16.09.1943
Neðri deild: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

45. mál, hafnarbótasjóður

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Aðalefni frv. þess, sem ég og hv. 7. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. flytjum hér, er að stofna sjóð, er nefnist hafnarbótasjóður. Tilgangurinn er sá að stuðla að bættum hafnar- og lendingarskilyrðum í sjávarþorpum og kaupstöðum, sem liggja vel við fiskimiðum. Það er öllum kunnugt, að einn versti þröskuldur þess, að sjósókn sé stunduð með árangri á ýmsum stöðum, er hafnleysið. Fjölda margir staðir, sem vel liggja við fiskimiðum, eiga þess lítinn kost að hagnýta sér þá góðu aðstöðu, en það er vitað, að með bættum skilyrðum er í senn hægt að efla aðstöðu þeirra og skapa aukin verðmæti til útflutnings. En meginverðmætin koma frá sjávarútveginum, og því er þessu fé vel varið fyrir þjóðina í heild.

Ég tel ekki nauðsyn á að fara mörgum orðum um frv. Það er ætlazt til, að í sjóðinn verði lagðar í upphafi af tekjuafgangi ársins 1943 3 millj. kr. og 300 þús. kr. á ári eftir það. Ég vil þó taka það fram, að það, sem fyrir okkur vakir, er fyrst og fremst það, að staðir, sem vel liggja við miðum, verði styrktir. Þrátt fyrir það að hafnarl. hafi fengizt sett fyrir marga staði, hafa ýmsir þeirra ekki haft bolmagn til að hefja framkvæmdir. Framkvæmdirnar eru svo umfangsmiklar og dýrar, að byggðarlögin rísa ekki undir þeim, ef þau eiga að leggja á móti framlagi ríkisins helming kostnaðar eða meira. Því höfum við flm. flutt frv. þetta.

Ég tel hér vera um mikið nauðsynjamál að ræða, einkum fyrir smáútgerðina, þar eð staðir með stórútgerð hafa oft betri aðstöðu til fjárframlaga. Smærri staðir hafa ekki eins mikið bolmagn til að skapa skilyrði til útgerðar. Nái þetta frv. fram að ganga, mun það verða til að auka smáútgerðina og útflutningsverðmæti þjóðarinnar.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að frv. verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr.