09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Það hefur borizt í tal grunnkaupshækkun, sem orðið hefur á síðastliðnu ári. Því er haldið fram, að hún sé 65%. Það er hv. þm. V.-Húnv., sem staðið hefur í þeim útreikningum hér og telur sig hafa óyggjandi tölur til stuðnings.

Þótt telja megi að margt sé vanmetið af því, sem gert er, verður ekki hægt að ganga fram hjá þeim tölum, sem réttar eru.

Grunnkaup hér í Rvík er 16%. Grunnkaup verkamanna er 16%. Að vísu vinna þeir 11/2 klst. skemur til þess að fá þetta. Hitt er annað mál, hvort bændur eigi sams konar rétt til kjarabóta og verkamenn, og er auðvitað eðlilegt, að þeir njóti þeirra eins og unnt er. Hv. þm. V.-Húnv. hefur reiknað út grunnkaupshækkun í ýmsum verklýðsfélögum, og ég verð að segja, að það er mjög af handa hófi af hendi leyst. Hér í Rvík hefur grunnkaupshækkunin verið minnst síðan stríðið byrjaði, en í ýmsum smáfélögum úti um land hefur hún orðið geysimikil, en þó mismunandi. — T.d. í verklýðsfélaginu í Flatey nam hún 144%, en það félag telur 26 meðlimi. Hv. þm. V.-Húnv. valdi í sínum útreikningum 40 félög innan alþýðusambandsins af handahófi, og með slíkri aðferð er hægt að fá út hvað, sem menn vilja, Það er hægt að lesa allt út úr tölum og snúa þeim á allan hátt, og það mun varla hægt að ljúga einfaldara en með tölum.

Í rökum þessa hv. þm. í sambandi við þetta, er þar að auki farið rangt með ýmislegt, er snertir grunnkaupshækkanir verkamanna, síðan stríðið hófst. Mér virðist alveg tilgangslaust að metast um það, hvort bændur eða verkamenn séu betur settir. — Í sambandi við þetta er rétt að taka fram, að grunnkaupshækkun verkamanna gaf enga átyllu til að hækka verð landbúnaðarafurða á síðasta hausti, og er því ástæðulaust að bera fram slík rök. Það er miklu einfaldara að segja eins og er, að bændurnir hafi þurft á þessari verðhækkun að halda. Annars tel ég þessa hækkun á landbúnaðarafurðum óhóflega mikla, og ég tel jafnvel hættu á, að með henni geti bændur skaðað sína eigin vöru. — Þeir, sem stjórna þessu, eru komnir út á hálan ís, því að þeir skapa slíkan glundroða á verðlagi að allt jafnvægi raskast. Mér finnst óþolandi, að gengið sé fram með svona rök án þess að mótmæla þeim nokkuð.

Þá vil ég snúa orðum mínum að till. á þskj: 705. Mér virðist ekki standa steinn yfir steini í þessum till. eftir ræðu hv. þm. Ísaf., og enginn flm. till. virtist treysta sér til að svara rökum hans. Þessar till. ganga út á að gera ekki neitt, láta allt sitja við hið sama. Sá grundvöllur, sem er að finna í till. hv. fjhn., skal settur til hliðar og allt haft óbreytt.

Ég vona, að hv. flm. till. geri sér ljóst, að ef þær verða samþ., þá þýðir það sama og frv. verði fellt og Alþ. geri ekki neitt í þessum miklu vandamálum, sem það hefur eytt svo miklum tíma í að reyna að leysa. Mér skildist á ræðu hv. 1. flm., þm. Mýr., að hann vildi gera Búnaðarfélag Íslands að sams konar stofnun fyrir bændur og Alþýðusambandið er fyrir verkafólk. Búnaðarfélag Íslands stendur ver að vígi í þessu tilliti en alþýðusambandið, vegna þess að það hefur aldrei um þessi mál fjallað. Enda þótt sumir í stjórn búnaðarfélagsins eigi sæti í verðlagsnefndum hér í Rvík, þá hefur félagið samt aldrei um þessi mál hugsað. Það væri eðlilegra að kaupfélögin og sláturfélögin tækju þessi mál að sér heldur en fá þau í hendur búnaðarfélaginu. Ég álít að með þessu verði bændum eigi gerður neinn greiði, miklu fremur hið gagnstæða.

Hæstv. ríkisstj. hefur ekki látið í ljós álit sitt á þessum brtt. Hæstv. félmrh. var sá eini, sem minntist á þær, og mér skildist á orðum hans, að honum fyndist fátt um. Mér þætti ekki óeðlilegt, þótt hæstv. ríkisstj. léti hv. þdm. í té álit sitt á þessum brtt. Ég gat þess í fyrri ræðu minni, að samkv. nýútkomnum búreikningum þá sé 78% á verði landbúnaðarafurða kaup til bændanna sjálfra. — Við flm, brtt. á þskj. 687 gerum ráð fyrir 45% hækkun á landbúnaðarafurðum frá 1939, og með því yrði bændum tryggð 60% grunnkaupshækkun og enn fremur uppbót skv. vísitölu fram að 15. sept., en þá á n. sú, er skipuð verður skv. þessu frv., að hafa lokið störfum.

Ég tel, að með till. okkar á þskj. 687 sé hag bænda bezt borgið og má einkennilegt heita, ef fulltrúar bænda hér á Alþ. geta ekki fylgt henni.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að vegavinnukaupinu. Það kaup hefur hækkað langmest alls kaups síðan í stríðsbyrjun, og það hefur talsverð áhrif á hag bænda. Þess vegna er ekki hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd, þegar vegavinnukaup fjórfaldast, að það hlýtur óhjákvæmilega að auka tekjur þeirra bænda, sem eiga þess kost að fara í vegavinnu eða senda menn þangað. Það er ekki sanngjarnt að taka aðeins tillit til vegavinnukaupsins, þegar rætt er um útgjöld bænda, heldur verður einnig að færa þeim þá vinnu til tekna. Ég vil aðeins taka þetta fram af því, að hv. þm. V.-Sk. horfði aðeins á útgjaldahliðina. Menn verða að gera sér ljóst, að þeir bændur, sem geta farið í vegavinnu og setuliðsvinnu, hljóta að bæta hag sinn allmikið. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt, að bændur reyni að sækja þessa vinnu, því að hún gefur mikið í aðra hönd, og auk þess er betra að fá hana núna en fyrir stríð.

Ég vil taka fram eitt atriði út af brtt. hv. 6. landsk. á þskj. 688, varðandi skattamál. Í þeirri till. er tekið fram, að félög, sem ekki geti úthlutað varasjóði sínum, fái að njóta sömu hlunninda og áður. — Í till. okkar er þetta ekki tekið fram, vegna þess að þetta ákvæði er ósnert frá núgildandi l. og þess vegna óþarft að taka það fram sérstaklega. Í till. ríkisstj. er þetta einnig tekið fram, en mér virðist það alger óþarfi.

Að sinni tel ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar.