20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

51. mál, ítala

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Í tilefni af þeim aths., sem hv. 2. þm. N.-M. kom með varðandi brtt. landbn., skal ég taka fram, að þar sem n. talar um landeiganda og ábúanda, þá á hún auðvitað við það, að atkvæðisrétt hafi allir ábúendur innan sveitarinnar og þeir hafi ekki nema eitt atkv. hver, þó að það sé ekki tekið fram í brtt., en þar, sem talað er um landeiganda, þá komi þar til greina þeir, sem eiga jarðir í hreppnum, en búsettir eru e. t. v. utan sveitarinnar.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. N.-M. taldi, að það gæti valdið árekstri, að þeir menn, sem ættu lóðir undir húsum sínum, — og þar með væru þá landeigendur, — gætu átt hér atkvæðisrétt, þá skilst mér, að hann eigi þar aðallega við kauptúnin. En mér skilst, að það þyrfti ekki að reka sig á, þó að þeir hefðu atkvæðisrétt á fundum, sem tækju ákvarðanir um ítölu, því að þar er ekki viðvíkjandi ítölu um neitt annað land að ræða en það, sem er innan viðkomandi hrepps. Og í flestum tilfellum yrði það svo, hvað kauptúnin snertir, að sveitarfélagið á það land, sem ítala væri þar gerð í, sem í langflestum tilfellum er mjög lítið land. En þar kæmi ekki til greina að ákveða neitt um ítölu annarra sveita.

Hitt er aftur annað mál, sem hv. 2. þm. N.-M. vék að, að ef það er til, að það séu ábúendur á smábýlum, sem eru ekki taldir bændur, þá þurfi það að athuga, hversu slíkir menn eigi atkvæðisrétt á þeim fundum, sem hér er um að ræða. Og ef eitthvað er af þess háttar mönnum, sem eiga ekki land sitt, en eru taldir ábúendur, þá hygg ég, að gera þurfi brtt. við frv. fyrir 3. umr. varðandi þá menn.