15.11.1943
Efri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

99. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Ég vil aðeins taka það fram hér til áréttingar máli mínu, að mér láðist að geta þess, að þetta frv. var, meðan málið lá hjá landbn. Nd., sent veiðimálan. til umsagnar. Form. veiðimálan. taldi yfir leitt varhugavert að leyfa þessa netaveiði öðruvísi en í heimildarformi, þannig að fyrst sé leitað um þetta álits veiðimálan., eins og er í þessu frv., en einmitt það breytti afstöðu n., að hún vildi fara eftir bendingum veiðimálan. í þessu, þannig að það væri aðeins heimild.

Ég vil líka segja það, að þó að maður sé í landbn., verður maður þó að taka tillit til hagræðis við sjávarsíðuna, og ef svo hittist á, að ekki sé veiðivon, þannig að ekki sé silungsganga, en beitulítið við Eyjafjörð, finnst mér viðurhlutamikið að hafa svo ströng l., að þau banni þar síldveiði alveg undantekningarlaust. Það getur verið réttlátt að hafa þessa heimild til, ef nauðsyn krefst, og ég geri ráð fyrir, að hún verði ekki notuð nema í ýtrustu nauðsyn. En ef svo skyldi vera, að hv. 1. þm. Eyf. sæi ástæðu til milli 2. og 3. umr. að koma með brtt., sem bætti úr, er sjálfsagt að taka hana til athugunar, en eins og sakir standa, tel ég hættulaust að samþykkja þetta frv., eins og það liggur fyrir.