24.02.1943
Neðri deild: 65. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Áður en þetta frv. fer til n., vil ég benda á 2–3 atriði í frv. til athugunar fyrir n., sem mér virðist, að ekki hafi enn komið fram.

Fyrst vil ég benda á, að áður en eignaraukaskattur er lagður á samkv. 9. gr., er heimilað að draga frá tapsfrádrátt útgerðarfélaga. Í þessu sambandi vil ég biðja n. að athuga, að þennan tapsfrádrátt hafa ekki fengið önnur félög en þau, sem hafa haft glögga reikninga, sem hafa sýnt, hvert tapið var. Þau, sem ekki hafa gert það, hafa sum komið á eftir, þegar tapsfrádráttur var leyfður með lögum og sagt: „Við höfum tapað, og við viljum fá tapsfrádrátt.“ En þau hafa ekki fengið hann, enda ekki getað sannað, hver hann hafi verið. Afleiðingin er sú, að það er til, að tvö félög, sem hefur staðið eins á fyrir að öllu leyti, að annað hefur fengið 5 millj. kr. frádrátt vegna tapa, en hitt ekki neitt.

Í öðru lagi vil ég benda á, að sú vísitala, sem á að finna samkvæmt 5. kafla frv., eigi að vera til grundvallar fyrir hvert verð, sem verður á landbúnaðarafurðum. Það er sjálfsagt hægt að finna hana, þó að það kunni að vera erfitt og sú tala verði ekki eins nákvæm og sú vísitala, sem gildir hér í Rvík. Mér skildist á hæstv. félmrh., að þál., sem samþykkt var í sumar, geri það að verkum, að ef ekki fengist það verð fyrir þær vörur, sem vísitalan segir um, þá mundi ríkissjóður hlaupa undir bagga. Það hlýtur eitthvað að liggja á bak við þetta, því að það vitum við, að oft hefur verð landbúnaðarafurða verið langt fyrir neðan þessa vísitölu. Það hefur verið reynt að ráða bót á þessu, t.d., með því að hafa verðið á kjöti á innlenda markaðinum hærra en verðið á útflutta kjötinu og jafna síðan mismuninn. En ef verðið innan lands á að vera miðað við þessa vísitölu, þá er það gefið, að sama verð eigi að vera fyrir útflutta kjötið, en þál. frá í sumar nær ekki yfir nema framleiðslu ársins 1942.

Enn fremur vil ég benda á, að ef það er, sem mér skildist á upplýsingum, sem gefnar voru í gær, að 14. gr. mundi gera 10 stiga lækkun, þá fæst hún því aðeins, að reiknað sé með fleiru en talað er um í 14. gr., en þar er talað um þær vörur, sem verðlagðar séu samkvæmt sérstökum lögum, en það eru þær vörur, sem verðlagðar eru af mjólkurverðlagsnefnd, kjötverðlagsnefnd og verðlagsnefnd grænmetisverzlunarinnar. Ef við tökum þessar vörur, fáum við engin 10 stig, heldur 7 stig, og það er vegna þess, að þarna eru ekki allar landbúnaðarvörur. Það vantar t.d.. nautakjöt og kjötfars, en verðlagning á því heyrir ekki undir kjötverðlagsnefnd. Þó að kindakjöt lækki um 10%, þá stendur verð á nautakjöti og kjötfarsi í stað eins og annað, sem n. verðleggur ekki.

Svipað er að segja um þann stigafjölda, sem á að nást með 16. gr. Mér reiknast, að ef ekki eru teknar nema þær vörur, sem þessar n. verðleggja, þá fari vísitalan ekki niður í 236 stig, heldur 244 stig. Ég vil benda á, að ef það er meiningin að láta þessa lækkun koma á fleira, þá verður að búa þannig um í gr., að sá tilgangur náist. Þetta vil ég biðja n. að athuga.

Ég sé ekki ástæðu til að nefna fleira sérstaklega, en þó held ég, að það sé tæplega nógu ljóst í 12. gr., þar sem talað er um, að ekki eigi að borga uppbót af hærri grunnlaunum en um opinbera starfsmenn segir. Nú er það tvennt, sem gildir um opinbera starfsmenn, annars vegar að það hámark, sem megi borga vísitölu á, sé 650 kr. á mánuði, og hins vegar hefur það líka verið ákveðið, að kaup megi hækka um 25–30%. Ég býst við, að í þessari gr. sé átt við 650 kr., og þá finnst mér það þurfa að koma fram greinilegar en það gerir nú. Nú er mörgum, sem fá þessa uppbót, ekki greitt mánaðarkaup, heldur dagkaup. Þess vegna þarf að miða hámarkið bæði við dagkaup og mánaðarkaup. Þetta vil ég einnig benda n. á.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða frv. Þó vil ég undirstrika það, að ég held, að eignaraukaskatturinn nái engan veginn takmarki sínu eins og þarna er fram sett, því að sá eignarauki, sem fram kemur, er að vísu nokkur, en sá, sem þyrfti að ná til, er fyrst og fremst sá, sem ekki sést, en það eru eignir manna, sem faldar eru í veðdeildarbréfum og ýmsum öðrum verðpappírum og hvergi eru taldar fram, en það eru eignir, sem fyrst og fremst þarf að ná í með þessum skatti. Það kann að vera, að skattadómari eigi að ná yfir það, og hann nær kannske í einhverja smáviðbót, en þar þarf að verða mikil breyting til bóta, ef á að nást í það allt, og það næst ekki með þessum kafla, eins og hann er þarna.