21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

96. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Ég verð að svara nokkrum orðum fyrirspurn, sem hv. 6. þm. Reykv. beindi til mín, og verð að segja það, að það er allt annars eðlis með æðarfuglinn en með laxagönguna, því að það er vitað, að laxinn þarf 4–5 ára tíma til þess að þroskast. Þess vegna á það ekkert skylt við þetta, þótt laxveiðin hafi farið forgörðum á síðasta sumri, en eftir 2–3 ár ætti hún að fara að glæðast af árangri laganna 1941 og fækkun svartbaks. Hitt sér maður fyrir sínum eigin augum, hvort ungviði fuglanna fjölgar, þegar maður sér varplöndin. En ég gat um það, að ekki væri víst, að það væri allt að þakka eyðingu fuglsins. Það gætu verið aðrar ástæður. En það er vitað, að þar, sem gengið hefur verið rösklegast fram í að eyða svartbaknum, hefur æðarfuglinn komizt langmest upp.

Um sérfræðingana vil ég segja það, að n. hefur ekki sent fyrirspurn um þetta til þeirra núna, en ég hef talað um það við einn þekktasta veiðimann og athafnamann landsins, og ég hygg, að hann hati ekki nokkurt kvikindi eins og svartbakinn, að einu kannske undanteknu. En aftur er það annað, sem ég hef minnzt á áður, og þar þarf sérfræðinga til, að það er stundum, sem meiri áta er í sjónum og stundum minni, og ætti svartbakurinn að leggjast minna á fuglinn, þegar meira er um átu. Það eru ekki til skýrslur um það, hve mikil áta var í sjónum síðast liðið sumar, og þótt leitað væri til sérfræðinga um það, býst ég ekki við, að það kæmi að gagni. Þetta eru þær upplýsingar, sem ég get gefið, en ég tek það aftur fram, að þótt lítil laxaganga væri í ár, koma þessi ákvæði því máli ekkert við.