10.04.1943
Neðri deild: 96. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Það er skylt að geta þess, að annað atriðið í aths. mínum við brtt. hv. 3. þm. Reykv., var á misskilningi byggt, þ.e.a.s., að stj. hefði ekki heimild til að fyrirskipa breyt. á kaupi, ef samkomulag næst. Eigi að síður vil ég fara fram á, að menn fylgi brtt. minni, því að þar er tekið fram, til hverra aðila skuli leita um samvinnu, og þá liggur það ljóst fyrir, hvaða félagasambönd er átt við. Það er t.d. til samband bankamanna og ýmissa annarra starfsmanna, og er því rétt að samþ. till. mína til þess að taka af allan vafa.

Það, sem hv. þm. N.-Ísf. kastaði hér til Framsfl., er svo mikil fjarstæða, að ég svara því ekki að öðru leyti en því, að það er ferlegur misskilningur, að framsóknarmenn hafi verið á glóðum yfir því, að samþ. ætti þrjár millj. kr. til þess að tryggja atvinnu fyrir verkalýðinn. Það hefur verið eitt höfuðáhugamál framsóknarmanna á undanförnum árum að safna fé í framkvæmdasjóð ríkisins, svo að hægt væri að fá þaðan nægilegt fé til að auka atvinnu, þegar þess verður þörf.

Hv. þm. ætti að kynna sér það áður en hann kastar slíku fram hér næst, að undanfarin ár höfum við framsóknarmenn lagt fram mikla vinnu ásamt öðrum flokkum hér í þinginu, og sérstaklega Alþfl., til þess að afla fjár til verklegra framkvæmda og auka með því atvinnu í landinu. En mótstaða hefur alltaf verið gegn þessu frá þeim flokki, sem hv. þm. N.-Ísf. telur sig til.

Út af því, sem hv. þm. N.-Ísf. kastaði fram um nýbyggingasjóðina og því sem hann fullyrti að við framsóknarmenn værum fjandsamlegir því, að skipaflotinn yrði byggður upp, vil ég taka fram, að rétt væri fyrir hann að kynna sér þessi efni miklu betur, og ætti honum að vera það vorkunnarlaust, því að ekki er langt að leita vitnisburðar um þetta. Við höfum lagt fram á þessu Alþ. till. um að útgerðarfyrirtækin geti komið upp hærri nýbyggingasjóðum en áður, þegar á heildina er litið. Bið ég hv. þm. að taka þetta til greina. Hitt er rétt að minna á, að nú fyrir skemmstu greiddi hv. þm. N.-Ísf. tvisvar atkv. gegn því á einni og sömu nóttu, að smáútvegsmenn fengju að auka nýbyggingarsjóðsframlagið úr 1/5 hluta tekna í 1/3 hluta. Kalla ég það vel að verið hjá hv. þm.(!!).