08.04.1943
Neðri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson):

Ég vil velja mér að einkunnarorðum setningu, er hv. þm. V.-Húnv. (SkG) sagði við umræðurnar hér í hv. deild í gær um dýrtíðarmálin: „Sé ekki gætt nauðsynlegs samræmis í þessum málum, er hætt við að illa fari.

Ég mun leitast við að færa rök fyrir því, að það er einmitt þetta, sem stjórnin hefur reynt að gera og er meginkjarni í þeim breytingartillögum, sem stjórnin hefur borið fram við þau ákvæði frumvarpsins, er fjalla um verðlag á landbúnaðarvörum og kaupgjaldið.

Þetta mál er erfitt, viðkvæmt og flókið. En þó vona ég, að takast megi að varpa nokkru ljósi á ýmis atriði þess og beita við það öfgalausum rökum og hlutleysi. Þegar dýrtíðarvandamálið er athugað, nægir ekki að stara á kaupgjald og verðlag eins og það er nú í svipinn, þegar það er sem hæst. Það verður líka að athuga sem flest atriði þess síðan stríðið hófst, rekja sögu þess um rúmra þriggja ára bil og draga ályktanir af því með framtíðina fyrir augum.

Stjórnin hefur látið gera línurit, sem sýnir gang málsins síðan 1939, og hafa háttvirtir alþingismenn nú um hríð getað kynnt sér það.

Ég tel, að fá megi allljósa hugmynd um hlutföllin milli kaupgjalds og afurðaverðs, með því að reikna út meðalvísitölur fyrir hvert dýrtíðarár. Í fyrsta lagi meðalvísitölur framfærslukostnaðar, í öðru lagi meðalvísitölur Dagsbrúnarkauns fyrir 10 stunda vinnudag og í þriðja lagi meðalvísitölur fyrir verðlag landbúnaðarafurða. Ég hef reiknað út þessar þrjár vísitölur hvert ár fyrir sig og síðan tekið meðaltal af vísitölum ófriðaráranna þriggja, 1940–1942 og útkoman er þessi:

Meðalvísitala framfærslukostnaðar í þessi 3 ár er 166. Meðalvísitala Dagsbrúnarkaups (10 tíma vinna) í þessi 3 ár er 174. Meðalvísitala landbúnaðarafurða í þessi 3 ár er 209.

Útkoman er því sú, að meðalvísitala kaupsins fyrir allt tímabilið er 5% hærri en sjálf framfærsluvísitalan, en verð landbúnaðarafurða hefur verið 26% hærra en framfærsluvísitalan að meðaltali öll þessi þrjú ár.

Til þess að hægt sé að sannprófa þetta, skal ég tilfæra tölurnar fyrir hvert ár:

Meðal- Fram- Dags- Landbún-

vísitala færsluk. brúnark. aðarafurðir

1940 132 118,7 128,4

1941 159,7 156,8 198,3

1942 205,6 245,8 300,6

Af þessu sést, að meðalvísitala kaupsins er lægri en sjálf framfærsluvísitalan bæði árin 1940 og 1941, en verður talsvert hærri árið 1942 vegna grunnkaupshækkana. Hins vegar er vísitala landbúnaðarafurða lægri en framfærsluvísitalan árið 1940, en töluvert hærri bæði hin árin.

Eins og kunnugt er, varð röskunin mest, bæði á kaupgjaldi og verðlagi, á síðasta ári. Meðalvísitala kaupsins varð 20% hærri en framfærsluvísitalan, en meðalvísitala landbúnaðarafurða varð 46% hærri árið sem leið.

Þessar tölur eru byggðar á útsöluverði landbúnaðarafurða hér í Reykjavík og sanna því ekki, að bændur beri úr býtum í samræmi við það. Er því nauðsynlegt að rannsaka, hvað bændur fengu fyrir vörur sínar fyrr og nú í sinn vasa.

Árið 1939 var meðalverð til bænda fyrir mjólk 24.3 au. pr. lítra. Árið 1942 var meðalverð til bænda fyrir mjólk um 87.72 aur. pr. lítra, eða 3,6-falt verð 1939, en hækkun á ostum, rjóma og smjöri þó meiri. Árið 1939 fengu bændur að meðaltali kr. 1.16 fyrir kg. kjöts. Árið 1942 áætla ég verðið, lágt reiknað 5.80 til bænda, eða nákvæmlega fimmfalt verðið 1939.

Árið 1942 munu bændur fá fyrir ullina um 6,3 falt verðið 1938, en stríðssala var á nokkru af ullinni 1939, og það ár því ekki tekið með.

Árið 1942 munu bændur fá fyrir gærur ca. 4,5- falt verðið 1938, en stríðsverð var á gærum 1939, og það ár því ekki tekið með.

Þessi athugun leiðir í ljós, að meðalverðið, sem bændur fá sjálfir fyrir aðalvörur sínar árið 1942, er 3.6 falt — 6.3 falt meðalverðið 1939, (ull og gærur þó miðaðar við 1938), en meðalvísitala ársins 1942 var 2.06, eða nákvæmlega tvöföld vísitala ársins 1939 og Dagsbrúnarkaup tæplega 2.5 falt.

Nú gæti verið um að ræða að tilkostnaður bænda hafi aukizt svo frá því, sem hann var fyrir stríð, að verðlag landbúnaðarvara gæti ekki verið lægra en þetta. Helztu kostnaðarliðir eru fóðurbætir, tilbúinn áburður, vextir og afborganir af skuldum og þó fyrst og fremst kaupgjald.

Skal nú athugað, hversu verð hafi breytzt á þessu síðan fyrir stríð. Aðaltegundir fóðurbætis eru síldarmjöl og maísmjöl. Árið 1939 kostaði síldarmjöl kr. 31.25, en 1942 kr. 32.00 pr. 100 kg , eða 25 aura verðmunur á 100 kg. Maísmjöl kostaði 1939 um kr. 28.00 pr. 100 kg. hér á staðnum, en 1942 um kr. 78.00 og hefur það því 2,6 faldazt.

Þá er tilbúinn áburður. Erfitt er um samauburð á verði, nema um sé að ræða sambærilegar tegundir: Brennisteinssúrt ammoníak kostaði 1939 kr. 22.09 pr. 100 kg., en 1942 kr. 45.00 og hefur verðið því tvöfaldazt.

Kaupgjald bænda hefur hins vegar stórhækkað síðan fyrir stríð, aðallega á síðasta ári og 1941, en samkv. búreikningum fyrir árið 1940 var hækkun á aðkeyptri vinnu aðeins 9.5%. Því er haldið fram, og það skal ekki véfengt, að kaupgjald í sveitum hafi verið fimmfalt árið, sem leið, frá því, sem það var fyrir stríð. Nú er talið á búreikningum, að kaupgjald fyrir aðkeypta vinnu nemi um þriðjung af heildarkaupi bænda og hafi sá hluti fimmfaldazt, en kaupið að öðru leyti breytzt eins og Dagsbrúnarkaup (meðaltal síðasta árs). Hefur kaupið í heild sinni verið 3.3 falt kaupið 1939. Virðist þá, að þessir stóru liðir í búrekstrinum: Kaupgjald, tilbúinn áburður og fóðurbætir, hafi hvergi nærri hækkað að sama skapi og verð það, er bændur hafa fengið fyrir vörur sínar í sinn vasa, en vaxtagreiðslur staðið óbreyttar.

Að öllu þessu athuguðu hlaut stjórnin að velja þá leið í dýrtíðarmálunum, sem hún nú hefur gert með breytingatillögunum við kaflana um kaupgjald og verðlag. Hún vildi leita nauðsynlegs samræmis milli kaupgjalds og verðlags og festa hlutfallið til bráðabirgða, unz fundin væri nákvæm vísitala fyrir verð landbúnaðarafurða, er fara mætti eftir til frambúðar.

Vísitalan komst hæst upp í 272 stig og hafði þannig hækkað um 172 stig. Af þessum 172 stigum áttu 4 innlendir vöruflokkar 100 stig, en þessir flokkar eru:

Kjötmeti ............................ 31.4 stig

Fiskur og fiskmeti .................. 7.18 —

Mjólk, feitmeti (smjörlíki meðtalið)

og egg ............................ 53.61 —

Garðávextir ...................... 7.83 —

samtals 100 stig

Allar aðrar vörur, kol, fatnaður, álnavara, skófatnaður, kaffi, sykur, brauð, búsáhöld, húsaleiga o.s.frv. o.s.frv. áttu ekki sök á nema 72 stiga hækkun. Þó er þarna um að ræða vörur, sem keyptar eru í ófriðarlöndunum sjálfum, fluttar hingað með háum stríðsfrögtum vegna ófriðartrygginga, áhættuþóknunar, sem stundum er vitnað í, unnar hér af dýrum iðnaðarmönnum eða dreift meðal almennings af verzlunarstéttinni og tollaðar hátt af ríkinu sumar hverjar.

Af þessu er ljóst, að meginorsök dýrtíðarinnar er hjá okkur sjálfum, vegna þess að vöruverð og kaupgjald hækka hvað annað á víxl, eins og allir vita, og vegna ósamræmis þar á milli, eins og ég hef sýnt fram á með ljósum rökum, og fólgið er í því, að verðlag innlendra vara er hlutfallslega of hátt.

Þess vegna hefur stjórnin leitazt við að finna lausn dýrtíðarmálsins með því að koma á samræmi hér á milli og lækka vísitöluna í námunda við vísitölu erlendra vara og gæða. Samræmið á milli kaups og verðlags landbúnaðarvöru fæst með því, að setja svipaða „grunnkaupsuppbót“ á afurðaverðið eins og þá, er launþegar hafa fengið, en reikna síðan með verðlagsvísitölu á hvort tveggja.

Menn getur greint á um, hvaða grunnkaupsuppbót réttlátust sé, að bændur fái á verðið frá 1938. Fastlaunaðir verkamenn hafa fengið 38% grunnkaupsuppbót, opinberir starfsmenn, verzlunarfólk og skrifstofufólk um 27%, daglaunamenn hér í bæ 39–55%, ef reiknað er út frá raunverulegum vinnustundum í 8 tíma og í 10 tíma vinnudegi, en víða úti á landi talsvert meira. Stjórnin valdi þá leið að setja ca. 50% grunnkaupshækkun á þann hluta afurðaverðs bænda, er fer í kaupgjald, og jafngildir það 40% á verðið í heild sinni.

Mér er það vel ljóst, að hægt er að gagnrýna þetta á báða bóga. Verkamenn geta sagt: vinnudagurinn er nú almennt, og verður almennt, 8 stundir, og þá er grunnkaupið aðeins 16% hærra en fyrir stríð. Verzlunarmenn og opinberir starfsmenn geta sagt: Við höfum fengið 27% grunnkaupshækkun, hvers vegna eiga þá bændur að fá 50% hækkun? Verkamenn geta sagt: Bændur hafa atvinnutryggingu árið um kring við bú sín, við erum ofurseldir atvinnuleysi ef að kreppir. Launþegar í kaupstöðum segja: vörur bændanna eru okkur miklu dýrari en þeim, því að við verðum að borga allan milliliðakostnað við sölu og dreifingu þeirra. Hjá okkur fóru 16–20% af launum okkar í húsaleigu fyrir stríð, en hjá bændum sennilega um 5% af launum þeirra. Útlendu vörurnar kosta bændur svipað og þær kosta okkur, því að farmgjöldum er þannig hagað, að verðið gæti orðið sem líkast, hvar sem er. Vísitalan er þess vegna hagstæðari fyrir bændur að mörgu leyti en hún er okkur.

En bændur geta svarað: Vinnudagur okkar er lengri en ykkar, þið hafið miklu meiri þægindi, fáið sumarfrí með fullum launum, o.s.frv.

Báðir hafa rétt fyrir sér að nokkru, og er því vandratað meðalhófið. Ég leyfi mér að vænta þess, að stjórnin hafi hitt á þann meðalveg, sem báðir aðilar megi við una, þangað til annað kynni að reynast réttara og sanngjarnara.

Ef tekið er meðaltal af grunnkaupshækkun pr. klukkust. í 8 tíma vinnudegi og 10 tíma vinnudegi er það 47% (meðaltal af 39% og 55%). Sé slíkri grunnkaupshækkun bætt ofan á kaup gjaldshluta afurðaverðsins handa bændum, jafngildir það 36.7% af heildarverði afurðanna. Ef bætt er við það 4% fyrir orlofsfé, yrði útkoman 40.7% grunnkaupshækkun á afurðaverðið í heild sinni, eða líkt og stjórnin reiknar með.

Sé gert ráð fyrir, að verkamenn vinni 9 tíma á dag að meðaltali, og hygg ég þá, að þeir telji hallað á sig, ef svo er gert, og framfærsluvísitalan sé 220, yrði vísitala dagkaups þeirra 303, eða 38% hærri en framfærsluvísitalan. Ef bændur fá 40% hækkun á verðið 1939 og vísitölu 220 þar á ofan, yrði vísitala landbúnaðarafurða 308, eða 40% hærri en framfærsluvísitalan. Er hægt á þessu stigi málsins að finna öllu betra samræmi? Að vísu skal það játað, að með 8 tíma vinnu er dagkaupsvísitala verkamannsins ekki nema 16% hærri en framfærsluvísitalan, en vinnutími bænda er talinn að meðaltali rúmlega 9 stundir á fæðisdag.

Ég hygg, að þau rök, sem ég hef nú fært fyrir því, að tillögur stjórnarinnar geti talizt sanngjarnar í garð beggja aðila, hljóti að sannfæra alla um, að svo sé, ef hugsað er um málið með hlutleysi skynseminnar, en ekki hlutdrægni tilfinninganna. Það er þýðingarlaust að skjóta þessu máli á frest, og jafnauðvelt eða erfitt að leysa það nú eins og síðar.

Ég skal þá fara fáum orðum um brtt. fjhn. Hv. n. hefur þótt kenna verðbólgu í frv. ríkisstjórnarinnar, og hefur hún því fækkað gr. þess úr 18 niður í 8, þ.e., hún hefur fellt niður 11 og bætt einni inn í staðinn. En um lækkun verðbólgunnar að öðru leyti er öðru máli að gegna. N. hefur talið það heppilegra að kalla skattinn verðlækkunarskatt en viðreisnarskatt svona til þess að sýna greinilega, til hvers hann skuli notaður. Annars er það um þessar till. n. að segja, að með þeim eru allar líkur til þess, að frv. komi að engu gagni, og er slíkt með öllu óviðunandi.

Hv. þm. V.- Ísf. gat þess í ræðu sinni, að ef n. sú, sem gert er ráð fyrir, yrði ekki sammála, þá væri þýðingarlaust fyrir löggjafarvaldið að grípa inn í, en hann sagði, að samkomulag væri betra en nokkur lög. Það er að vísu rétt, en hvernig búast menn við, að það samkomulag verði, sem þessi n. kemst að? Stjórnin kýs fremur að lögfesta ákveðið sanngjarnt hlutfall milli kaupgjalds og verðlags en að eiga það undir nokkrum mönnum og því, hvort þeim tekst að verða sammála eða ekki, hvort nokkur árangur næst í baráttunni við dýrtíðina.

Ég hef ekki mikið meira um þetta að segja. Ég er vonsvikinn yfir því, hve lítill vilji virðist vera til þess að lækka dýrtíðina. Ég hafði búizt við, að menn hefðu meiri áhuga á því en enn þá hefur sýnt sig.

Ég vil benda á það, að ef vísitalan . lækkaði niður í 220 stig, þá þýðir það 20% lækkun á öllum launum, og slík lækkun mundi hafa mikil áhrif á allar opinberar framkvæmdir. Hitaveitan og allar rafvirkjanir meðal annars mundu þá verða stórum ódýrari heldur en meðan vísitalan er svona há. Erfiðast er þó að þurfa að horfa fram á það, hvernig atvinnulífið verður í haust, ef vísitalan verður þá um 260 stig. Hvernig verður vöruverðið þá í haust? Er ekki hætt við því, að það verði svo hátt, að vísitalan hækki enn þá meira, og þá er ekki séð, að atvinnuvegirnir þoli þá hækkun.