07.04.1943
Neðri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Ásgeir Ágseirsson):

Herra forseti. — Það mál, sem hér um ræðir, er búið að vera alllengi fyrir þinginu til úrlausnar, og allt til þessa dags hefur ekki verið hægt að ráða því til lykta, og veldur þar um ýmislegt, sem ég ætla mér ekki að rekja nú.

Áður en það frv., sem hér liggur fyrir, var lagt fram, höfðu fa,rið fram samningaumleitanir milli þingflokkanna um lausn dýrtíðarmálsins. Þessar umr. stóðu alllengi, en lauk þó svo, að ekkert samkomulag náðist, og hafa þar að mestu um ráðið hin ólíku sjónarmið þingflokkanna, að ekki skyldi vera hægt að koma á samkomulagi um þetta brýna og aðkallandi vandamál. — Niðurstaðan af þessu varð svo sú, eins og mönnum er vel kunnugt, að ekki var hægt að mynda ríkisstj., er ætti að baki sér stuðning meiri hl. þings, og var þá sú stj. mynduð, er nú situr.

Í febrúarmánuði þ. á. lagði svo núv. ríkisstj. fram till. sínar í dýrtíðarmálunum, og fékk þá fjhn. frv. stj. til meðferðar. Hefur það verið hjá fjhn. frá því 25. febr. og hafa fjhn. beggja deilda í sameiningu rætt mál þetta mjög ýtarlega og eytt bæði miklum tíma og vinnu til þess að ná sem beztum árangri. Heppilegt þótti, að undirnefnd starfaði að málinu, og var í því skyni látin starfa 4 manna undirnefnd, einn nm. frá hverjum þingflokki, og starfaði sú n. á tímabilinu frá 10. marz til 25. s.m. En þegar ekki varð samkomulag, tók fjhn. Nd. málið í sínar hendur.

Fjárhagsnefndirnar urðu þess brátt varar, að ekki mundi fást fylgi, svo að neinu næmi, innan þingsins um frv. stj. í dýrtíðarmálunum og ekki mundi slíkt fylgi nást heldur um þær breyt. á 4. og 5. kafla frv., sem stj. sjálf lagði fram, og að jafnvel ekki einn þm. mundi geta fylgt þeim óbreyttum. Þá var ekki nema um eitt að velja fyrir fjhn., en það var að koma fram með till. í dýrtíðarmálinu, sem fjhn. gæti sameinazt um, án þess þó að þær hefðu fyrirfram fylgi stjórnar eða þingflokka. Þetta hefur fjhn. gert og komizt að samkomulagi um þær till., er liggja fyrir á þskj. 662 og 663. En það skal tekið fram, að fjhn. hefur gert sér far um að fara sem næst till. ríkisstj. sem auðið var.

Fjhn. leggur til, að 1. kafli frv. um varasjóði og skatta verði felldur niður, ekki í sjálfu sér af því, að fjhn. sé á móti þeirri hugsun, sem þar kemur fram, heldur af því, að hún telur það atriði ekki nógu vel rannsakað og undirbúið. Hún telur t.d., að ekki sé rétt að taka varasjóði þeirra fyrirtækja, sem eru rétt nýstofnuð, en það mundi gera þeim erfitt að koma ár sinni fyrir borð, fyrirtækinu til tryggingar í framtíð. — Þá hefur n. komizt að sömu niðurstöðu hvað áhrærir eignaraukaskattinn, ekki beint af því, að hún sé á móti grundvallarhugsuninni, heldur af hinu, að hún telur ekki ástæðu vera til þess að draga þennan þátt inn í deilur um sjálfa dýrtíðina, þar sem einnig þessi skattaálagning sé ekki nógu vel undirbúin. Ef þessar till. fjhn. verða samþ., þá mun fjhn. bera fram þáltill. þess efnis, að skipuð verði mþn. til þess að taka til athugunar þessa tvo kafla, og ætti sú n. að skila áliti sínu fyrir 15. ágúst.

Fjhn. er með 5. brtt. sinni inni á sama efni og 2. kafli frv. Þar er þó sá munur á, að fjhn. leggur til, að skyldusparnaðurinn verði ekki hafður með. Frv. stj. gerir ráð fyrir, að með ákvæðum þessa kafla ættu að nást inn 11 millj. kr. og þar af fari 2 millj. í skyldusparnaðinn og því væru eftir 9 millj. kr. fyrir ríkisstj. til ráðstöfunar. Eftir till. n. áætlar hún, að skatturinn muni alls verða um 6–8 millj. kr., og samkv. brtt. n. ætti þessi upphæð að nægja til þess að standast útgjöld þau, er á ríkið leggjast samkv. till. n., en þessi útgjöld eru lauslega áætluð, ef notaðar verða heimildir til hins ýtrasta. Uppbætur á kjöt 2 millj. kr., á mjólk 1 millj., og loks atvinnutryggingarsjóður 3 millj. kr., sem til samans verða 6 millj. kr.

Í 4. kafla frv. hæstv. ríkisstj. er fram á það farið; að aðeins verði greidd dýrtíðaruppbót, er nemur 80% af verðlagsuppbót skv. vísitölu á öll laun. Nú er dýrtíðaruppbótin greidd að fullu samkv. samningum ver kamanna og atvinnurekenda, og ríkisstj. greiddi og sömu uppbót árið 1940 og '41. Það var með því viðurkennt, að ekki ætti að blanda sér í þetta mál, heldur að láta uppbætur fara eftir samningum milli réttra aðila. En svo kemur saga gerðardómsins í byrjun ársins 1942, sem hv. þm. munu hafa í fersku minni, og með hliðsjón af þeirri ráðstöfun hins opinbera ætti engum hv. þm. að detta í hug að koma fram með till., sem færi í sömu átt, að lögbjóða kauplækkun frá því, sem frjálsir samningar standa til.

Nú hefur hæstv. stj. gert allmiklar breytingartillögur við þennan kafla frv. Þar er lagt til, að full verðlagsuppbót verði greidd, en að sú uppbót miðist við vísitölu 220. — N. þótti ekki rétt að binda uppbótina við lægri vísitölu en þá, sem raunverulega gildir, eins og hæstv. stj. hefur lagt til, þar sem um hana eru nú samningar milli réttra aðila og óráðlegt að breyta þeim með lögum.

Till. fjhn. er í þá átt, að í þessu efni sé réttara að fara samningaleiðina, og leggur hún því til, að hæstv. ríkisstj. leiti samkomulags við Alþýðusamband Íslands og önnur stéttasamtök um samþykki þeirra fyrir því að fallast á, að í næsta mánuði eftir að þetta frv. verður að l., verði greidd verðlagsuppbót á laun miðað við verðlag fyrsta dag þess mán., í stað fyrsta dags næsta mán. á undan, eins og launþegar hafa nú rétt til að fá (þ.e.a.s. að fá greidda verðlagsuppbót t.d., 1. maí eftir útreikningi 1. apríl).

N. hefur ástæðu til að ætla, að ef hæstv. ríkisstj. leitaði samkomulags við rétta aðila í þessu efni, þá mundi hún fá óskum sínum fullnægt, og ef vísitalan lækkaði í 230 stig, þá mundi hér verða um snögga breyt. til batnaðar að ræða til lækkunar á dýrtíðinni, og oft vill það svo verða, að tilmælin verða sterkari en valdboðin, og m. hefur ástæðu til að ætla, að í þessu efni verði samkomulagsleiðin fullt svo heppileg.

Hæstv. ríkisstj. leggur til, að vísitölunni verði komið niður í 220 stig, en fjhn. gerir ráð fyrir, að hún verði 230, og stafar sá mismunur af því, að n. ætlast til, að útsöluverð afurða verði haft hærra en ríkisstj. leggur til.

Höfuðatriðið hjá n. í sambandi við það, sem gert verður í dýrtíðarmálunum, er það, að reynt verði til þrautar að fá samkomulag milli aðila um þær ráðstafanir, sem gerðar verða, það er sú leið, sem að áliti n. ber að fara, og að reynt v erði til þrautar, hvort hún muni ekki reynast fær. Þetta mál hefur frá því fyrsta verið hið erfiðasta, og erfiðleikarnir aukast heldur, eftir því sem á líður, og því verður að reyna þá leiðina, sem haldbezt mun reynast, en hún er tvímælalaust sú að leysa vandamálið með frjálsum samningum og samkomulagi, a.m.k. verður ekki hægt að segja annað, á meðan þessi leið er ekki reynd, því að hún hefur svo marga kosti fram yfir þá að skipa með valdboði einu saman, að þetta eigi að vera svo og svo. Valdboðið er ekki einhlítt. Við verðum þess svo ljóslega varir, hversu það rekur alltaf lengra og lengra í þá áttina að skipa með valdboði meira en góðu hófi gegnir, sem svo oft leiðir til einræðis. Vitanlega er ég þó ekki að bera þetta saman við það mál, er hér um ræðir, heldur vil ég gera þá afstöðu okkar í fjhn. sem skýrasta til þess, sem við leggjum aðaláherzluna á, sem er samkomulagsleiðin.

Þá leggur fjhn. til, að skipuð verði n. sex manna til þess að finna grundvöll vísitölu landbúnaðarafurða og hlutfall milli verðlags þeirra og kaupgjalds. Stj. leggur til, að skipaðar verði tvær n. til þessara hluta, en fjhn. leggur til, að hún sé ein, en í sjálfu sér er hér ekki neinn verulegur munur á. Fjhn. leggur til, að þessi n. verði rannsóknar- og samninganefnd.

Það er að vísu ekki um það hægt að segja fyrir fram, hver árangurinn kann að verða af slíku nefndarstarfi. Líklegt er, að ekki náist fullt samkomulag, en ef svo skyldi þó fara, þá telur n., að slíkt samkomulag skuli ráða úrslitum. En hvernig sem fer, skilar þó þessi n. áliti sínu, og ef hún verður ekki sammála, kemur til kasta þingsins að skera úr. Það er venjulega svo, að löggjafarvaldið skirrist við að þurfa að taka í taumana, fyrr en í nauðir rekur. Samkomulagsleiðin hefur ekki verið farin, og því er a.m.k. sjálfsagt að reyna þá leið fyrst. Það er verið að heimta of mikið af löggjafarvaldinu, þegar það á að fara upp á eigin spýtur að lækna verðbólguna. Menn sjá, hvernig hið opinbera hefur undanfarið ýmist beitt sér fyrir því að hækka og lækka kaupgjald eða afurðaverð, þannig að þetta hefur rekizt hvað á annað og orðið til þess að valda óánægju meðal stéttanna, um leið og verðbólgan hefur vaxið jafnt og þétt. Því er það, að n. vill leggja áherzlu á það, sem ég hef þegar tekið fram, að reynt sé með samkomulagi við þá aðila, er hlut eiga að máli, að leysa þetta mál; og n. gerir sér von um árangur. En ef þær vonir skyldu bregðast, þá verður hv. Alþ. að taka til sinna ráða og láta hið pólitíska vald skera úr.

Það er ekki heldur vafi á, að n. þessi, sem skipuð verður, nái betri árangri en ella, ef hún er aðeins látin vera rannsóknar- og samninganefnd. Mun hún með því móti geta starfað með öðru og betra hugarfari heldur en ef nú ætti að fara að setja upp gerðardóm eða annan dóm yfir hana.

Þá er það lagt til, að þessi n. hafi lokið störfum fyrir 15. ágúst. Ef svo færi, að n. yrði ekki sammála um álit sitt, yrði Alþ. að taka við málinu og skera úr, enda má það teljast eðlilegt, að sjálft löggjafarvaldið taki þá sínar ákvarðanir og hið pólitíska vald beri þá ábyrgðina.

Hæstv. stj. hefur enn möguleika á því að láta verðlagsn. ákveða verð á landbúnaðarafurðum. Hún hefur rétt til að skipta um formann, en formaður getur í slíkri n. ráðið úrslitum, og ef stj. skipar fomnanninn eftir sínum geðþótta, getur hún ráðið úrslitum. Fjhn. hefur ekki kosið að skipa nýja n. í þessu sambandi, en ríkisstj. er ekki bjargarlaus, þó að samningan. takist ekki að ná samkomulagi. Það hefur verið sagt um þessar till. fjhn., að allt sé ónýtt, ef þetta samkomulag tekst ekki, þá sé engin von til þess, að það takist að hafa hemil á dýrtíðinni. En hver er tryggingin fyrir því, að úrskurður þeirrar n., sem skipa á samkv. frv. hæstv. ríkisstj. um hlutfali milli afurðaverðs og framleiðsluvísitölu, yrði í samræmi við dýrtíðarpólitík hæstv. stj. sjálfrar? Hún gæti vel fellt úrskurð, sem væri í algeru ósamræmi við þá pólitík. Í þessu stórmáli verða þing, flokkar og ríkisstj. að sætta sig við nokkra óvissu að því er framtíðina snertir, því að ég býst við, að erfitt gerði að útvega þá vátryggingu gagnvart framtíðinni, sem gildi í íslenzkri pólitík. En jafnvel þó að samkomulag næðist ekki, er málið svo vel undirbúið að mínum dómi, að allar ákvarðanir, sem gerðar yrðu eftir 15. maí, gætu orðið reistar á öruggari grundvelli en nú er til. Og um till. n. er það að segja, að hún vill láta reyna þessar samkomulagsleiðir, sem aldrei hafa verið reyndar áður til fulls. Hér er að ræða um hagsmuni stórra stétta, og samkomulag verður því að nást, því að annars verður slagur, og hann mundi samkvæmt hlutarins eðli geisa hér í þinginu. Ég vil telja það eina mestu þörfina fyrir stjórnmál þessa lands, að frjálst samkomulag náist. Og í till. n. er reynt að draga þá línu, sem tryggi sem bezt samræmi að því er snertir hagsmuni þessara stétta, þó að framkvæmdin verði óefað erfið. Í till. hæstv. ríkisstj. er gert ráð fyrir 75% verðbótum á kjöt frá síðustu sláturtíð, en í till. n. er gert ráð fyrir fullum verðbótum. Till. n. mundu að þessu leyti valda heldur meiri útgjöldum, en um þetta ættu ekki að þurfa að verða miklar deilur. Meiri munur er á till. n. c,g ríkisstj., þar sem stj. gerir ráð fyrir, að ofan á grunnverð ársins 1939, að því er snertir kjöt, mjólkurafurðir og garðávexti, sé bætt 40% grunnverðsuppbót og svo ofan á það vísitölu 220, þar sem n. leggur til, að á verðið 1939 sé bætt 45% grunnverðsuppbót og þar á ofan 230 vísitölu. Þarna kemur fram nokkur munur, eða hér um bil 10 vísitölustig. Nú trúi ég raunar ekki á það, að slíkur útreikningur geti alltaf staðizt að fullu, en ég vil halda því fram, að þótt vísitalan komist ekki lengra niður en í 230 stig, sé þar um að ræða svo mikla lækkun frá því, sem hæst var (272 stig), að það muni verða afkomu ýmissa atvinnuvega til mikillar hjálpar á næsta sumri, og tel ég, að það geti t.d.. vel ráðið úrslitum um síldveiðarnar. Ég ætla ekki að fara að deila um það, hvort vísitalan eigi heldur að lækka niður í 230 eða 220 stig, því að þar er aðeins um nokkurn stigsmun að ræða, en engan eðlismun. Nú kostar mjólkurlítrinn kr. 1,75. Eftir till. n. mundi hann lækka niður í kr. 1,30, en eftir till. ríkisstj. í kr. 1,23. Kjöt mundi líklega lækka í kr. 5,40 eftir till. n., en í 5,24 eftir till. ríkisstj. Þessar uppbætur á nú að greiða, meðan það millibilsástand helzt, sem hlýtur að skapast bæði eftir till. n. og hæstv. ríkisstj. En n. leggur til, að bæturnar séu greiddar til loka þess tímabils, er sex manna n. á að starfa, eða til 15. ágúst, því að telja má hæpið, að þessar lækkanir kæmu pegar til greina í framleiðslukostnaði bænda. Náist hins vegar ekki samkomulag fyrir 15. ágúst, er enn gefinn frestur til 15. sept., svo að ríkisstj. geti tekið til sinna ráða eða kallað saman þing, en eftir þann tíma skulu uppbæturnar ekki greiddar. Þá hefur n. gert till. um að heimila ríkisstj. að leggja fram úr ríkissjóði 3 millj. kr. í sérstakan sjóð, sem á að nefnast atvinnutryggingarsjóður. Þykir henni ekki ósanngjarnt, að lagt sé fram nokkurt fé til að tryggja launþega gegn atvinnuleysi, um leið og greiddar eru verðuppbætur til bændastéttarinnar.

Ég vil svo að lokum leggja á það áherzlu, að þessar till. n. eru ekki fluttar í andstöðu við hæstv. ríkisstj. Eftir þá löngu baráttu, sem fram hefur farið síðan í nóvember, var útlitið um það, að hægt væri að fá viðunandi afgreiðslu þessa máls, orðið svo dauflegt, að n. taldi sér skylt að gera allt, sem í hennar valdi stóð, til þess að samkomulag mætti takast. Hún vildi leitast við að semja till., sem líkur væru til, að meiri hl. þings gæti fallizt á. Till. hæstv. ríkisstj. koma líklega fyrr til atkv. hér í hv. d., og má því líta á till. n. sem nokkurs konar varatill. Þó að þessar till. n. kosti nokkuð mikil útgjöld og ekki verði eins langt komizt með þeim og till. hæstv. ríkisstj. um það að færa niður dýrtíðina, má segja, að í þeim komi fram sama stefnan og í till. hæstv. stj., en þó er sá munur á, að í till. n. er ekki gert ráð fyrir neinu valdboði, heldur hinu, að samningaleiðin verði farin. Ég held, að erfitt verði að afgreiða þetta mál, nema takast megi að skapa um það fjögra flokka samstarf, því að erfiðara er að tryggja framgang stórmála, þegar enginn þingmeirihluti ber ábyrgð á ríkisstj. en þegar ákveðinn meiri hl. hefur bæði ábyrgðina og völdin. N. hefur því teygt sig eins langt og kostur var á, ef verða mætti til þess, að slíkt samstarf næðist. Næstu dagar munu skera úr um það, hvort n. hefur reiknað þetta pólitíska dæmi rétt eða ekki.