09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls aftur, en svo margt einkennilegt ber fyrir eyru manns, einkum um afurðaverð bænda, að skylt er að svara verstu firrunum. Mér finnst ýmsir þm. berja höfðinu við steininn og engum rökum taka. Þeir segja bara, að tölurnar séu falskar, ef þær eru þeim í óhag, svo að erfitt er að rökræða við þá.

Hvað hæstv. félmrh. snertir, vil ég með fáum orðum minnast á rök hans í dag, þegar hann sagði, að afurðaverð hefði fimmfaldazt, en kaup þre- til fjórfaldazt. Það kaupgjald, sem miðað er við, er vegavinnukaupið. Það var kr. 0.90, en er nú kr. 5.36 og hefur sexfaldazt. Það hefur hækkað mun meira en afurðaverðið, og þetta kaup verða bændur að miða við, þegar þeir ráða sér fólk. Vormaðurinn spyr: hvað fæ ég í vegavinnu? Eins er með kaupamanninn. Þeir vilja ekki ráða sig fyrir minna en borgað er í vegavinnu. Og aldrei hefur verið eins mikið um vegavinnu og árið, sem leið, og verður sennilega eins í ár. Hver snáði getur farið í vegavinnu fyrir fullt kaup, en bændur geta ekki fengið þá menn nema fyrir sama kaup.

Hv. 2. landsk. þm, hélt því fram, að grunnkaupshækkunin væri ekki meira en 16% síðan 1939. Ég hélt ekki, að ég mundi heyra slíka firru á Alþ. Tímavinnukaupið var kr. 1.45 1939, en er nú kr. 2.10. Ég hélt, að hver maður gæti reiknað, hverju sú grunnkaupshækkun nemur, enda aðeins lágmarkskrafa til háttvirtra þingmanna. Er þá sleppt kjarabótum, sem verkamenn hafa fengið að auki og við koma vinnutímanum. Það hefur verið gerður samanburður á 40 fél. af hv. þm. A.-Húnv., og samkv. hans niðurstöðu er hækkunin að meðaltali 65%. Hv. 2. landsk. þm. mótmælti þessu, en ekki með neinum rökum. Hann sagði bara, að þetta væri ekki rétt. Mér finnst þurfa brjóstheilindi til þess að halda því fram, að grunnkaupshækkunin sé aðeins 16%. Annars skal ég ekki eyða tímanum í að þræta um þetta. Það er ekkert aðalatriði, en nauðsynlegt þó að fá rétta niðurstöðu, og ég hygg, að sú n., sem á að finna vísitölu verðlags og kaupgjalds, reikni þetta nákvæmlega út.

Hv. 2. landsk. þm. var að tala um, að óeðlilegt væri, að kjöt á Íslandi væri selt dýrar en frá öðrum heimsálfum. Ég hefi heyrt þetta fyrr og séð spurt um það í Þjóðviljanum, af hverju við flytjum ekki kjöt inn frá Ameríku og hættum að framleiða kjöt. Af hverju kaupum við föt hér eða húsgögn eða hvers konar nauðsynjar, þegar hægt er að fá þetta ódýrara í Ameríku? Hvers vegna rekum við hér iðnað, og hvers vegna eru Íslendingar að vinna, en halda ekki að sér höndum og flytja allt inn eða flytja inn verkamenn, sem vinna fyrir lægra kaupi en okkar fólk? Það er ekki kjötið eitt, heldur öll framleiðsla, sem er dýrari hér en annars staðar, því að kostnaðurinn við framleiðsluna er meiri hér en annars staðar.

Hv. 6. landsk. þm. var að tala um, að það væri einkennileg ráðstöfun að bæta bændum upp kjötbirgðirnar frá í fyrra, ef vísitalan færi í 220, því að með því væri verið að auka tekjur þeirra. Veit ekki þm., að þetta eru birgðir frá fyrra ári og að því kemur ekkert málinu við, hvað vísitalan fer í á þessu ári?

Þessi hv. þm. undraðist það, að kjötverðið skyldi nú vera alls staðar eins á landinu. Ég vil í því sambandi upplýsa það, að verðlagssvæðin voru afnumin á síðasta hausti. Þetta er eðlilegt, þar eð tilkostnaðurinn er svipaður um allt land. Fyrir stríð gilti misjafnt kaupgjald í landinu, en nú er það alls staðar eins. Þá var tímakaupið t.d. kr. 0.95 austur í Rangárvallasýslu, en kr. 1.45 hér í Rvík. Nú er borgað sama kaup hér og þar, og eins er fyrir norðan og vestan. Hvers vegna ættu ekki bændur þar að fá sama verð fyrir kjötið og bændur hér í grennd? Verðlagssvæðin eru því orðin óþörf, eins og komið er. Þess vegna hafa þau verið afnumin og sama verð látið gilda um allt land.

Hvað snertir fram komnar brtt., þá skal ég ekkert um þær segja að svo stöddu, ég hef enn ekki áttað mig á þeim með tilliti til tillagna fjhn. En eitt hef ég þegar gert mér ljóst, að brtt. um atvinnutryggingasjóð get ég ekki greitt atkv. Mér er óljúft að rjúfa gerða sætt í fjhn. og samþ. brtt., er valda efnisbreyt. Hv. þm. Mýr. og fleiri flytja brtt. um það, að atvinnutryggingasjóður verði lagður í framkvæmdasjóð, og er það e.t.v. eðlilegt. En þar sem við í n. höfum gert samkomulag og sætt, þá mun ég ekki greiða því atkv., nema samkomulag náist um það í n.

Að lítt athuguðu máli þykir mér eðlilegt, að Búnaðarfélagið verði viðurkenndur samningsaðili á borð við alþýðusambandið. Það væri því ekki óeðlilegt, að stj. leitaði einnig til Búnaðarfélagsins um það, hvort það gæti fyrir sitt leyti fallizt á lækkun afurðaverðs. Þetta er vítanlega ekki efnisbreyt., heldur viðurkenning á því, að félagssamtök bænda séu jafn rétthá í þessu sambandi og félagssamtök verkamanna.

Um aðrar brtt., eins og frá hv. þm. Siglf., hv. 2. þm. S.-M., hv. þm. Hafnf. og hv. 4. þm. Reykv., er það að segja, að ég er á móti þeim öllum. Ég vil taka það fram, að ég óska eftir, að till. fjhn. verði fylgt í öllum aðalatriðum og helzt samþ. án allra breyt., nema þetta með búnaðarfélagið, sem ég nefndi áðan.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta atriði, en ljúka máli mínu að svo stöddu.

Hvað víðvíkur brtt. á þskj. 745, þá hef ég athugað það, og get verið með fyrri hlutanum, ef n. kemur sér saman um það.