24.11.1943
Sameinað þing: 35. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

27. mál, fjárlög 1944

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki við þessar umræður að gera sérstaklega að umtalsefni fjárlagafrv. það, sem nú liggur fyrir. Enn þá er ekki séð fyrir um það, í hvaða mynd frumvarpið verður afgr. frá Alþingi. En þær breyt., sem þegar hafa verið gerðar á frumv., benda til þess, að útgjöldin verði stórlega hækkuð frá því, sem ríkisstj. lagði til. Sýnir þetta meiri bjartsýni á tekjum ríkisins næsta ár en ég tel, að nokkrar ástæður séu til. Ég tel, að nú sé einmitt ástæða til að sýna varfærni í áætlunum, einmitt nú, er sýnilegt er, að vér erum þegar komnir á öldutopp góðærisins og aldan er þegar tekin að hníga aftur. Þegar svo er komið, er það ekki aðeins óvarlegt, heldur mjög óhyggilegt að áætla tekjur ríkisins svo hátt sem ýtrast er hægt að fara — og sníða svo útgjöldin eftir því.

„Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða“. Svo hlýtur það og að verða með framkvæmd fjárlaganna. Þótt þingið vilji láta fé til ýmissa framkvæmda, þá hlýtur þó hin raunverulega afkoma ríkisins að ráða því, hvort öllum fjárveitingum er hægt að sinna.

Þessar umr. í sambandi við afgreiðslu fjárl., sem almennt eru nefndar eldhúsumræður, eru haldnar til að gefa stjórnarandstæðingum tækifæri til að láta í ljós gagnrýni sína á gerðum stjórnarinnar yfirleitt. Að þessu sinni hagar nokkuð til á annan veg en vant er, þar sem núv. ríkisstj. hefur opinberlega hvorki stuðning né andstöðu nokkurs flokks. Sumir þeirra hafa lýst yfir, að þeir mundu fylgja stjórninni að öllum góðum málum. En það er þá að sjálfsögðu samkvæmt þeirra mati, hversu góð málin megi teljast, sem stjórnin ber fram. Henni hefur líka fundizt eigi sjaldan, að ekki hafi farið saman mat hennar og flokkanna á þeim málum, sem hún hefur talið góð og óskað, að mættu fram ganga. Þar getur sýnzt sitt hvorum, og skal það eigi lastað, svo lengi sem af heilindum er gert og málefnin eru ekki látin gjalda þess, að stjórnin hefur engum flokki verið aufúsugestur hér á Alþingi. Hins vegar vil ég taka fram, að góður friður og vingjarnlegt samstarf hefur verið milli stj. og þingmanna yfirleitt þá 11 mánuði, sem hún hefur starfað, og er hún þakklát fyrir það. Hitt er þó að sjálfsögðu eðlilegt, að þingmenn hafi sitt hvað út á gerðir hennar að setja og afstöðu hennar til ýmissa mála. Á þetta og ekki sízt við um flokkana, sem allir hafa sínum hagsmunamálum að gegna og sinnar stefnu að gæta gagnvart kjósendunum. Verður ekki sagt, að stjórnin hafi verið nokkrum þeirra þægur ljár í þúfu, því að hún hefur tekið ákvarðanir sínar og hagað framkvæmdum án tillits til flokkahagsmuna og farið eingöngu eftir því, sem hún taldi réttast og samrímanlegast hag alþjóðar.

Þótt ég vilji á engan hátt biðjast undan gagnrýni á gerðum stj. né færast undan því, að komið sé í eldhús til hennar og litið ofan í hvern pott og hverja kirnu, þá get ég samt ekki varizt þeirri hugsun, að þarflegra væri oss Íslendingum, eins og nú standa sakir, að halda eldhúsdag yfir sjálfum oss og skoða, hvernig umhorfs er á heimilinu um það leyti sem mesta styrjöld mannkynssögunnar fer að nálgast lokaþáttinn og þjóðin sjálf að taka eina örlagaríkustu ákvörðun sína í lífsbaráttu þúsund ára.

Hin efnalega aðstaða þjóðarinnar um þessar mundir hefur, að því er sýnist, aldrei verið betri. Að vísu verður ekki sagt, að þar beri ekki skugga á, því að velgengnin hefur haft sína annmarka, sem ekki verður séð út yfir að sinni.

Tekjur ríkisins hafa aukizt mjög mikið í sambandi við peningaveltuna í landinu, en minna hefur staðnæmzt í handraðanum en búast hefði mátt við. Á undanförnum 4 styrjaldarárum hafa skuldir þær, sem ríkissjóður stendur sjálfur undir, lækkað um 7 millj. króna. Á sama tíma hefur ríkissjóður lagt til hliðar í tvo sjóði 18 millj. kr. Er það raforkusjóður með 10 millj. kr. og framkvæmdasjóður með 8 millj. kr. Önnur eignaaukning nemur líklega 3–4 millj. Hefur ríkissjóður þá bætt hag sinn á þessum árum um 28–29 millj. kr., og af því er nú handbært í sérstökum sjóðum 18 millj.

Um afkomu þessa árs verður ekki enn sagt með nokkurri vissu, en samkvæmt áætlun, sem nýlega hefur verið gerð, má ekki gera sér bjartar vonir um mikinn tekjuafgang. Talsverð hækkun verður að vísu á sumum tekjuliðum frá því, sem áætlað er í fjárlögum, en þar á móti koma milljónagreiðslur samkvæmt sérstökum lögum frá síðasta þingi, og auk þess fara nokkrir útgjaldaliðir, svo sem vegagerð, strandferðir og landhelgisgæzla, mikið fram úr fjárlögum. — Eru engar líkur til þess, sem margir munu hafa gert sér vonir um, að tekjuafgangur ríkissjóðs þessi ár muni leysa ríkið úr öllum skuldum.

Á þessum árum hafa landsmenn eignazt inneignir erlendis, og nema þær nú rúmlega 430 millj. króna. Á sama tíma hafa þeir greitt skuldir frá fyrri tímum, er numið hafa að líkindum 30–40 millj. kr. Tiltölulega lítill hluti af inneigninni erlendis er fyrir útflutning, sökum þess að meginhluti hans hefur runnið til að greiða fyrir innfluttar vörur og eldri skuldir. Þótt útflutningurinn þessi ár hafi verið miklu meiri en nokkru sinni fyrr, má segja, að þjóðin hafi gert lítið betur en vera matvinnungur. Hins vegar hefur hún með margvíslegum störfum fyrir hin erlendu setulið unnið sér inn meginhluta hinnar erlendu inneignir. En eins og ég gat um áðan, þá hefur þessi auðsöfnun ekki verið óblandin beizkju, því að enn verður ekki séð, hvernig þjóðin fær leyst úr þeim félagslegu og fjárhagslegu vandamálum, sem skapazt hafa hér innanlands vegna margra ára dvalar hins fjölmenna erlenda setuliðs.

Öll ófriðarárin hefur skipaflota landsmanna verið haldið úti og í stöðugri notkun en þekkzt hefur áður. Fiskiflotinn hefur goldið mikið afhroð. Skipunum hefur sennilega verið haldið sæmilega við, eftir því sem kostur hefur verið á, en þau voru flest gömul, þegar ófriðurinn hófst, og þau verða sennilega 5 árum eldri þegar honum lýkur. Þótt flotanum hafi bætzt nokkur skip á þessum árum, þá verður hann orðinn yfirleitt gamaldags í ófriðarlok, og við mörg skipanna verður ekkert annað að gera en höggva þau upp. Tækin til framleiðslu sjávarafurðanna eru því úrelt orðin. Í stríðslokin stöndum vér andspænis þriðju höfuðbreytingunni og þeirri stærstu í fiskveiðatækni landsmanna.

Landbúnaðurinn hefur litlum framförum tekið þessi ófriðarár. En hann kemur að líkindum út úr styrjöldinni betur stæður fjárhagslega en hann hefur áður verið. Tel ég það vel farið, og væntanlega verður það þjóðinni allri til gagns og gengis, þegar fram líða stundir, þótt ýmsar deilur hafi sprottið upp í sambandi við sumt það fé, sem runnið hefur til landbúnaðarins þessi ár. Ef það gengur til þess að létta skuldum af bændunum, að byggja upp býlin og rækta jörðina, þá er því ekki á glæ kastað.

En þótt landbúnaðurinn hafi komizt sæmilega af, þá er ekki allt fengið með því. Vér verðum að gera oss ljóst, að hann stendur enn í fortíðinni og hann á fyrir höndum stórt átak til að mæta kalli hins nýja tíma, ekki síður en sjávarútvegurinn.

Þannig er þá í fáum dráttum ástatt um afkomu ríkisins, um efnalega aðstöðu landsins gagnvart útlöndum og um tvo höfuðatvinnuvegi landsmanna, þegar lokaþáttur ófriðarins er að hefjast og vér stöndum andspænis viðfangsefnum og samkeppni hins nýja tíma. Nú þegar er byrjað að halla undan fæti, þótt lítið beri á því enn. Allt er í óvissu um það, hvað framundan er. Eitt er aðeins víst, og það er, að hinn nýi tími — tími friðarins — mun hafa í för með sér torleyst verkefni og byltingar á öllum sviðum þjóðlífsins.

Þegar að þessu er gætt, vaknar spurningin um það, hvernig vér erum undir það búnir að mæta hinum nýja tíma, þeim degi, sem þegar er í afturelding, mæta honum sem þjóð, er ræður eigin örlögum, og mæta honum sem menn, er geta staðið á eigin fótum.

Til þess að fá svar við þeirri spurningu er landsmönnum bezt að líta inn um sínar eigin bæjardyr.

Um nálega tveggja ára skeið hafa staðið harðari pólitískar deilur milli flokkanna en verið hafði áður um langan tíma. Árangur tveggja kosninga á síðasta ári varð sá, að enginn flokkur náði meirihlutaaðstöðu á Alþingi. Þeir fjórir flokkar, sem þjóðin hafði falið umboð sitt í því skyni að fara með löggjafarvaldið og ráðstafa framkvæmdavaldinu, gátu ekki náð samkomulagi til að inna þessa sjálfsögðu skyldu af hendi. Í fyrsta skipti síðan landið fékk innlenda stjórn varð að skipa ríkisstjórn án íhlutunar Alþingis. Í nálega heilt ár hefur þetta óvenjulega ástand staðið, og á því tímabili virðist lítið hafa dregið til sátta og ekki enn útlit til sterkrar pólitískrar samvinnu um myndun stjórnar og afgreiðslu nauðsynlegra mála. Örlagaríkasta mál þjóðarinnar, dýrtíðarmálið, er enn óleyst og í algerri óvissu. — Þannig er högum háttað á vettvangi stjórnmálanna.

Þjóðstjórnin, sem sat að völdum í byrjun ófriðarins, gerði sér ljóst, að nauðsyn væri að forðast verðbólgu. Ráðstafanir voru gerðar, sem settu skorður við örum vexti dýrtíðarinnar, og meðan samvinna var milli flokkanna um þessi mál og önnur, mátti segja, að sæmilegur árangur næðist. En þegar samstarfið rofnaði, fór brátt að halla á ógæfuhliðina, og síðari hluta ársins 1942 var verðbólgunni gefinn laus taumurinn og dýrtíðaraldan flæddi yfir landið, svo að frá september til desember hækkaði vísitalan úr 195 upp í 272.

Í desember náði verðbólgan hámarki, og var þá ekki annað sýnilegt en hún mundi sprengja öll bönd og hver verðhækkunin reka aðra. Nú varð flestum ljóst, að vá var fyrir dyrum, ef ekkert var að gert. Verðstöðvunarfrumvarpið, sem núverandi stjórn bar fram í desember, stöðvaði ölduna, og síðar voru gerðar aðrar ráðstafanir, sem færðu verðlagið nokkuð til baka. Það, sem síðan hefur gerzt, er landsmönnum öllum svo kunnugt, að ég hirði ekki um að rekja það nánar.

Það, sem til þessa hefur unnizt í dýrtíðarmálunum, er aðallega það, að flóðið var stöðvað og fært nógu mikið aftur til þess að öllum starfsgreinum í landinu væri mögulegt að starfa.

Vegna þess að ekki hefur fengizt samkomulag um raunhæfar aðgerðir til lækkunar dýrtíðinni, hefur það kostað millj. kr. að halda verðbólgunni í skefjum. Margir hafa viljað leggja stjórninni það til lasts, að hún hefur ekki komið fram niðurfærslu á dýrtíðinni með lækkun samtímis á vinnulaunum og afurðaverði, og sumir hafa látið allhátt yfir því, að greiddar væru millj. króna án þess að dýrtíðin lækkaði raunverulega og að féð til verðlækkunarinnar væri tekið af almenningi með sköttum. Virðist svo sem þessir menn vilji láta sleppa dýrtíðinni lausri aftur. En ekki þykir mér ólíklegt, að annað hljóð kæmi í strokkinn, þegar dýrtíðaraldan færi aftur að rísa og allt verðlag að hækka. Háttv. 5. þm. Reykv., Brynjólfur Bjarnason, sagði, að ríkisstjórnin borgaði niður dýrtíðina með verðhækkun á tóbaki og áfengi. Og hann sagði enn fremur, að greiðsla þessi lækkaði ekkert dýrtíðina vegna þess, að féð væri allt tekið af verkamönnum, fiskimönnum og annarri alþýðu.

Ég verð að mótmæla því fyrir hönd þessara stétta, að þetta sé rétt. Þessi háttv. þm. ber á þær last, sem þær áreiðanlega eiga ekki skilið. Þar af leiðandi er rökfærsla hins háttv. þm. röng. — Það er rétt, að tekið hefur verið úr einum vasanum og sett í hinn til þess að jafna kjörin og stöðva skriðuna. En þessa gagnrýnendur vildi ég spyrja: Hafa þeir gert sér ljóst, hvaða ástand væri nú hér í landinu, ef dýrtíðinni hefði allt þetta ár verið leyft að leika lausum hala? Hafa þeir gert sér ljóst, að þær milljónir, sem greiddar eru í verðbætur og vér höfum til þessa haft efni á að greiða, mynda þann stíflugarð, sem komið hefur í veg fyrir fjárhagslega upplausn og veitt hefur atvinnuvegunum næði og möguleika til starfa? Er hægt að segja, að slíku fé sé kastað á glæ, jafnvel þótt það lækki lítið dýrtíðina? Hvað eru nokkrar milljónir (sem þjóðin hefur efni á að greiða) á við það, að gjaldmiðill hennar og fjármálakerfi hrynji í rúst? Af ástæðum, sem flestum eru kunnar, megna þessar fjárgreiðslur ekki að lækka mikið dýrtíðina, en þær eiga að geta haldið verðbólgunni í skefjum. En það er ekki varanleg lausn. Og engin lausn á þessum málum til frambúðar er teljandi, fyrr en framleiðslukostnaður hér er kominn á svipað stig og hann er í nágrannalöndum vorum. Fyrr en þjóðin gerir sér þetta fyllilega ljóst og hún sér þá hættu, sem framundan er, færast þessi mál ekki í rétt horf.

Ég hygg, að það sé engum ljósara en mér, að núverandi ástand getur ekki staðið til frambúðar, ef vel á að fara. Fjárframlag vegna dýrtíðar varir ekki óendanlega. Næsta ár mun það að líkindum falla niður með breyttu ástandi. En það, sem þá varðar þjóðina mestu, er það, að verðlagið í landinu sé ekki svo hátt, að ógerlegt sé fyrir landsmenn að framleiða vörur til útflutnings, sem aðrar þjóðir geta keypt. Ef framleiðslukostnaðurinn er of hár, þá stöðvast atvinnuvegirnir og fátækt og bjargleysi sezt hér að.

Síðustu dagana hefur verið frá því skýrt, að farið væri að bera á atvinnuleysi í allstórum stil. Þessi fregn hefur vakið marga af svefni. Í fjögur ár hafa menn ekki þurft að hafa áhyggjur af slíkum vágesti, og margir hafa vafalaust talið sér trú um, að atvinnuleysi fyrri ára væri vondur draumur, sem ekki væri mark á takandi. En nú rís skugginn á veggnum af þessum forna vágesti — eftir fjögurra ára starfsgnægð. Veruleikinn er oftast kaldur og beizkur. Verðbólgan innlenda, sem risin er af nægtunum og eftirspurninni um vinnuaflið, gerir atvinnuleysi nú miklu ægilegra en það hefur nokkru sinni áður verið. Verðlagið er svo hátt á öllum lífsnauðsynjum, að sparifé almennings hrekkur skammt fyrir öllum þörfum, þegar einskis er aflað á móti vegna þess að atvinnuna skortir.

Ef nú væri horfið að því óviturlega ráði að gefa dýrtíðinni lausan tauminn, þá mundi það verka á tvennan hátt. Það mundi í fyrsta lagi auka atvinnuleysið stórkostlega, með því að hækka svo framleiðslukostnað margra atvinnugreina, að þær yrði að stanza. Það mundi í öðru lagi gera afleiðingar atvinnuleysisins enn ægilegri, með því að hækka úr hófi og miklu meira en nú er flestar lífsnauðsynjar. Það verður ekki til þess hugsað nema með hryllingi að þurfa að berjast við þessa tvo vágesti í senn: dýrtíð og atvinnuleysi, meðan þjóðin stendur pólitískt sundruð og skortir sterka leiðsögu á Alþingi til þess að komast út úr ógöngunum.

Manni verður fyrst að spyrja sjálfan sig: Hvers vegna er ríkissjóður að safna sjóðum til framkvæmda eftir ófriðinn, ef hin stígandi alda dýrtíðarinnar gerir þessa sjóði einskis virði? Hvers vegna eru landsmenn að leggja til hliðar sparifé, hvers vegna er verið að stofna nýbyggingarsjóði, ef þetta ætti allt að verða að reyk og ösku í bruna verðbólgunnar? Allt þetta væru ráðstafanir út í bláinn, fávíslegar, broslegar og rökvana, ef ekki ætti að halda verðbólgunni í skefjum, ef ekki ætti að berjast gegn dýrtíðinni, verðhækkuninni, verðbólgunni með oddi og egg, með hnúum og hnefum, með öllum þeim ráðum, sem þjóðin hefur fram að bera.

Háttv. 5. þm. Reykv., Brynjólfur Bjarnason, sagði hér fyrir stundu, að hægt sé að lækna dýrtíðarástandið varanlega með því að afnema alla tolla á aðfluttum vörum. Vegna þess að einhverjir kunna að leggja trúnað á, að þetta sé rétt og að þetta sé framkvæmanlegt, skal ég gefa nokkrar skýringar í þessu efni.

Tekjur ríkissjóðs af vörumagnstolli og verðtolli síðasta ár námu nálega helmingi af öllum ríkistekjum, eða um 48 millj. kr. Ef þessu væri kippt í burtu, án þess að aðrar tekjur kæmu í staðinn, sem erfitt yrði að finna, gæti ríkið á engan hátt haldið uppi hinum brýnustu framkvæmdum þjóðfélagsins. Af þessum ástæðum einum væri hugmyndin óframkvæmanleg.

Ef hins vegar er litið á það, hversu mikið væri hægt að lækka dýrtíðina á þennan hátt, þá kemur í ljós, að þetta hefur miklu minni áhrif á afkomu manna og þar með vísitöluna en margir munu ætla. Með því að afnema alla tolla á þeim innfluttu vörum, sem koma til greina í vísitölunni, og verð varanna því lækkað að sama skapi, mundu áhrifin verða milli 15 og 20 stig til lækkunar. Árangurinn yrði sama og engin lækkun á núverandi vísitölu (259), ef jafnframt yrði kippt burtu þeim fjárframlögum, sem nú lækka afurðaverð á innlendum markaði. Dýrtíðin mundi því lítið eða ekkert breytast, en aðferðin mundi kosta ríkissjóð stórfé, milljónir umfram það, sem nú er.

Mönnum er því óhætt strax að yfirgefa þá von, ef einhver hefur borið hana í brjósti, að þessi hugmynd sé stoð, sem hægt sé að styðjast við í baráttunni við dýrtíðina.

Sumir vilja halda því fram, að ekki beri að blanda saman dýrtíð og vísitölu, því að það sé tvennt ólíkt. Já, það er svo. Ég hygg, að til lítils yrði sú dýrtíðarlækkun, sem ekki hefði áhrif á vísitöluna, og kynleg sú vísitölulækkun, sem ekki hefði að einhverju leyti áhrif á dýrtíðina. En sumum blöðum virðist auðvelt að rugla hugsun almennings í þessum efnum.

Því er oft hampað í þessum sömu blöðum, að ríkisstjórnin greiði tugmilljónir úr ríkissjóði án þess að dýrtíðin lækki raunverulega. Ég hef þegar gert að umtalsefni, hvaða árangur náist með þessum greiðslum og hvernig mundi umhorfs hér, ef þær hefðu ekki verið inntar af hendi. En ég vil gjarnan skýra frá því, hversu miklu þessar greiðslur nema, þær greiðslur, sem ríkisstj. hefur ráðstafað upp á eigin spýtur, en samkvæmt lagaheimildum, og þær greiðslur, sem hún hefur annazt samkvæmt beinni ákvörðun Alþingis.

Skal ég þá fyrst taka þær verðuppbætur, sem greiddar hafa verið samkvæmt ákvörðun Alþingis í dýrtíðarlögunum frá síðasta þingi á tímabilinu 1. maí til 15. sept., fyrir mjólk og kjöt. Þær nema samtals um 4950 þús. kr.

Verðuppbætur á landbúnaðarvörur samkvæmt ákvörðun ríkisstj., sérstaklega á tímabilinu 1. jan. til 30. apríl, 1450 þús. kr., 15. sept. til 31. des. áætlað 3200 þús. kr. Samtals mætti þá áætla, að fjárframlag til verðlækkunar á innlendum markaði allt þetta ár muni nema um 9600 þús. kr. Þetta er að nokkru leyti áætlunarupphæð, en mun ekki fara fjarri lagi.

Þetta er mikil fjárhæð, það skal fúslega játað, sem betur hefði mátt verja, ef heilbrigt hefði verið fjárhags- og atvinnuástandið í landinu. En eins og nú standa sakir um óáran í mannfólkinu og sjúkleika í atvinnu- og fjármálum, þá verður varla sagt, að miklu hafi verið kostað til að byggja garðinn, sem til þessa hefur staðið gegn því, að skriðan færi af stað og urðaði þetta litla þjóðfélag í erfiðleikum.

Ég hef orðið nokkuð margorður um dýrtíðina, enda verður varla annað sagt en að hún sé eitt örðugasta og örlagaríkasta viðfangsefnið, sem þjóðin hefur nú á höndum sér, og það viðfangsefnið, sem almenningur gerir sér sízt rétta grein fyrir.

Ef ég ætti að draga saman í litla mynd þær athuganir, sem ég hef nú gert að umtalsefni, í því skyni að gera sér grein fyrir heimilisástæðunum hjá oss Íslendingum eftir fjögur styrjaldarár, þá mundi sú mynd vera á þessa leið:

Oss hafa fallið talsverðir fjármunir í skaut, sem nota mætti til þarflegra hluta, ef viturlega er að farið. Meginstoðirnar, sem standa undir atvinnulífi þjóðarinnar, eru orðnar fúnar og ótraustar og þarfnast endurnýjunar, ef húsið á ekki að hrynja oss yfir höfuðið. Samlyndið á heimilinu er þannig, að hver höndin rís móti annarri, og enginn vill annars ráð nýta. Það er pest í búpeningnum, sem ógnar með algeru hruni, vegna þess að heimilisfólkið hefur ekki komið sér saman um, hverjum beri skylda til að annast hann.

Þessi mynd er ekki fjarri sanni, þótt hún sé köld. Eitthvað svipað þessu er umhorfs hér um þessar mundir. Hér er ærið dagsverk að vinna fyrir velviljaða og víðsýna menn.

Núverandi stjórn tók við störfum vegna öngþveitis, sem myndazt hafði í stjórnmálunum, vegna sundurlyndis, er ríkjandi var milli flokkanna. Hún hefur setið um stund, og sumir hafa litið á hana sem fimmta flokkinn í þinginu, vegna þess að hún hefur í ýmsu brotið í bág við stefnumál allra flokka. Hún hefur leitazt við að gegna skyldum sínum, eins og hún hefur skilið þær, gagnvart þjóðinni. Hún hefur gert það, sem hún taldi réttast, án tillits til þess, hvað um framkvæmdir hennar væri sagt. Hún hefur setið í þökk sumra, en óþökk annarra. Af þinginu hefur sumum málum hennar verið tekið vel, en öðrum miður. Ef til vill má segja, að hún fái liðveizlu frá öllum flokkum, þótt enginn þeirra hafi tekið hana sérstöku ástfóstri. Hún hefur ekki sérstakar ástæður til þess að barma sér, þótt ekki verði sagt, að allt sé með felldu. En hins er ekki að dyljast, að ríkisvaldið hefur ekki þann bakhjall, sem því er nauðsynlegur, og þingið sjálft skortir eðlilegt aðhald til starfa, vegna þess að samstarfið er í molum.

Öllum hugsandi mönnum hlýtur að vera það ljóst, að svona getur þetta ekki verið til frambúðar. Þótt núverandi ástand í löggjafar- og framkvæmdarstörf þjóðarinnar hafi lánazt án mikilla árekstra undanfarna 11 mánuði og kunni að blessast einhvern tíma enn, þá er það engin varanleg lausn.

Í þingræðislandi getur engin ríkisstjórn farið með völd til lengdar og unnið þjóð sinni það gagn, sem henni ber, nema hún hafi meiri hluta þings að baki sér og sá meiri hluti sé einhuga um þá stefnu, sem fylgja ber. Annars er löggjafarþing þjóðarinnar eins og skip, sem lætur ekki að stjórn, eins og strá fyrir straumi.

Ég hygg, að hvergi sé skýrari skilningur á þessum vanda en á sjálfu Alþingi. Og það er hlutverk flokkanna að hefja sig yfir hina þröngu flokkshyggju, sem staðið hefur stjórnmálunum undanfarið fyrir þrifum. Þeirra hlutverk er ekki að vera ríki í ríkinu. Þjóðin er ekki til fyrir þá. Þeir eru til vegna þjóðarinnar, og þeirra hlutverk er þjónusta, — þjónusta við þjóð sína. Þessi þjóð, vandanum vafin eins og hún er og verður í nálægri framtíð, hefur aldrei þurft nauðsynlegar á þessari þjónustu að halda en nú. Hún hefur aldrei þurft eins á því að halda og nú að hafa sterka og viturlega forustu. Hún hefur aldrei verið meira þurfandi en nú fyrir samstarf allra þjóðhollra manna, til að ráða niðurlögum þeirra erfiðleika, sem ófriðarástandið hefur skapað, og til að mynda nýjan grundvöll fyrir starfi hennar og frelsi á komandi tímum.

Það er hlutverk og skylda flokkanna að gera Alþingi starfhæft og sterkt, svo að þjóðin geti haft í fullu tré við verkefni og vanda komandi tíma. Ef flokkarnir bregðast þessari skyldu sinni, þá hafa þeir líka brugðizt þjóð sinni á örlagastund.