09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Hv. 2. þm. Reykv. gerði í ræðu sinni í gær aths. við það, að ég skyldi hafa gert samanburð á tímakaupi verkamanna árið 1939 og nú. Hv. þm. sagði, að vinnudagur verkamanna væri nú styttri en áður, eða 8 stundir. Atvinnurekendur hefðu menn yfirleitt í vinnu aðeins þessar 8 st. Þess vegna væri réttast að gera samanburð á dagkaupi fyrir 10 stundir fyrr og nú fyrir 8 stundir. Hann sagði, að afköstin væru nú ekki minni eftir 8 stundir en áður eftir 10 stunda vinnu. Ég skal ekkert um það dæma að þessu sinni. Ef til vill er svo í einstökum tilfellum, að afköstin séu ekki minni, en ég tel, að svo sé ekki yfirleitt, því að varla hefur svo mikil breyting orðið á þessum síðustu 2–3 árum, að menn afkasti jafnmiklu nú með 8 stunda vinnu og fyrr með 10 stunda vinnu. Ef þessi aðferð hv. þm. væri notuð við samanburðinn, þá þyrfti að liggja fyrir, að bændur framleiddu nú jafnmikið vörumagn á 20% styttri vinnudegi en fyrir 1–2 árum. Ég fullyrði, að svo sé ekki. Það er ekki unnt fyrir bændur að auka svo afköstin við framleiðsluna, a.m.k. á meðan stríðið stendur. Ég tel það auðvitað mjög æskilegt að bæta allar vinnuaðferðir, svo að menn geti afkastað sem mestu verki á sem stytztum vinnutíma. En það eru takmörk fyrir því, hve langt er hægt að komast í því að stytta vinnutímann, og á stríðstímum er ekki hægt að bæta aðstöðu landbúnaðarins svo, að vinnuafköstin verði í skjótri svipan 20–25% meiri en 1939. Að þessu þarf að stefna, en núna á þessum tímum er engin leið að gera þessar breytingar, og jafnvel á eðlilegum tímum tekur það langan tíma. Það er mjög erfitt nú að fá landbúnaðarvélar, einnig efni í peningshús og hlöður, en bygging á þeim getur sparað vinnuafl í sveitum, bæði við heyöflun og einnig við búpeningshirðingu. Ég tel þess vegna ekki unnt að gera samanburð á þennan hátt eins og hv. 2. þm. Reykv. gerði. Svo er það annað í sambandi við 8 st. vinnudaginn. Leiðtogar verkamanna töldu styttingu vinnudagsins mjög til hagsbóta fyrir verkamenn. En mér virtist koma fram í ræðu háttv. 2. þm. Reykv. sú skoðun, að þetta gæti e.t.v. verið til tjóns fyrir þá, þar eð þeir fái þess vegna minna dagkaup, þegar eftirvinna sé lítil. Ég vil benda á, að þessari styttingu vinnudagsins var alls ekki þröngvað upp á verkamenn. Þeir óskuðu eftir þessari breytingu sjálfir, en voru ekki beðnir um hana, og ef þetta eru kjarabætur fyrir verkamenn, eins og sagt hefur verið, finnst mér, að bændur ættu að verða aðnjótandi svipaðra hlunninda. En ég vil benda á, að bændur geta ekki fært vinnutíma sinn niður í 8 stundir. Ef til vill ætlast þá hv. 2. þm. Reykv. til þess, að þeir fái eftirvinnukaup fyrir þann tíma, sem þeir vinna umfram 8 stundir.:

Ég tel svo ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta atriði málsins, en vil víkja nokkrum orðum að hæstv. félmrh., út af ræðu hans í gær. Hæstv. ráðh. hefur reiknað út vísitölur fyrir kaupgjald og verðlag. Það getur verið ágæt aðferð til þess að gera samanburð, en eitt er nauðsynlegt við þau vinnubrögð, og það er, að útreikningurinn sé byggður á traustum og réttum grundvelli. Ef grunnurinn er ótraustur, þá verður yfirbyggingin skökk. Hæstv. félmrh. byggir allan samanburðarútreikning sinn á kaupgjaldi verkamanna í félaginu Dagsbrún í Rvík. Ég tel, að þetta sé ekki sanngjarnt, vegna þess að grunnkaupshækkun verkamanna í Rvík síðan 1939 er minni en víðast annars staðar á landinu, eða um 45%, en í 39 öðrum verkamannafélögum innan alþýðusambandsins, í kaupstöðum og kauptúnum landsins, er grunnkaupshækkunin að meðaltali 76% á sama tíma, og er þó ekki með talið orlofsfé. Bændur í öllum héruðum landsins þurfa að kaupa mikla vinnu með þessari hækkun. Má t.d. nefna vinnu við skipaafgreiðslu, og í kauptúnunum þarf að greiða eftirvinnukaup fyrir mikið af þeirri vinnu, því að skipin koma á hafnirnar á hvaða tíma, sem er, og þá verður að afgreiða þau, sé það fært vegna veðurs. Þessi vinna er því ekki eins reglubundin í kauptúnunum og í hinum stærri kaupstöðum. Þá er vinna við slátrunarstörf að haustinu stór liður í kostnaði við verkun og sölu á sauðfjárafurðum. Einnig má minnast á vegavinnukaupið, sem hefur hækkað enn meira. Þetta hvort tveggja, vegavinnukaupið og kaupgjaldið í kauptúnum landsins, hefur miklu meiri áhrif á kaupgjald í sveitum, sem bændur þurfa að borga, heldur en kaup verkamanna í Rvík. Ég hef áður skýrt frá því, að meðal grunnkaupshækkun daglaunamanna í 40 verkamannafélögum er 65%, en ef orlofsfé er talið með, þá rúmlega 71%. (ÞG: Þessar tölur eru ósannindi.) Þessi hv. þm. veit ekki, hvað Hann er að tala um, og ætti að afla sér betri vitneskju um hlutina, áður en hann fer að gjamma fram í ræður manna. Ég fullyrði, að sízt er á verkamenn hallað með þessum meðaltalsreikningi í samanburðinum við afurðaverðið. En er ekki veik undirstaða hjá hæstv. félmrh. að taka aðeins til samanburðar verkamannakaup hjá Dagsbrún í Rvík, sem hefur hækkað einna minnst hlutfallslega síðan 1939? Er þetta sá meðalvegur, sem hæstv. ríkisstj. þykist vera búin að finna og vill nú ganga? Hvor okkar ætli sé nær meðalveginum, hæstv. félmrh. eða ég?

Ég sýndi fram á í síðustu ræðu minni,. að ef till. hæstv. ríkisstj. yrðu samþykktar og framfærsluvísitalan yrði 220 stig, þá yrði vísitala tímakaups, sé reiknað með meðalgrunnkaupshækkun hjá áðurnefndum 40 verkamannafélögum og orlofsfé meðtalið, um 378 stig, en fyrir mjólkur- og kjötverð yrði vísitalan 308 stig. Ef hins vegar framfærsluvísitalan lækkaði úr 220 niður í 200 stig og afurðaverðið lækkaði um 1% fyrir hvert stig þar á milli, eins og hæstv. ríkisstj. gerir till. um, mundi vísitala tímakaups verða 343 stig, en vísitala kjötverðs 245. Svona lítur það út í mínum augum samræmið og réttlætið; sem hæstv. ráðh. sagðist vilja skapa. En jafnvel þótt aðeins sé tekið Dansbrúnarkaup til samanburðar, sem eins og áður segir hefur hækkað einna minnst síðan 1939, og framfærsluvísitalan kæmist niður í 200 stig, þá yrði vísitala tímakaups 302 (orlofsfé meðtalið), en vísitala landbúnaðarafurða 245. Svona yrði útkoman, jafnvel þótt þessi leið yrði tekin. Þetta telur hæstv. félmrh. réttlæti og samræmi og telur, að það þurfi ekki frekari athugunar við. Um það er ég á öðru máli. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki fundið meðalveginn enn þá. En veginn þarf að finna. Um það virðast allir hv. þm. sammála, og samkv. frv. á að skipa sérstaka nefnd, sem falið sé að finna þennan meðalveg, þ.e. sanngjarnt hlutfall á milli afurðaverðs og kaupgjalds. Jafnframt þarf að finna, hvað kaupgjald verkamanna og annarra stétta og afurðaverðið megi vera hátt á hverjum tíma, til þess að það sé í sem beztu samræmi við heildartekjur þjóðarinnar. Ég tel, að rétt sé að reyna til þrautar að leysa þessi viðfangsefni með samkomulagi, en meðan verið er að leita að hinum gullna meðalvegi, eigum við ekki að raska því hlutfalli, sem nú er milli afurðaverðs og kaupgjalds.