26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

45. mál, hafnarbótasjóður

Pétur Ottesen:

Ég hreyfði nokkrum athugasemdum við þetta frv. við 1. umr., sem lutu einkum að því að benda á, að samkvæmt orðalagi þess væru kaupstaðirnir útilokaðir frá framlögum úr þessum sjóði. Það er vitað, að svo stendur á sums staðar í kaupstöðum, að aðstæður til hafnargerða eru svo erfiðar, að ekki er hægt að tryggja afgreiðslu og legu skipa nema með ærnu fé. Það er því fjarri öllum sanni að útiloka þá í þessu sambandi. Það kom að vísu strax fram hjá hv. 1. flm., að þetta hefði ekki verið meiningin, en samkvæmt orðanna hljóðan hefðu kaupstaðirnir verið útilokaðir, ef orðalaginu hefði ekki verið breytt. Ég er því hv. sjútvn. þakklátur fyrir þessa breyt.

Viðvíkjandi fyrri lið í brtt. n. við 2. gr., þá held ég, að fullt eins rétt væri að láta það vera eins og stendur í frv., að féð sé tekið af tekjuafgangi ársins 1943 eða úr framkvæmdasjóði ríkisins, ef tekjuafgangur verður ekki nægur. Í þeim sjóði eru nú tiltækar 8 milljónir kr. Það væri því öruggt með stofnframlag sjóðsins með því móti. Hins vegar væri leiðinlegt, ef niðurstaða ársins 1943 væri ekki hagstæð, — og hún mun ekki verða eins góð og síðastliðið ár, — að hafa gripið til þeirrar ráðstöfunar, sem n. leggur til. Aðalatriðið er að tryggja féð, og það verður eins vel gert með orðalagi frv.

Ég er því sammála hv. 2. þm. S.-M. um þetta atriði, sem stendur einn um það af nm.