10.04.1943
Neðri deild: 96. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. – Það er aðeins örstutt aths. Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) kvað það rangt hjá mér að telja, að sú breyt., sem nú er komin inn í frv. með 7. gr. frv., rýri kosti nýbyggingasjóðanna og skerði möguleika útgerðarinnar til þess að endurnýja framleiðslutæki sín í framtíðinni. Hann sagði, að samkvæmt 7. gr., eins og hún er, væri lagt meira í nýbyggingarsjóðina heldur en eftir núgildandi löggjöf. Ég vil um þetta segja: Drottinn gaf og Drottinn tók. Því að enda þótt sú breyt. sé á gerð gagnvart útgerðarfélögum í þessu efni, að nú samkv. þessari gr. eigi allt varasjóðstillagið að renna til nýbyggingarsjóðanna, en ekki aðeins nokkur hluti þess, eins og áður var, þá er þetta tekið aftur í niðurlagi gr., þar sem ákveðið hámark er sett fyrir því, hvað einstök fyrirtæki mega safna miklu á þennan hátt í sjóð. Það er því áreiðanlega vísvitandi blekking hjá hv. 2. þm. Reykv., þegar hann ætlar að halda því fram hér, að möguleikar útgerðarinnar til sjóðsöfnunar hafi verið auknir með þessu. Og um þetta fer ég þess vegna ekki fleiri orðum, og yfirleitt ekki frekar um hans umr. um það, hvernig útgerðarmenn í þessu landi munu snúast við, þegar erfiðleikarnir koma að stríðinu loknu. Hann getur verið einn um þær hugleiðingar, enda hefur hv. 7. þm. Reykv. svarað þeim svigurmælum og illyrðum, sem beint hefur verið að útgerðarmönnum þessa lands, sem rækt hafa með prýði skyldur sínar við þjóðfélagið.

Hv. 2. þm. S: M. (EystJ) sagði, að framkvæmdasjóður ríkisins og forusta Framsfl. um myndun hans sannaði vilja Framsfl. til þess að efla framkvæmdir í þessu landi. En þegar ég sagði, að það hefði verið eins og Framsfl. hefði verið berfættur á glóðum, þá var það af því, að þegar fyrst var gerð grein fyrir tilgangi þessa 3 millj. kr. sjóðs af hv. 2. þm. Reykv., þá var tjáð, að tilgangur þessa sjóðs væri að efla atvinnu hér í landinu. Svo benti ég á samræmið í því annars vegar, að Framsfl. var eins og á glóðum af því að hann vildi ekki, að slíkt yrði samþ., en hins vegar í því að skerða möguleika útgerðarinnar til þess að efla skipastólinn með því að ganga inn á stórauknar skattatill. eða stórrýrða möguleika til þessara hluta til þess að efla alþýðutryggingarnar hér í landinu.

Ég vil svo taka undir það með hv. 7. þm. Reykv., að ég og aðrir sjálfstæðismenn munum þurfa að athuga margt til þess að finna verulegan hlýhug hjá Framsfl. til útgerðarinnar og verulegan skilning á þörfum útgerðarinnar og þá ekki sízt í sambandi við nýbyggingarsjóðina og endurnýjun flotans. Og þó að ég athugaði málið í dag og á morgun og daginn þar eftir, mundi ég lítið komast lengra í að finna nokkuð jákvætt hjá flokki hv. 2. þm. S.-M. til stuðnings útgerðinni íslenzku.

Varðandi það, að ég hafi greitt atkv. á móti hagsmunum smáútgerðarinnar í nótt, þá eru það hrein ósannindi hjá hv. 2. þm. S.-M. Hv. 2. þm. S.-M. hefur að vísu flutt ásamt öðrum skattaákvæðum, sem miða að því að draga úr möguleikum útgerðarinnar til þess að endurnýja flota sinn, till. um nokkurt framlag til nýbyggingar smáútgerðarinnar. En ástin til smáútgerðarinnar var ekki meiri en svo, að þó hann segði, að smáútgerðin þyrfti þessa stuðnings með, þá átti að taka það, sem til þessa stuðnings þyrfti, af útgerðinni á öðrum stað. Ég greiddi atkv. á móti þessu fyrst og fremst af því, að þessi till. var tengd við aðrar skattatill., sem hv. 2. þm. S.-M. þurfti að láta fylgja þessum vinsemdarvotti til útgerðarinnar í landinu. En þegar skattamálin verða sérstaklega tekin til athugunar, þá skal ekki standa á mér að vera með till. í þá átt, að smáútgerðinni gefist aukinn kostur á að safna í sjóði sína. Og það er óþarfi fyrir hv. 2. þm. S.-M. að vera að reyna að koma því að hér, að ég hafi verið að bregða fæti fyrir smáútgerðina, þegar í þessum tili., sem hann ásakar mig fyrir að hafa verið á móti, var gert í bólið sitt gagnvart öðrum þáttum útgerðarinnar.