09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Vegna þeirra ummæla hæstv. félmrh., að tölur þær, sem ég hef haldið á lofti, séu töluleikur, vil ég gera örstutta athugasemd til að sýna, hvernig töluleikur hans er. Hann sagði, að þær tölur, sem ég fór með í dag, hefðu verið út í loftið, en hvað á maður að segja um þau dæmi, sem hann nefndi í gær, en hirðir nú ekki um að staðfesta? Hann segir það rétt, að vegavinnukaup hafi 5-faldazt eða 6-faldazt. Og hann segir, að mestur hluti þess fari til sveitanna. Þetta á að vera bending í þá átt, að það eigi ekki að taka þetta kaupgjald með, þegar verið er að ræða um, hvað fer til bænda. En það sýnir einmitt, að sá vinnumarkaður, sem bændur verða að gera sér að góðu, er einmitt þetta: þeir verða að greiða sama kaup. Þar sem meira en helmingur vegavinnunnar er unninn af þessu fólki, þá þarf einmitt að taka tillit til vegavinnukaupsins, af því að það kaup, sem bóndinn þarf að greiða, er í samræmi við það. Þetta veit hver maður með meðalgreind. Þá taldi hann fram önnur dæmi til að sýna, hve samvizkusamlega hann fer með tölur. Hann segist hafa talið mjólkurverð til bænda 87,7 aura, en hún væri í útsölu kr. 1.16. Hann gleymir, að það er skýrt fram tekið, að það er ekki nema helmingur mjólkur seldur þessu verði, sem sagt bara neyzlumjólk. Hinn helmingurinn er seldur lægra verði. Það er því misskilningur hjá hæstv. ráðherra, að mismunurinn fari allur í kostnað. Hann fer í verðjöfnuð. Ef bóndi selur 3 dilka, einn á 40, annan á 60 og þann þriðja á 80 kr., þá er hið raunverulega söluverð ekki 80 kr., heldur meðaltalan. Það er nákvæmlega það sama með mjólkina. Þetta vil ég ráðleggja hæstv. félmrh. að muna, næst þegar hann fer út í töluleik.

Ég læt þessi orð nægja, og vona að hafa sýnt fram á, hvers konar feluleik hv. ráðh. hefur haft í frammi. Ætla ég að bíða, þar til ég hef fyrir mér þær tölur, sem hann gengur út frá við útreikning sinn.