09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sveinbjörn Högnason:

Hv. 4. þm. Reykv. lét þau orð falla í síðustu ræðu sinni, að það hafi verið hið pólitíska vald, en ekki félagasamtök bænda, sem mestu hafa ráðið um verð á landbúnaðarafurðum undanfarin níu ár. Ég hygg, að þar sé djúpt tekið í árinni, svo að ekki sé meira sagt. Það er vitað, að síðan afurðasölul. voru sett, hafa sérstakar n. tekið ákvarðanir um verð á landbúnaðarafurðum. Í þeim hafa setið fulltrúar bæði neytenda og framleiðenda, en stj. skipað oddamann. Það er enn fremur vitað, að verðlagið hefur svo að segja alltaf verið ákveðið með sáralitlum ágreiningi milli fulltrúa neytenda og bænda. Nú síðast, þegar mesta verðhækkunin var gerð, hygg ég, að enginn ágreiningur hafi verið, heldur vilja neytendur láta greiða styrk á þessar vörur. Þetta var ég að lesa nýverið í gerðabók verðlagsnefndar. Ég hef heyrt, ekki sízt frá flokki þessa hv. þm., að bændur hafi verið nokkuð mikils ráðandi í þessari n. og hafi átalið það mjög, að þeir hafi dregið um of fram sinn hluta, þó að sannleikurinn sé sá, að oftast hafi verið samkomulag milli fulltrúa neytenda og framleiðenda. Hinu er ekki að neita, að að nokkru leyti eru verðlagsákvarðanir, sem þessi n. tekur, teknar af framleiðendunum sjálfum, þar sem neytendur hafa fengið leyfi til þess að láta sín sjónarmið koma líka fram um verðlag á þessum vörum. Mér finnst það einkennileg ályktun hjá hv. 4 þm. Reykv., að fyrst verðlagsákvarðanirnar hafa í þessi 9 ár verið í höndum bænda að hálfu leyti, skulum við segja, þá eigi að taka þennan rétt að öllu leyti af þeim nú, þó að megi á engan hátt skerða ákvörðunarrétt verkamanna. Ég skil ekki þessa röksemdafærslu, ég segi það alveg eins og það er, sízt hjá þeim manni, sem lýsti því yfir fjálglega í d. í gær, að fyrir sér vekti ekkert annað en að útrýma öllu ranglæti og að jafnréttið og réttlætið fengi að ráða. Ef þessum mönnum hefur á undanförnum árum sviðið, að bændur hefðu of mikil áhrif í n., þó að þeir hafi ekki ráðið þar nema að nokkru leyti og aldrei, sem teljandi er, dregið fram taum framleiðenda meira en fulltrúar neytenda hafa talið, að væri rétt, og nú á að taka þennan rétt alveg af þeim, sem hv. 4. þm. Reykv. segir þó, að sé ekki meiri en svo, að pólitíska valdið hafi þar ráðið mestu, — ef það er rétt að taka þetta af þeim með því að leggja niður n., þá get ég ekki skilið, hvernig maður, sem hefur snefil af réttlætistilfinningu, getur haldið því blákalt fram, að hjá verkamönnum megi ekki breyta einu einasta atriði um kaup, nema þeir sjálfir vilji. Þessi hv. þm. hugsar sem svo, að úr því að bændur hafi af þjóðarnauðsyn fellt sig við, að þessi réttur væri af þeim tekinn að nokkru leyti, þá sé réttmætt að taka hann af þeim að öllu leyti nú, um leið og ekkert má skerða hjá öðrum. Ég skil ekki svona hugsunarhátt, sízt hjá þeim, sem segjast eingöngu vilja réttlæti.

Það er rangt hjá hv. þm. Siglf., að Sósíalistafl. álíti, að bændur eigi að hafa sjálfsákvörðunarrétt um verðlag á afurðum sínum, þegar þeir flytja hér till., þar sem lagt er til, eins og hv. 4. þm. Reykv. réttilega sagði, að þessi sjálfsákvörðunarréttur verði tekinn af þeim. Það minnti mig á hið forna spakmæli: „Fagurt skalt mæla, en flátt hyggja.“ Þessi till. sýnir allt annan hug hjá honum en hann vildi láta skína í í ræðu sinni áðan. Það er sjálfsagt, að verkamenn og framleiðendur séu látnir sjálfir ráða yfir vinnu sinni og vöru, á meðan kostur er. En ef á að gera upp á milli manna, ef ekki má setja löggjöf fyrir suma, hvernig sem á ríður, en aðra þarf ekki að spyrja um neitt, þá er komið út á ranglætisbraut, sem hlýtur að leiða til upplausnar fyrr eða síðar. Enda er það ekkert launungarmál, eins og nú horfir um landbúnaðinn, að ef mjög verður gengið á hlut hans, getur það ekki haft í för með sér annað en aukinn samdrátt hans, og verð ég að láta í ljós undrun mína yfir því, að frá hæstv. ríkisstj. skuli koma till. um að lækka dýrtíðina eingöngu á kostnað bænda. Ég skal ekki ræða frekar um þetta; það hefur hv. þm. V.-Húnv. gert, en ég verð að lýsa yfir undrun minni vegna þeirrar furðulegu röksemdafærslu, er kom fram h.;á hæstv. félagsmrh. í gær og í dag, þar sem hann tekur aðeins þær tölur, sem koma honum í hag, og hagræðir þeim, en sleppir svo hinum. Hann tekur sem sé aðeins þá menn til dæmis, sem lægsta grunnlaunahækkun hafa hlotið, en sleppir þeim, sem hafa fengið tvöfalda eða þrefalda grunnlaunahækkun. En hv. þm. V.-Húnv. tók meðaltalið og miðaði við það. Vitanlega hefur það engin áhrif, að því er framleiðslu bænda snertir, hvað grunnkaup hefur hækkað hjá embættismönnum, því að það er nú svo, að bændur hafa heldur fáa embættismenn í þjónustu sinni. En það hefur mikil áhrif í þessu efni, hvað kaup hefur hækkað t.d. hjá vegavinnumönnum, og hjá þeim hefur kaupið víssulega hækkað mikið. Þegar maður í slíkri ábyrgðarstöðu sem hæstv. félagsmrh. leyfir sér að fara svo á snið við raunveruleikann sem þetta dæmi sýnir til þess að fá röksemdirnar sér í hag, en bændum í óhag, þá verð ég að segja, að ég get ekki tekið mikið mark á öðrum tölum hans.

Ég hygg, að ekki þurfi að ræða mikið um þann rétt bænda, sem er tvímælalaus, að þeir hafi sömu aðstöðu og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Ég vil jafnvel segja, að þjóðinni ríði nú ekki á öðru fremur en því, að hægt sé að halda landbúnaðarframleiðslunni uppi, ef menn vilja ekki, að það ástand skapist, að flytja verði landbúnaðarafurðir til landsins frá útlöndum og ríkið verði jafnframt að greiða stórfé til atvinnubóta. Enginn vafi er á því, að kaupgjald í sveit verður nú í sumar hærra en í fyrra. Með því verði, sem nú er t.d. á kartöflum, má segja það fyrir, að fáir bændur munu fást til að rækta þær, svo að framleiðsla þeirra hlýtur að dragast mjög saman, enda væri óskiljanlegt, ef hagsýnir bændur teldu sér ekki tryggara að draga saman búskap sinn, ef fara á að lækka dýrtíðina eingöngu á þeirra kostnað. Ég hygg, að það minnsta, sem bændur geta krafizt í þessum efnum, sé það, að þeir megi njóta jafnréttis við aðrar stéttir þjóðfélagsins, og meira hafa þeir ekki heimtað.