09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Í umr. hér hefur einkum verið rætt um kaupgjald verkafólks og afurðaverð bænda, eins og við var að búast, því að þeir liðir í frv. stj. eru erfiðastir viðfangs og um þá mestar deilur. Í umr. hefur margt sérkennilegt komið fram, einkum hinn gamli söngur Framsfl. til útskýringar á launakjörum verkafólks, og mér bregður svo sem ekki við að heyra hann. Ég ætla, áður en ég fer að svara þessum dylgjum framsóknarmanna í garð verkamanna og þeirra samtaka, að fara nokkrum orðum um till., sem fyrir liggja.

Því hefur verið haldið fram af Alþfl., að enginn munur sé nema þá smástigmunur á till. ríkisstj., Alþfl. og sósíalista. Í till. stj. kemur fram, að hún vill láta binda kaupið við vísitöluna 220, þó að það reynist, að hún verði hærri en 220. Og stj. ætlast líka til, að þetta verði sett í l. þvert ofan í samþ. verklýðsfélaganna. Um afurðaverð leggur stj. til, að það verði bundið við vísitöluna 220, eftir að fundið er sérstakt grunnverð. Till. Alþýðufl. víkja lítið frá þessu. Hann vill að vísu láta ákveða laun, að fengnu samþ. alþýðusambandsins, vitandi það, að sambandið hefur ekki rétt til að ákveða þetta nema með samþ. hvers verklýðsfél. fyrir sig. Um afurðaverðið eru till. Alþfl. þannig, að verðið er fastbundið við vísitöluna 220, með sama grunnverði og till. ríkisstj. benda til, en það þýðir hámarksverð á afurðir. Verðið getur ekki farið upp fyrir það, sem það var 1939, að viðbættum 45%, með vísitölu 220.

Till. okkar sósíalista eru á þá leið, að kaupið verði greitt eftir sömu till. og fjhn. stingur upp á, nefnilega með samkomulagi við samtök launþega, þannig að launþegarnir fallist á að fá greidd launin með lægri vísitölu, mán. eftir að vísitalan er felld niður. Það mundi skaða þá um 30 stig í einn mán., og ef launþegarnir fallast á þetta, er ekkert athugavert við það, þó að því tilskildu, að þeir fái 3 millj. í atvinnutryggingasjóð. Á þessu og till. Alþfl. er mikill munur, en þó er munurinn enn meiri um afurðaverðið. Við ætlumst til, að fundið sé grunnverð fyrir afurðirnar, en svo ætlum við ekki að binda verðið við vísitöluna 220, heldur þá tölu, sem reiknuð er á hverjum tíma. Hér er ekki um hámarksverð að ræða.

Þá leggjum við til, að allt kjöt síðasta árs sé greitt að fullu með uppbótum úr ríkissjóði. En við tökum fram sérstaklega, að bændur, sem hafa minna en meðaltekjur, eigi að njóta uppbótanna í ríkara mæli en hinir, sem hafa meira en meðaltekjur. Hv. þm. V.- Húnv. fannst sú leið kynleg og líkti við það, ef verkamenn hefðu mishá laun eftir því, hver laun þeirra hefðu verið árið á undan, en það er mikill munur á því, þegar um uppbætur úr ríkissjóði er að ræða, hvort þær fara til manna, sem hafa haft gróða, eða til þeirra, sem lítið hafa borið úr býtum, enda hélt ég, að það væri venjulegt, þegar um aukagreiðslur væri að ræða, að þeir fengju meira, sem væru meira þurfandi fyrir stuðning.

Þá er enn fremur hjá okkur lagt til, að stofnaður verði 3 millj. kr. sjóður til víðreisnar í landbúnaðarmálum.

Á öllu þessu sést, að það er mikill munur á till. okkar sósíalista og till. stj. eða brtt. Alþfl. Og enn er eitt atriði í till. okkar, sem ekki hefur komið fram hjá öðrum, sem sé, að allt annað verðlag í landinu verði lækkað, en ekki bara verð á landbúnaðarafurðum. Þeir, sem nú selja varning og mega t.d. leggja á hann 50%, eiga að lækka sína söluþóknun, fá lækkuð laun eins og aðrir.

Við sósíalistar teljum, að bezta lausnin sé að samþ. í meginatriðum till. fjhn. með þeim brtt., sem við höfum flutt. Við höfum líka borið fram brtt. um skattfrelsisákvæði skattal., sem er í megindráttum svipuð till. 2. þm. S.- M. og 2. þm.

N.- M. Þó tekur okkar till. yfir meira en þeirra till., þar sem skattfrelsishlunnindi til nýbyggingasjóða eru í okkar till. miðuð við 1 millj. Ég vil taka það fram að gefnu tilefni, að samkv. till. okkar er ekki hreyft við skattfrelsi samvinnufél., heldur er hún brtt. við gildandi l. og greinilega talið upp, í hverju breyt. eru fólgnar.

Í ræðum hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. V.- Sk. hefur sérstaklega borið á þessum söng í garð launþeganna og rangfærslum um kjör þeirra. Við þekkjum það, sem höfum staðið fyrir samtökum verkamanna, hvern hug framsóknarmenn bera til launþegasamtakanna. Þeir hafa alltaf krafizt dýrtíðarlækkunar með því að lækka kaupið, og í Tímanum hafa verið miklar sögur um þær stórkostlegu kaupupphæðir, sem verkamenn bæru úr býtum, og þá ekki sízt sjómenn. Ég minnist þess að hafa séð í Tímanum, að verkamenn hefðu 15–20 þús. kr. kaup, en sjómenn 40 þús. Þessir menn, sem skrifa í Tímann, víta ekki mikið um kjör verkamanna úti á landi. Vita þeir, hver eru meðallaun verkamanna í kaupstöðum utan Rvíkur? Þar, sem ég þekki bezt, er meðalkaup verkamanna 5–6 þús. kr. yfir árið. Og vilja þeir trúa því, að meðalkaup sjómanna á norðfirzka flotanum eru rúmar 6 þús. kr.? Ef þessir menn finna einstakt dæmi, halda þeir, að hægt sé að slá því föstu sem allsherjarkaupi.

Framsóknarmenn hafa lagt kapp á það í umr., einkum hv. þm. V.-Húnv., að benda á, að kaupið úti á landi hafi hækkað meira en í Rvík, og þar sem grunnkaup úti á landi hafi hækkað um 40–70%, eigi fyrst og fremst að miða við það. Það er rétt, að grunnkaupið úti á landi hefir hækkað allmiklu meira en í Rvík, þó að tölur hv. þm. V.-Húnv. séu alrangar. En ég vil benda á annað: Var kjötverð úti á landi miðað við kaupið, þar sem það var lægst? Var ekki kjötverðið jafnhátt þar og þar, sem kaupið var hærra? Ef miðað hefði verið við lágmarksverð, þá hefði líka kjötverðið verið annað. En það er þægilegt að segja á eftir, þegar búið er að miða kjötverðið við hæstu laun: „Launin hafa hækkað enn meir á þessum stað en annars staðar, svo að nú verður að miða kjötverðið við það.“ Það er hægt að spenna bogann hátt með þessari aðferð.

Ég hélt nú, að margir þm. Framsfl. væru farnir að skilja, að það er ekki vel þokkað af bændum, nema nokkrum stórbændum, að þeir séu að berjast gegn launahagsmunum verkalýðsins úti á landi, því að mikill hluti bænda þarf á því að haldá að fara í vegavinnu og aðra vinnu, og væru teknar skýrslur á Austurlandi um það, hve mikil laun bændur hefðu greitt út úr búum sínum í vinnulaun og hve mikið þeir hefðu tekið inn, kæmi fram, að þeir hefðu tekið inn í setuliðsvinnu og annarri vinnu, meira en þeir hafa borgað út. Ég veit, að það er nokkur munur á þessu eftir því, hvar er á landinu, en það er ekki smár hópur bænda, sem vill ekki, að kaupið verði lækkað.

Gott dæmi til að glöggva sig á málflutningi framsóknarmanna í garð verkamanna og launþega, er það, hvernig hv. þm. V.- Sk. hagaði orðum sínum um hlunnindi til verkamanna samkv. l., þegar hann gerði samanburð á vinnulöggjöfinni og afurðasölul. Voru það verkamenn, sem

báðu um vinnulöggjöfina? Var hún ekki sett þvert ofan í vilja verkalýðssamtakanna? En hv. þm. V.- Sk. segir, að þar sem ríkið hafi sett verndarl. fyrir vinnuna á borð við afurðasölul. að sínu leyti, megi gera samanburð á því. Launþegarnir eiga sem sé að greiða sérstaklega fyrir það, að þeir fengu vinnulöggjöf yfir sig þvert ofan í vilja sinn. [Fundarhlé kl. 6–91/2].

Ég var búinn fyrir fundarhléið að benda á þann mikla mun, sem er á till. okkar sósíalista annars vegar og till. ríkisstj., fjhn. og Alþfl. hins vegar. Við getum að vísu fallizt á till. fjhn. um ákvörðun kaupgjalds, en hins vegar ekki á till. ríkisstj. og Alþfl. um það efni. Við viljum gera allvíðtækar brtt. við till. fjhn. að öðru leyti, um ákvörðun afurðaverðs. Við viljum láta bæta upp að fullu kjötbirgðir, sem fyrir eru, jafnmiklu fé og fjhn. gerir ráð fyrir, en láta það fyrst og fremst renna til þeirra bænda, sem hafa minna en meðaltekjur. Einnig teljum við rétt, að bændum sé mætt á miðri leið á svipaðan hátt og verkamönnum með því að leggja 3 millj. kr. í sjóð, sérstaklega til þess að skapa nýjan grundvöll að atvinnurekstri, sem verða mætti til frambúðar.

Í till. fjhn. er enn fremur kafli, sem óumflýjanlegt er að breyta, þótt við höfum ekki gert um það sérstaka brtt. Gert er ráð fyrir að lækka mjólkurverð í kr. 1.30 litrann, hvar sem er á landinu. En þar sem verðið er ekki yfir kr. 1.30, yrði þá engin lækkun, og á stöðum, þar sem milliliðakostnaður er lítill eða enginn, er mjólkin sums staðar lægri en það. Í till. okkar, sem byggja á verðlagi á hverjum stað 1939 og hlutfallslegri hækkun þess, felst að vísu hemill á þessu, en eðlilegra er að setja um það sérákvæði. Mér finnst undarlegt, að þm., sem telja sig sérstaklega forvígismenn bænda, skuli ekki geta fallizt á þessar till. í aðaldráttum. Margir þessara manna hafa ferðazt um landið þvert og endilangt og talið sig vilja fórna miklu af sinni hálfu eða sinna umbjóðenda til að lækka dýrtíðina, og bændur hafa mjög margir sagt hið sama. En eftir till. þeirra nú á dýrtíðin að lækka í 230 stig eða enn lægra, án þess að bændur fái minna fyrir framleiðslu sína, en beint í þeim tilgangi, að launþegar fái lægri laun. Launþegar eiga næsta mánuð að fórna kaupi, sem þeir hafa tryggt sér með samningum. Hvað hafa í rauninni þessir menn í huga, þegar þeir hrópa á lækkun dýrtíðar og krefjast fórna í því skyni, aðeins neita allri lækkun á afurðaverði bænda, jafnvel segja, að það þyrfti að hækka? Er meining þeirra aðeins kauplækkun? Var það eina dýrtíðarlækkunin, sem þeir hugsuðu sér?

Það er í rauninni leiðinlegt að þurfa að vera að metast á um kjör verkamanna og bænda, eins og hér hefur verið efnt til. Ég öfunda ekki bændur af þeirra kjörum og ekki fremur verkamenn af sínum. En það er greinilegt, að hér eru menn, sem vilja etja saman þessum stéttum og telja allt böl stafa af því, að verkamenn hafi fengið kaup sitt of mikið bætt. Ýmsar leiðir hafa verið reyndar til að komast að þessari æskilegu niðurstöðu. Formaður kjötverðlagsnefndar, hv. 2. þm. Rang., komst að þeirri niðurstöðu í Morgunblaðinu, að kaup hefði hækkað meira en afurðaverðið. Að vísu var honum sýnt það með tölum í blöðum litlu síðar, að það var öfugt og hann hafði byggt á skökkum tölum, enda hefur nú hv. þm. V.- Húnv. alveg hörfað frá þessari fullyrðingu. Aftur á móti hafði hann þá aðferð að benda á ýmsar kauphækkanir í einstökum sveitum og kauptúnum, þar sem tiltölulega varð meiri hækkun en í Rvík, og með því réttlætti hann, að hann taldi, jafnvel hækkun frá því, sem er. Þetta er vitanlega hin mesta blekking í málinu. Afurðaverð var aldrei ákveðið með kaupgjald þessara staða í huga, heldur fyrst og fremst kaupgjald stærsta markaðs á landinu, Rvíkur og nágrennis hennar. Breyting kaupgjalds þar og breytingar afurðaverðs eiga að fara saman, eins og yfirleitt mundi verða á frjálsum markaði. Hinir smáu kaupstaðir hafa lítil áhrif haft á verðlag. Kjötið hefur verið jafndýrt, þar sem kaupið var 80 aura á klst. og þar sem það var nærri helmingi hærra.

Ég hefði gaman af að heyra, hvernig þeir, sem telja sig fulltrúa bænda, ætlast eiginlega til, að dýrtíðin verði lækkuð, ef þeir geta ekki hugsað sér að fara þær leiðir, sem við sósíalistar viljum fara og höfum flutt brtt. um. Mér skilst þeir vilja umfram allt vilja láta verð landbúnaðarafurða haldast, þegar vísitala kaupgjalds er lækkuð. Þá er tilgangurinn einungis kauplækkun, en ekki það að fá dýrtíðina lækkaða.