21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

51. mál, ítala

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Með þessu frv. er lagt til, að heimilað verði, að gerðar séu samþykktir um ítölu, er komi í veg fyrir, að gróið land fari í auðn sökum of mikils ágangs búfjár. Fornar sögur herma, að landið hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. En gróðrinum hnignaði fljótt af ýmsum ástæðum. Menn sáu, að skógurinn var til margra hluta nytsamlegur, og var hann óspart notaður til eldiviðar, húsagerðar og til beitar fyrir búfé. Fleiri öfl hafa og verið að verki við eyðingu skógarins, og nú er svo komið víða, að þar er auðn ein, sem áður var trjágróður. En nú hafa augu manna opnazt fyrir því, að landbúnaðurinn þarf að byggjast á ræktun en ekki rányrkju. Ræktun hefur og aukizt mjög á síðustu áratugum. Lög hafa verið sett um skógrækt og sandgræðslu, og miklu fé hefur verið varið til skógræktar, sandgræðslu og heftingar sandfoks. En það er ekki síður nauðsynlegt að gæta þess, að gróðurlendi og nýrækt eyðist ekki aftur vegna ofbeitar, því að færi svo, má segja, að rifið sé niður með annarri hendinni það, sem byggt er upp með hinni. Góð afréttarlönd eru afar mikils virði. „Sauðirnir koma með spesíur á bakinu af heiðunum“, sagði bóndi einn á seinni hluta 19. aldar. Þannig er þetta enn og verður framvegis, ef þessi gullnáma verður ekki eyðilögð. Ég hef þá trú, að sauðfjárrækt geti verið arðvænlegur atvinnuvegur og að unnt verði að framleiða hér sauðfjárafurðir, eigi aðeins handa þjóðinni sjálfri, heldur einnig til sölu á erlendum markaði. Sú trú byggist á því, að við höfum víðáttumikil fjalla- og heiðalönd með kjarnmiklum gróðri. En þess verður að gæta að eyðileggja ekki þessi auðæfi með ofbeit.

Lög hafa verið sett um forðagæzlu til þess að tryggja, að nóg vetrarfóður sé handa þeim búpeningi, sem settur er á vetur. Það er að sjálfsögðu gott, en gæta verður þess einnig að setja ekki of margt á hagana. Í þessu frv. er lagt til, að sýslunefndum sé heimilað að gera samþ. um ítölu í afréttar- og heimalönd. Nú getur staðið svo á, að ekki sé nægilegt, að slíkar samþykktir séu gerðar fyrir einstaka hreppa og einstakar sýslur, þar sem búfjársamgöngur eru miklar milli héraða. Þegar svo stendur á, er lagt til, að Búnaðarfélag Íslands taki málið til athugunar og skipi ítölunefnd, ef með þarf, — annars athugi sýslunefndir þetta hver á sínu svæði. Að öðru leyti vísa ég til greinargerðarinnar og bréfa, er þar eru birt. Ég óska svo, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn., og vænti þess, að hv. nm. og aðrir þm. taki því með velvilja og greiði því veg gegnum þingið.