09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Emil Jónsson:

Ég hafði ekki hugsað mér að ræða mikið um þetta mál, en af því hv. 4. þm. Reykv. er ekki staddur á fundi, þá svara ég fyrir okkar hönd. Það, sem gaf mér tilefni til að standa á fætur, var ræða hv. 2. landsk. Í henni voru svo furðulegar staðhæfingar, að ég get ekki látið vera að mótmæla sumum þeirra. Því var haldið fram, að sá munur væri á till. hans flokks og okkar, að okkar tillögur gerðu ráð fyrir bindingu afurðaverðsins, sem þeirra till. gerðu ekki. Því hefur þegar verið lýst, hver reginfirra þetta er, en ég vil bæta við nokkrum orðum.

Hér verður að gera greinarmun á aðaltill. og bráðabirgðatill. eða till. um bráðabirgðaverðfestingu. Aðaltill. frá hv. 4. þm. Reykv. og mér er sú, að skipuð sé n. til að reyna að finna hið rétta hlutfall milli afurðaverðs og kaupgjalds. Ef n. finnur það og verður sammála, þá verði niðurstöður hennar látnar gilda sem grundvöllur að fastákveðnu verðlagi, á meðan á stríðinu stendur. Í þessu er enginn munur frá till. þeirra, sem standa að þskj. 705, annar en sá, hvernig skipa skuli n. Þeir vilja ekki heldur hafa verðlagið fastbundið frekar en við, en það vill hæstv. ríkisstj. Ég held því, að munurinn á þessum aðaltill. sé ekki efnismunur, nema hæstv. ríkisstjórnar. Það sem flokkarnir hafa borið fram er líkt. Þá er gert ráð fyrir, að sett verði bráðabirgðarverð. Allar till. gera ráð fyrir því. Ríkisstj. gerði ráð fyrir því, að verðlagið væri bundið. Það gerði till. Sósfl. líka, — bundið grundvallarverð, er breyttist síðan samkv. vísitölunni.

Það er sama, hvernig till. á þskj. 687 eru lesnar afturábak eða áfram, í þeim er bundið grundvallarverð landbúnaðarafurða samkv. vísitölu.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Á þessu er ekki hægt að blekkja neinn. Það hefur verið deilt um þetta mál í 2 daga. Það má heita að það hafi komið fram eitt sjónarmið fyrir hvern mann. Hvort eitt er réttara en annað, er ekki hægt að segja fyrr en sú n., sem sett verður á laggirnar, hefur skilað áliti sínu. Ég fyrir mitt leyti og hv. 4. þm. Reykv. teljum, að þær uppbætur, sem brtt. hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir, gangi nægilega langt til þess að jafnast á við þær kaupbætur, sem verkamenn hafa fengið. Hitt er til að raska því, sem var, áður en styrjöldin brauzt út. Ef þær verða samþ., þá munum við fylgja frv. stj., þó með þeirri breyt., að við munum samþ. það 3 millj. kr. framlag, sem till. fjhn. gera ráð fyrir í því skyni að koma til móts við það, að verkamenn gefa eftir af sínum launum einn mánuð. Það er ætlazt til þess, að sú upphæð, 12%, sem verkamenn gefa eftir af launum sínum, muni nema um 3 millj. kr., eða mjög svipuð upphæð og það framlag, sem fjhn. hefur gert till. um, og við munum samþ. þá till. — Ég tel, að með þessu sé að mestu leyti svarað ýmsum þeim firrum, sem hv. 2. landsk. var hér með, og enda hv. þm. Siglf. líka. Það er enginn eðlismunur á þessum till. okkar og till. sósíalista. Það er aðeins stigsmunur á því, á hvern hátt beri að bæta upp landbúnaðarafurðirnar.

Þá sagði þessi hv. þm., að afurðasölul. væru verk Alþfl. með Framsfl., og það er rétt. Mér dettur ekki í hug að mæla mig eða aðra Alþýðuflokksmenn þar undan neinni sök, því að við höfðum góða trú á því, þegar l. voru sett, að væru þau vel haldin, þá gætu þau orðið til mikilla bóta. En þessi löggjöf hefur verið harkalega misnotuð og farið með hana öðruvísi en við gerðum ráð fyrir 1934, þegar hún var sett. En það eru verk þeirra, sem með framkvæmdina hafa haft að gera.

Hv. þm. V.- Sk. talaði mjög um ákvörðun afurðaverðs og taldi, að það hefði kostað bændur allmikið að fá sett þessi afurðasölul., því að þeir hefðu ekki fengið að vera sjálfráðir um verðið. Þetta er ekki rétt nema að nokkru leyti, því að það skipaðist svo til um skipun þessara n., að þeir, sem bera hag bænda og afurðir þeirra mest fyrir brjósti, hafa ráðið í þessum n. Þeir hafa alls ekki tekið tillit til neytendanna eins og vert hefði verið. Þessi misnotkun hefur gert afurðasölul. svo óvinsæl sem þau eru orðin. Efni og uppistaða afurðasölul. gat, ef þeim hefði verið haldið í því formi, sem upphaflega var gert ráð fyrir, komið til hagsbóta bæði fyrir neytendur og framleiðendur. En staðinn fyrir það sjónarmið, sem mjög var undirstrikað 1934, þegar l. voru sett, hafa afurðasölul. verið notuð einhliða til hagsmuna fyrir bændur. — Ég skal ekki fara langt út í þetta mál. Það hefur verið svo mikið rætt. En mér fannst þeim atriðum, sem fram komu hjá sósíalistum, ekki mega vera ómótmælt. Þau voru svo fjarri því að vera rétt. Annars virtist hv. 2. landsk. tala með mestu fyrirlitningu um það, hvað v æri rétt og hvað rangt, enda virtist hann ekki kunna á því nein skil. — Ég hefði talið æskilegt, eins og hv. 4. þm. Reykv., að hæstv. stj. léti það í ljósi, hvernig hún lítur á þær brtt., sem við höfum leyft okkur að gera við frv. hennar. Þessar till. okkar eru skilyrði fyrir því, að við getum fylgt till. stj. Ef till. okkar verða ekki samþ., þá munum við auðvitað ganga á móti till. stj.

Því hefur verið haldið fram af ýmsum, sem talað hafa hér, að þessar till., sem hér hafa komið fram, væru til lítils eða einskis gagns, þó að samþ. yrðu, því að með þeim væri ekki ráðin nein endanleg bót á málinu. En ég tel það ákaflega mikils virði, ef það mætti á einn eða annan hátt takast, þótt ekki væri nema um þennan stutta sumartíma, sem hér er gert ráð fyrir, að l. nái til, — að færa vísitöluna niður í 220–230 stig. Það hafa verið færð fyrir því sterk rök, að það geti einmitt riðið á þessu, hvort atvinnuvegir þjóðarinnar verða áfram reknir á svipaðan hátt og að undanförnu. Ef hins vegar verður nú hlaupið frá málinu í svipaðri aðstöðu eins og það er, þá gæti það orðið til þess, að atvinnuvegirnir gætu ekki starfað eins og áður, og það mundi verða til mikils tjóns fyrir þjóðina. — Ég vil svo að síðustu leggja aðaláherzlu á það, að menn geri sér ljósan muninn á þeim bráðabirgðaákvæðum, sem nú eiga að gilda tvo til þrjá mánuði, og þeirri endanlegu lausn málsins, sem á að fást, eftir að þessi n. hefur fundið hlutfallið á millí framleiðslukostnaðar bænda og framfærslukostnaðar verkamanna. Þó að einhver tiltölulega veigalítill agnúi væri á þessu bráðabirgðarákvæði, þá tel ég það ekki nærri eins þýðingarmikið eins og hitt, sem á að gilda fyrir framtíðina.