21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

96. mál, eyðing svartbaks

Hermann Jónasson:

Ég er meðflm. að þessu frv., vegna þess að ég er á þeirri skoðun, að það sé nauðsynlegt að herða á þessum ákvæðum. Það hafa verið skiptar skoðanir um þetta mál og eru sennilega enn, og hefur verið dregið nokkuð í efa, hvort svartbakurinn hafi þau áhrif á fækkun æðarfuglsins, sem þeir, er fluttu þetta mál, telja líklegt og sannað.

Þessi aðferð með eitrun og eyðingu svartbaks var mikið reynd í Breiðafjarðareyjum fyrir forgöngu Péturs Eggerz, sem þar var um skeið, og reynslan var sú, að aukning varpsins varð mjög mikil, þegar gengið var að því að eyða svartbaknum, og æðarvarpseigendur lögðu á sig miklar kvaðir til þess að fá þessi verk unnin.

Það var, áður en þetta frv. var lagt fram, að rannsókn var gerð á því, hver áhrif svartbakurinn hefði á æðarvarpið, og liggur sú skýrsla fyrir frá Finni Guðmundssyni. Ég man ekki tölurnar, sem fram komu í skýrslunni um það, hvað hann taldi það mikið, sem svartbakurinn eyðilegði af æðarvarpinu, en þær tölur voru miklu alvarlegri en nokkurn hafði órað fyrir áður, svo að það er tvímælalaust, að svartbakurinn er hinn mesti vágestur fyrir æðarvarpið. Það er og ljóst, að svartbaknum hefur fjölgað, og liggja þær ástæður til þess, að áður voru egg hans nýtt víða um land, þegar vinnukraftur var ekki eins dýr og nú og meðan þeir tímar voru, að erfiðleikar voru oft um að ná sér í björg. Þá voru farnar á Vestfjörðum eggjaferðir upp um öll fjöll, og hér í nágrenni Reykjavíkur var t. d. farið upp á Akrafjall og á fleiri staði. En nú eru þessar eggjaferðir yfirleitt ekki farnar, og niðurstaðan er sú, að svartbaknum hefur fjölgað svo geysilega á seinni árum, að það sér hver maður, sem hefur fylgzt með þessu, að fjölgun hans er orðin stórhættuleg. Það þarf ekki annað en aka hér leiðina vestur um land til þess að sjá þetta og heyra af viðtali við menn, og það þarf ekki að fara lengra en hérna upp í Mosfellssveit til þess að sjá svartbakinn í tugþúsundatali í kringum bragga setuliðsins. Þetta er stór fugl, sem þarf mikla fæðu, og þarf ekki að efa, að hann þarf mikið, þar sem hann leggst á varpið. Spurningin er, hvernig menn vilja eyða honum. Aðferðin er sú að taka eggin og hin aðferðin, sem hér er mælt með, því að það er upplýst hér á þingi, að reynslan er sú, að það er ekki hægt að útrýma svartbaknum, svo að gagni komi, fyrir utan það að taka eggin, nema með þessum hætti. Þess vegna er það svo, að ef vinna á móti þessum ófögnuði í varplöndum og fiskivötnum, er ekki önnur aðferð til, sem við þekkjum, en þessi. Spurningin er sú, hvort aðferðin er ómannúðleg, og þegar rætt var um það, þá upplýstist, að kvalir þær, sem fuglinn líður við þetta eitur, eru ekki miklar. Um það lá fyrir vottorð frá sérfræðingi, þegar l. voru sett. Dauðinn kemur skyndilega, og það er alveg víst, að þessi aðferð er a. m. k. mannúðlegri en að skjóta fuglinn, því að það er vitað mál, að þessi fugl er ákaflega skotharður, sem kallað er, og hann fellur ekki fyrir öðru skoti en því, sem hittir hann á stuttu færi og hittir hann vel. Það er enginn vafi á því, að það eru miklu fleiri fuglar, sem fara særðir, en þeir, sem falla beinlínis fyrir skoti, og þetta er vegna þess, eins og þeir þekkja, sem farið hafa með skotvopn, að þessi fugl er ákaflega góður flugfugl og á þess vegna auðveldara en aðrir fuglar með að komast burt særður, enda sterkur og harðgerður.

Þegar athugað er, hve mikið fuglinn eyðileggur, og að honum fjölgar stöðugt, þegar athugað er, að ekki er önnur aðferð en eitrun, og þegar það er athugað, að þessi aðferð er mannúðlegri en skot, get ég ekki séð, að annað sé að gera en framlengja þessi. l., því að fullvíst er, að eins og nú standa sakir, er þessi stórgerði og harði fugl að verða hreinasta plága í hlunnindum landsmanna.