverðið fylgir ekki dýrtíðinni. En það, sem mér skildist vaka fyrir þessum hv. þm., að það, að látið hefði verið að kröfum útgerðarinnar um að afhenda henni sín pund, sem bundin voru í Englandi, þ.e. borga þau út í íslenzkum krónum, hefði orsakað aukna dýrtíð í landinu, það held ég að sé á misskilningi byggt. Mér vitanlega hefur ekki verið varið einni einustu krónu hjá því útgerðarfyrirtæki, sem ég er kunnugastur, í nokkuð það, sem er óskylt rekstri þess félags. En þá sök bar hv. þm. (EOl) á hendur útgerðinni, að hún hefði braskað með þessa peninga, pundin, sem bundin voru en svo borguð út hér í íslenzkum krónum, og þar með aukið dýrtíð í landinu, með því að yfirborga fasteignir og þess háttar. Ég er reiðubúinn að sýna þessum hv. þm. reikninga þessa félags, margendurskoðaða m.a. af hv. 2. þm. S.-M. og af löggiltum endurskoðendum. Hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) var um hríð daglegur gestur við að athuga þetta reikningshald, og sömuleiðis Helgi Briem á sínum tíma. Og ég held, að ekki hafi sá töluglöggur maður til verið á landinu, að ekki hafi rekið nefið ofan í reikninga þessa. Ég get sýnt hv. þm. (EOl) reikninga þessa. Og ég held, að ekki sé nein upphæð, sem neinu nemi, sem farið hefur hjá þessu félagi til þess, sem hann var að tala um, sem ekki hafi verið greiðsla skulda eða tillag í nýbyggingarsjóð. Og aðeins í tvö skipti var greiddur 5% arður af hlutafé. Þetta er kannske ótrúlegt, en það er samt satt. Og ég er reiðubúinn, ef þessi hv. þm. óskar, að sýna honum þessi plögg. Af því að ég hafði látið ávur orð falla í svipaða átt við annan hv. þm., eins og ég nú læt falla við þennan hv. þm., hef ég sýnt þeim hinum öðrum hv. þm. þessi plögg, og varð hann hissa yfir því að sjá þau, því að hann hafði búizt við öðru þar. Og ég held, að það mundi hreinsa loftið í íslenzku þjóðlífi, ef þessi plögg yrðu opinber. (EystJ: Er ekki bezt að leggja þau fram á lestrarsal?). Þessi hv. þm. (EystJ) veit, að ég fer með rétt mál, ef hann hefur skrifað það í þá vasabók, sem hann er ekki búinn að týna. En það er eðlilegt, að þegar menn horfa á tölur um t.d., 13 þús. sterlingspunda sölu í einni för, þá spyrji menn: „Hvar eru þessir gullklumpar allir?“ En það eru ekki margar krónur að tiltölu af þessum gróða, sem sigla í varasjóðina, þegar skattyfirvöldin eru búin að fara höndum um þá tekjusjóði, það fé, sem fæst við þessar sölur. Og þegar hv. þm. spyr, hvers vegna sé ekki meira fé í nýbyggingar sjóðum, þá liggur skýringin í því, að 3–4 kr. eru teknar í ríkissjóð og bæjarsjóði af hverjum 5 kr. þessara tekna. Og þegar það er búið, rennur helmingur afgangsins í nýbyggingarsjóð viðkomandi firma og helmingurinn í varasjóð. Og ég hygg, að hæstv. fjmrh. hafi sagt, að ekkert félag, sem ætti eitt skip, ætti enn nægilegt fé í nýbyggingarsjóði til þess að byggja nýtt skip: Ég veit ekki, hve mikið nýtt skip kostar, en eftir síðustu styrjöld kostuðu ný skip um 40 þús. sterlingspund. Eftir þessa styrjöld má búast við, að byggð verði stærri skip en áður fyrir íslenzka útgerð. En af þessu má sjá, hvað þessir sjóðir eru máttvana. Útgerðarmenn sjálfir þurfa engu að kvíða sjálfra sín vegna, að þeir hafi ekki nóg til að bíta og brenna. En sjónarmiðið verður að vera víðara heldur en að hugsa um það. Það verður að taka til greina sjónarmið sjómanna, verkamanna og þjóðarheildarinnar, og þau sjónarmið verða að liggja til grundvallar löggjafar á þessu sviði.

Ef ekki hefur verið um skattsvik að ræða, hefur sú löggjöf, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) og ég höfuð staðið að að setja, tekið nú þegar svo mikið af tekjum útgerðarinnar til hins opinbera, að svona veikir eru nú nýbyggingarsjóðirnir.

Ég hef nú ekki gaumgæfilega athugað, hvaða afleiðingar þetta frv. mundi hafa, ef það væri samþ. óbreytt. En mér sýnist, fljótt á litið, að ef þetta verður að l., muni aðili, sem græðir 200 þús. kr., borga nálega 150 þús. kr. til ríkis og bæjar, þegar þess er gætt, að ekki er lengur heimilt að draga skatt og útsvar síðasta árs frá tekjum við ákvörðun skattskyldra tekna. Sumir halda, að það sé meira en 3/4 af skattskyldum tekjum, sem renni til hins opinbera af þessum tekjum. Ég viðurkenni, að mér fróðari maður í þessum efnum telur, að þetta sé ekki rétt hjá mér, að það séu 3/4 teknanna, sem að þessu marki renni til hins opinbera, heldur sé það meira.

Ég endurtek það, að Sjálfstfl. getur ekki heitið fylgi sínu einstökum atriðum þessa frv. á þessu stigi málsins, en vill gjarnan taka málið til gaumgæfilegrar athugunar og lita á þessa viðleitni stjórnarinnar til þess að leysa vandann sem mjög virðingarverða.

Ég vildi svo leyfa mér að bera fram þá uppástungu við hæstv. forseta, hvort ekki mundi vera réttara, þegar eðli málsins er athugað, að setja sérstaka n., sem sérstaklega yrði til þess kosin að fjalla um þetta mál. Hv. fjhn. hefur nógum störfum að gegna, og ég veit heldur ekki, hvort flokkarnir hafa valið þá n. með þetta frv. fyrir augum. En þetta mál er alveg sérstaks eðlis, og menn verða að gera sér ljóst, að afleiðing framkomu þessa máls er sú, að þm. verða að samþ. þetta frv. óbreytt, eða lítið breytt, eða há að koma með nýtt frv. og mynda um það nýja stjórn, hvernig sem hún þá yrði.