08.04.1943
Neðri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að fara að auka þá þrætu, sem hér er um verðlag og kaupgjald. Ef hér yrðu samþ. í aðalatriðum þær till., sem fram hafa komið frá fjhn. og ríkisstj., liggur fyrir, að þetta hvort tveggja yrði metið af nefnd. Ég tel því þessum langdregnu þrætum ofaukið.

Áður en ég geri grein fyrir atkvæði mínu, vil ég taka fram, að mér mislíkaði það, sem á bar í frv. ríkisstj., að verið er að gera einfalt mál flókið. Inn í dýrtíðarmálið er flækt margbrotnum aðgerðum, sem þurftu ekki beint að koma því við, heldur eru skattamál fyrst og fremst. Í frv. eru 3 kaflarnir skattalöggjöf, og ég skil ekki, hvað stjórnin hefur þótzt ávinna með þeirri samblöndun, ég er stórhissa á henni. Það er ekki aðferð til að fá dýrtíðarmálin leyst að draga inn í þau einhver mestu hitamál, sem verið hafa á undanförnum þingum. Auk þess var tilefnislaust að gera það. Ef í það er ráðizt, sem ég tel í flestum tilfellum óþarft og óheppilegt, að greiða niðurfærslu vöruverðs með framlagi úr ríkissjóði, verður framlagið að takast af ríkissjóðnum, sem er einn og óskiptur, og tekjuöflun til hans er annað mál. Það er gömul og úrelt aðferð að vera að skipta tekjum hans í smásjóði til þessa eða hins, það er klútshornapólitík á sama stigi og það, þegar menn riðu í kaupstað með aura í einu klúthorninu fyrir skýlu handa Siggu og í öðru horni fyrir svuntu handa Gunnu. Þess háttar fjármálavizka tíðkast víst hvergi hjá stjórn og þingi nema á Íslandi. Engin rannsókn hefur heldur verið gerð á því, hvort tekjur ríkissjóðs muni hrökkva fyrir niðurfærslu dýrtíðarinnar, ef hún yrði að einhverju leyti keypt niður, og á meðan er ótímabært að leggja á nýja skatta, sem enginn veit, hverju nema mundu, — og hafa um það heila 3 kafla í sjálfri dýrtíðarlöggjöfinni. Hafi ríkisstj. komizt að því, að það sé eitt af mestu þjóðfélagsmeinum okkar, að skattar séu of lágir, er henni þetta e.t.v. vorkunnarmál. En hinir gegndarlausu skattar eru einhver mesti þjóðarvoði okkar og hætt við, að eftir stríðið fáum við að súpa af því seyðið.

Ég er þegar búinn að lýsa yfir því, að bæði till. ríkisstj. og fjhn. eru allt önnur lausn málsins en ég hefði kosið. Fyrir mér horfir þetta þannig við, að ef við ætlum að lækka dýrtíðina, verðum við að athuga hvernig hún hækkaði og snúa sömu leið aftur. Við erum komnir í svimandi hæð, upp einstigi, og verðum að fara niður sama einstigið aftur. Það þarf að afskrifa dýrtíðina, en engin hætta er á, að við höfum ekki nógan tíma til þess, ef við veljum einungis hina réttu leið, þá einu, sem fær er. Eins og hv. 2. þm. Rang. (IngJ) tók fram, er ástandið engan veginn hættulegt sem stendur, og atvinnuvegir landsmanna hafa allt að þessu gengið mjög vel. En við óttumst framtíðina. og vildum vera komnir ofan á jafnsléttuna, áður en hrun verður á erlendum markaði. Og þegar þar að kemur, skiptir mestu, að atvinnuvegirnir séu þannig staddir, að þeir þoli taprekstur um skeið. Það gerðist fyrir þetta stríð, að atvinnuvegirnir urðu að búa við taprekstur, og það á eftir að gerast, og þá er getan til þess því meiri, sem þeir eru fésterkari. — Það hefur undanfarið heyrzt frá mörgum, bæði launþegum og framleiðendum, að þeir mundu sætta sig við, að lækkað yrði hjá hvorum tveggja, kaupgjaldið og afurðirnar, og væri þar unnt að finna hlutfall, sem á réttlæti byggðist, mundu flestir unnt því. Samt væri það miklu auðveldara, ef ekki breyttist verðlag um meira en 3–4% í senn og kaupgjald lækkaði um leið að sama skapi. Menn mundu varla taka eftir þeirri lækkun, hún mundi koma svo vægilega niður. Kaupþegar mundu smám saman fá dálítið lækkað verð á sínum nauðsynjum og framleiðendur fá dálítið ódýrari vinnukraft. Og ef svo giftusamlega tækist til, að n. sú eða þær, sem eiga að reikna hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags, gætu orðið sammála og komizt að niðurstöðu, sem ekki yrði véfengd, mætti, ef í ljós kæmi, að einhver aðili hefði orðið fyrir skakkafalli, leiðrétta það með framlagi frá því opinbera. En engar till., sem fram hafa komið, hníga í þessa átt, heldur er ætlazt til, að teknar séu nokkuð stórar sveiflur, en ég álít, að þær séu hættulegar. Hvort sem teknar eru till. stj. eða fjhn., gera hvorar tveggja ráð fyrir því, að n. reikni út rétt hlutfall, en ef hinar harðvítugu hagsmuna deildir sætta sig ekki við það, er sýnilegt, að því verður ekki hlýtt. Ég er sannfærður um, að eina leiðin út úr ógöngunum er samkomulag milli þeirra, sem hafa gert sig að forustumönnum framleiðenda annars vegar og launamanna hins vegar.

Ég vil ekki skiljast svo við þetta mál, að ég taki það ekki fram, að fjhn., sem hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni, hefur samt náð merkilegum árangri, nefnilega þeim, að menn úr öllum þingflokkum hafa þar orðið sammála, en það kemur ekki oft fyrir í viðkvæmum hagsmunamálum, og ég held, að n. mundi ekki hafa náð því samkomulagi, ef hún hefði ekki fundið til ábyrgðar, og það gefur mér vonir um, að samkomulagshugurinn sé svo ríkur, að einnig í haust muni nást samkomulag. En sú leið, sem ég hefði helzt kosið, væri að halda áfram fet fyrir fet að afskrifa dýrtíðina, því að ágreiningurinn er mestur, ef taka á stórar sveiflur.

Ég er líka fjhn. þakklátur fyrir, að hún hefur fallizt á að fella niður tvo kafla um álögur í frv. stj. Það er nokkurt spor til að greiða ágreiningsmálin út úr þeirri flækju, sem þau eru í, þó að of skammt sé gengið, þar sem haldið er eftir tekjuskattskaflanum.

Ég vil að lokum láta í ljós þá von, að Alþ. takist að afgreiða einhverjar byrjunaraðgerðir í þessu vandamáli, sem stj. geti fallizt á, að fullnægi þeim höfuðtilgangi, sem fyrir henni vakir með frv.